Frægu, frönsku pönnukökurnar

Eru pönnukökur ekki bara pönnukökur spyrja margir. Frakkar eru ekki sammála því og kalla sínar Crepes Suzettes og í eyrum hljómar þetta franska heiti eins og bjölluhljómur. Það sem einkennir þessar frönsku er líklega allt smjörið sem notað er við tilbúninginn og svo auðvitað líkjörinn sem er ómissandi. Ef koma á gestum á óvart í lok skemmtilegrar máltíðar eru frönsku pönnukökurnar skotheldar því hægt er að búa til áhrifamikinn endi á máltíðina með þvi að kveikja í eftirréttinum.

Deigið:

100 g hveiti

1/2 tsk. salt

1 egg

3 dl mjólk

1 msk. brætt smjör

smjör til steikingar

Blandið hveiti og salti í skál og gerið holu í miðjunni. Hrærið eggið með gaffli og setjið í holuna. Hrærið hveitinu og egginu saman og hellið mjólkinni út í smátt og smátt. Að síðustu er brædda smjörinu blandað saman við. Látið deigið bíða í 30 mínútur. Hitið pönnukökupönnu yfir miklum hita og penslið yfir hana með smjöri. Bakið nú 12 þunnar pönnukökur úr deiginu og penslið pönnuna alltaf með smjöri á milli. Setjið deigið á pönnuna og hellið af henni í skálina svo pönnukökurnar verði sem þynnstar.

Fylling:

100 g sykur

100 g smjör, mjúkt

100 g malaðar möndlur

2 tsk. appelsínulíkjör, t.d. Grand Marnier eða Cointreau

brætt smjör til penslunar

Blandið öllu hráefninu í fyllinguna saman. Setjið örlítið á hverja pönnuköku og leggið þær saman, sjá mynd. Leggið pönnukökurnar í eldfast fat og penslið yfir þær með brædddu smjöri. Þetta má gera með góðum fyrirvara og geyma í ísskáp.

Við framreiðslu:

85 ml koníak

85 ml appelsínulíkjör, sá sami og notaður var í fyllinguna

Setjið pönnukökufatið í 230 C heitan ofn í 5 mínútur. Hitið áfengið á meðan í potti. Takið fatið úr ofninum, hellið áfenginu yfir og kveikið í. Þetta er hinn skemmtilegasti gjörningur við matarborðið og mjög fallegt er að skera ræmur af appelsínuberki af lífrænt ræktuðum appelsínum og skreyta pönnukökurnar i fatinu.

 

Ritstjórn febrúar 19, 2022 11:35