30 þúsund lögðust inn á sjúkrahús

Tæplega 30 þúsund einstaklingar lögðust inn á sjúkrahús á síðasta ári, þetta kemur fram í Talnabrunni Landlæknisembættisins. Sextíu prósent þeirra sem lögðust inn voru konur og 40 prósent karlar. Í Talnabrunni segir að ástæður innlagna séu mismunandi eftir kyni. Flestar innlagnir hjá körlum voru vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi. Næst þar á eftir voru innlagnir vegna geð- og atferlisraskana og þriðja algengasta orsökin voru krabbamein. Flestar innlagnir hjá konum voru í tengslum við meðgöngu og barnsburð en þar næst voru innlagnir vegna sjúkdóma í vöðva- og beinakerfi og í bandvef, innlagnir vegna slysa og innlagnir vegna krabbameina.  Að sama skapi er munur á ástæðum innlagna á milli aldurshópa. Sé litið til  undanfarinna 10 ára, 2008 til 2017, kemur í ljós að lærbrot var algengasta orsök innlagnar hjá konum 85 ára og eldri. Á tímabilinu lögðust að meðaltali 153 konur í þessum aldurshópi inn vegna þessa á ári hverju. Næst þar á eftir voru  innlagnir vegna hjartabilunar að meðaltali 103 ár ári og loks vegna lungnabólgu að meðaltali 66 á ári  Á sama tímabili voru helstu ástæður innlagna hjá körlum í þessum aldurshópi hjartabilun, lungnabólga og lærbrot. Að meðaltali lögðust 98 karlar inn árlega vegna hjartabilunar og ríflega 60 vegna lungnabólgu eða lærbrots. Lærbrot voru einnig algengasta innlagnarástæða hjá konum á aldrinum 75 til 84 ára en þar á eftir langvinnur teppulungnasjúkdómur. Hjá körlum á þessum aldri voru flestar innlagnir vegna hjartasjúkdóma eða lungnabólgu. Hjá körlum á aldrinum 25 til 44 ára voru geðsjúkdómar algengustu orsakir þess að þeir lögðust inn á sjúkrahús á tímabilinu 2008 til 2017. Flestar innlagnir voru vegna geðklofa en þar á eftir voru innlagnir vegna geð og atferlisraskana af völdum áfengisnotkunar eða notkunar lyfja og annarra geðvirkra efna. Konur á þessum aldri lögðust lang oftast inn vegna barnsfæðingar en kviðarhols og grindarholsverkur og  gallsteinar komu þar næst í röðinni.  Sjá nánar í Talnabrunni hér.

Ritstjórn nóvember 8, 2018 12:36