Þegar líður á lífið förum við að sjá tilveru okkar í stærra samhengi. Sumir verða trúaðri með aldrinum, meðan aðrir fá meiri áhuga á forfeðrum sínum og afkomendum og þeirri staðreynd að sjálf erum við aðeins lítill hlekkur í órofa keðju þróunarsögu mannsins. Keðju sem var til í árdaga fyrir hreina tilviljun eða slembilukku. Móðir mín, Herdís Þorvaldsdóttir, varð ákaflega trúuð með aldrinum, en á sinn sérstaka hátt. Hún trúði því að lífið væri skóli og handan alls yrði árangur okkar metinn og við annaðhvort send aftur til jarðarinnar til að taka út meiri þroska, eða umbunað fyrir góðan árangur með því að fá að sameinast alheimsmeðvitundinni. Ég hafði enga forsendu til að beinlínis mótmæla, þetta var hennar trú, en ég gat ekki tekið undir með henni. Sennilega er ég alveg trúlaus, ég get að minnsta kosti ómögulega séð fyrir mér að það sé til einhverskonar æðri vitund sem líti til með okkur mönnunum, leggi fyrir okkur verkefni og hindranir og meti síðan árangurinn. Ég er þeirrar skoðunar að þetta búi allt með okkur sjálfum, við séum okkar eigin ritskoðarar. Samviska okkar sjálfra ráði hamingju okkar og þegar við breytum gegn betri vitund, ráði hún óhamingju okkar. Í trúi ekki á annað framhaldslífið en það sem felst í afkomendum okkar og litlu hlekkjunum sem taka við hver af öðrum og tengjast innbyrðis. Við sjálf sofnum hins vegar svefninum langa þegar þar að kemur og hverfum.
Móðir mín lést árið 2013, á nítugasta aldursári, eftir farsælan feril sem leikkona. Raunar stóð hún á sviðinu aðeins tíu dögum fyrir andlát sitt í leikritinu „Karma fyrir fugla“ eftir Kristínu Eiríksdóttur, en þegar hún sá að hverju stefndi, bað hún um að ösku hennar yrði dreift í hina heilögu Ganges á Indlandi. Líklega nokkuð rökrétt þar sem trúarbrögð hennar samræmdust einna helst hinduisma, en dálítið framandi og næsta óframkvæmanlegt í hugum okkar afkomendanna, enda varð bið á að ósk hennar yrði uppfyllt.
Ég á góða vinkonu sem hefur fylgt mér í gegnum lífið, Kristínu Hauksdóttur, sýningastjóra. Við brölluðum margt á unglingsárunum, unnum saman í fiski og bjuggum í verbúð, lásum saman undir stúdentspróf og fórum saman í sumarfrí með börnin þegar þannig stóð á. Á síðari árum höfum við síðan tekið upp á því að fara saman í menningarferðir til framandi land, með breskri ferðaskrifstofu sem við höfum tekið ástfóstri við, enda að jafnaði boðið upp á mikinn fróðleik. Við höfum heimsótt Ítalíu, Marokkó, Jórdaníu og þar kom að ferð til Indlands var á dagskránni og þar með ef til vill tækifæri til að verða við hinstu ósk Herdísar. Að vísu var ferðin skipulögð þannig að það lá fyrir að við færum ekki nærri Ganges, en ýmsar ár í norðrinu sameinast henni síðar, svo þetta var ekki útilokað.
Ég hafði samband við Indverska sendiráðið í Reykjavík til að leita ráða, en fékk að vita þar að þessi trúarsiður er aðeins fyrir hindúa og auk þess ekki leyfilegt að fara með ösku inn í landið. Ég þrjóskaðist samt við, setti öskuna í plastpoka og pakkaði niður með snyrtidótinu, ætlað að segja að þetta væri andlitsmaski, ef einhver gerði athugasemd.
Ferðin var frábær, leiðsögumaðurinn ákaflega fróður um allt sem snéri að indverskri menningu og trúarbrögðum og okkur varð vel til vina. Þegar leið á ferðina ákvað ég að trúa honum fyrir vandræðum mínum og mér til mikillar ánægju brást hann vel við, fannst það í raun alveg frábært að gömul kona á Íslandi, hefði virt trúarsiði og menningu Indverja svona mikils. Hann hét því að hjálpa og daginn eftir sótti hann okkur vinkonurnar fyrir allar aldir og ók með okkur að minningarhofi við Immuna ána, rétt hjá sjálfu Taj Mahal. Hofið, sem er hið glæsilegasta var reist af dóttur til minningar um látna foreldra og við innganginn að grafhýsi móðurinnar stillti ég upp litlum bréfbáti með dufti Herdísar og fór með uppáhalds ljóðið hennar sem hinstu kveðju. Síðan var bréfbátnum fleytt niður ána undir blessunarorðum hindúaprests, sem okkar maður hafði fengið til liðs við okkur. „Nú er hún eitt með alheimsvitundinni“ sagði hann þar sem við horfðum á eftir bátnum niður ána.
Ég smellti af nokkrum myndum meðan á þessu stóð, en Það var ekki fyrr en ég fór að skoða myndirnar seinna sama dag sem ég sá dúfuna. Hún sat við hliðina á bréfbátnum við drottningarhofið og hallaði undir flatt, eins og hún væri að virða innihaldið fyrir sér. Mér fannst þetta furðulegt og í raun alveg stórmerkileg. Ég hafði alls ekki séð neina dúfu þarna um morguninn og ég gat ekki að mér gert að verða hugsað til þess táknræna hlutverks sem dúfur hafa í mörgum trúarbrögðum, ekki síst hindúisma. Það sem mér fannst þó eiginlega merkilegast af öllu, var hve sterklega þetta kallaðist á við síðasta hlutverk Herdísar á leiksvið, sem fólst í því að birtist í blálok leikritsins sem hvítklædd nunna og opna fuglabúr sem hékk niður úr loftinu. Á leiksviðinu var enginn fugl í búrinu, bara hljóðrás, en í handriti stóð „hún opnar búrið og dúfan flýgur út“.