Fríða og Dýrið

Ekki fá allar ástarsögur þann endi að elskendurnir gangi saman upp að altarinu og heiti hvort öðru ævarandi tryggð. Þannig fór ástarsamband Mariu Callas og skipakóngsins Aristotle Onassis en það kann að hljóma undarlega eru margir sem halda því fram að hann hafi alltaf elskað Mariu þótt hann giftist annarri.

Maria Callas þótti einstaklega fögur kona en Onassis lítið aðlaðandi. Í fjölmiðlamenn uppnefdu þau Fríðu og Dýrið.

Maria, þessi glæsilega söngkona, söng ekki bara stórkostlega heldur var hún mikil leikkona líka. Hún hafði til að bera mjög sérstæða fegurð og Þau María og Ari, eins og Onassis var jafnan kallaður,  hittust árið 1959 í London eftir að hún hafði sungið í frægri uppfærslu á óperunni Medeu eftir Cherubini.

Þetta var í fyrsta sinn í mörg ár sem ópera þessi var sett upp enda þykir erfitt að finna söngkonu sem sungið gæti hlutverkið. Eftir að Jason elskhugi Medeu hefur svikið hana í tryggðum drepur hún börnin þeirra tvö í hefndarskyni. Jafnan hefur þótt leitun á söngkonu sem bæði er fær um að túlka tónlist Cherubinis og hádramatískt hlutverk móður sem hefndarþorstinn leiðir svo langt. María þótti skila hlutverkinu betur en nokkur önnur. Onassis var viðstaddur sýninguna ásamt konu sinni og hélt veislu á Dorchester hótelinu á eftir. Þangað kom María ásamt eiginmanni sínum Battista Meneghini. Onassis bauð þeim hjónum í skemmtisiglingu á snekkju sinni en María afþakkaði. Tveimur dögum seinna snerist henni hugur og hjól örlaganna byrjuðu að snúast.

María hafði unnið mjög mikið árum saman og heilsa hennar var tekin að bila vegna ofreynslu. Blóðþrýstingur hennar var mjög lágur og hjarta hennar veikt. Læknar höfðu lengi varað hana við of miklu vinnuálagi en eiginmaður hennar sem einnig var umboðsmaður hennar sá ekki betur en svo um viðskiptamál konu sinnar að hún gat sjaldan tekið frí. Um borð í snekkjunni slakaði María á í fyrsta skipti í mörg ár og naut lífsins betur en nokkru sinni fyrr. Hún og Onassis voru samlandar, bæði grísk, og þegar snekkjan Christina silgdi inn í höfnina í Piraeus var ákveðið að ganga fyrir einn helsta patríarka grísku rétttrúnaðarkirkjunnar Athenagoras. Patríarkinn blessaði þau Maríu og Onassis og þegar þau krupu fram fyrir honum til að taka við blessun hans var engu líkara en að verið væri að gifta þau. Mörgum árum seinna sagði Meneghini um þennan atburð að þar hefði hann séð framtíðina í sjónhending og að örlögin hefðu eyðilagt líf sitt.

Maria Callas með Aristotle Onassis en samband þeirra vakti mikla athygli.

Mjög svo opinber fylgikona

Margt bendir til þess að María hafi verið orðin þreytt á eiginmanni sínum þegar ferðin hófst. Í viðtali við Stelios nokkru síðar sagði hún: „Ég áleit að eiginmaður minn myndi sjá um öll mín mál önnur en þau sem sneru að listinni – það var algjörlega mín deild – hann ætti að hugga mig og vernda svo ég gæti útilokað hverdagsleg áhyggjuefni. Þetta kann að hljóma eigingjarnt af mér en það var eina leiðin til að ég gæti þjónað listinni af einlægni og ást.” En hvort sem brestirnir voru stórir eða litlir lauk ferð hjónanna á snekkjunni Christinu með því að María skildi við mann sinn.

Vinátta hennar og Onassis þróaðist hratt eftir skilnaðinn og þau sáust víða saman opinberlega. Þegar ástarsamband þeirra hófst töluðu blöðin um að þar færu Fríða og Dýrið. Tina eiginkona Onassis mátti sætta sig við að eiginmaðurinn gerði ástkonunni hærra undir höfði en henni. Þetta var svo sem ekki í fyrsta sinn sem Onassis tók sér ástkonu. María var að því leyti sérstök að hann gerði enga tilraun til að leyna sambandi þeirra og þó hann stofnaði til skyndikynna við aðrar konur meðan hann var með henni kom hann að sumu leyti fram við hana eins og eiginkonu. María sú eina sem Onassis hikaði ekki við að sýna sig aftur og aftur með hvar sem fína og ríka fólkið kom saman þannig sýndi hann hversu mikla virðingu hann bar fyrir henni.

María segir að ástarsamband hafi ekki byrjað á milli þeirra fyrr en talsverðu eftir að hún skildi við mann sinn. Hún segist hafa litið á hann fyrst og fremst sem vin sem væri nægilega sterkur og áhrifamikill til að fleyta sér yfir erfiðleika samfara skilnaðinum. Ástir þeirra voru ástríðufullar og heitar. Þau rifust oft heiftarlega, enda ákaflega ólíkar persónur. María segir sjálf að hið mikla keppnisskap Onassis og stöðug þörf hans fyrir að sigra hafi farið í taugarnar á sér. Hann hafi ekki þolað að á nokkurn hátt væri gefið í skyn annað en hann stæði öðrum framar á öllum sviðum.

Rödd Mariu var einstök og óperuunnendur telja hana margir enga aðra söngkonu komast með tærnar þar sem hún hafði hælana.

Til marks um það segir hún þá sögu að þegar þau voru einhverju sinni saman í veislu hafi náinn vinur þeirra sagt við hana í stríðnistón: „Ég er viss um að þið turtildúfurnar elskist mjög oft.“ María svaraði af sömu glettni: „Við látum það alveg vera.“ Onassis reiddist heiftarlega og hreytti því í hana að ef svo væri myndi hann hefja ástarleiki við allar aðrar konur en hana og þótt hún væri síðasta kona á jarðríki kæmi hann ekki nálægt henni. Þetta sagði hann á grísku svo að til allrar lukku skildu hann fáir við borðið en María var sárleið. Hún reyndi að útskýra fyrir honum að þetta hefði átt að vera fyndni byggð á úrdrætti og meining orðanna væri algjörlega andstæð því sem fælist í þeim. „Það kann að vera rétt,” svaraði hann, „en mín orð voru þá venjulegt ofhlæði sem skilar mun frekar en þín orð öfugri merkingu.”

Ástlaust hjónaband?

Árið 1968 giftist Onassis öllum á óvörum Jacqueline Kennedy. Allt frá því kona hans Christina dó hafði heimurinn búist við að hann giftist Callas, því kom hjónabandið flestum á óvart og var það mál manna að hann hefði farið illa með ástkonu sína. María varð fyrir miklu áfalli en þegar út kom ævisaga hennar eftir gríska blaðamanninn og vin söngkonunnar Stelios Galatopoulos þar sem hann fullyrðir að Onassis hafi ekki svikið Maríu í tryggðum eins og jafnan hefur verið haldið fram og innan við mánuði eftir brúðkaupið hafi hann verið kominn til hennar aftur. María gaf fyllilega í skyn við Stelios að ástmaður hennar hafi þá gefið henni skýringu á því hvers vegna hann giftist og hún fullyrðir að það hafi ekki verið af ást.

„Í fyrstu neitaði ég að hleypa honum inn,“ sagði hún um endurfundi þeirra í bókinni. „En hvort sem þið trúið því eða ekki tók hann sig til dag nokkurn og stóð fyrir utan húsið mitt og blístraði, eins og ungu mennirnir á Grikklandi gerðu fyrir fimmtíu árum þegar þeir vildu ganga í augun á sínum heittelskuðu. Ég varð að hleypa honum inn áður en blöðin fengju veður af því hvað væri að gerast. Þegar hann sneri aftur til mín svo skömmu eftir hjónaband sitt breyttist vanlíðan mín og reiði í sambland af gleði og ergelsi. Þótt ég viðurkenndi það aldrei fyrir honum að ég hefði mikla trú á að þetta hjónaband hans myndi enda með skilnaði fannst mér að vinátta okkar hefði að minnsta kosti staðist þessa raun og stæði traustum fótum eftir sem áður.

Ég vil að það komi skýrt fram að þegar hann giftist fannst mér ég svikin. Hvaða konu sem er hefði farist á sama veg en ég var þó fremur undrandi en reið. Ég gat alls ekki skilið hvers vegna eftir öll árin okkar saman hann tók upp á því að giftast annarri. Hann giftist ekki af ást. Þetta hjónaband var til komið vegna viðskiptahagsmuna.”

Sagt er að Onassis hafi verið farinn að leggja drög að skilnaði en hætt við þegar sonur hans dó.

Onassis vildi skilnað 

Stelios spyr Maríu þá hvort eitthvað sé til í þeim orðrómi að Rose Kennedy ættmóðir Kennedy-anna hafi komið hjónabandinu í kring gegn því að Onassis gæfi rausnarlega í kosningasjóð sem ætlað var að koma öðrum Kennedy í forsetastól í Bandaríkjunum. Þessu svarar María aðeins á þann veg að Stelios hafi augljóslega betri upplýsingar en hún. Hún bætir við að hún hafi vitað að hjónaband milli þeirra tveggja væri óhugsandi. Bæði vegna þess að Onassis myndi þá hafa farið að líta á hana sem sjálfsagðan hlut líkt og Christinu forðum og einnig vegna þess að þau áttu einfaldlega ekki skap saman. Hún segir þó að hann hafi gefið sér nægilega góða skýringu á hjónabandi sínu til að hún hafi geta fyrirgefið honum.

Tilfinning Maríu reyndist rétt því strax árið 1970 var Onassis farinn að leggja drög að skilnaði en af honum varð þó ekki því sonur hans dó í flugslysi nokkru seinna. Heilsa Onassis, þá þegar viðkvæm því hann þjáðist af vöðvasleni (myasthenia gravis), og áfallið varð til þess að hann missti alla lífslöngun og árið 1975 lést hann. Onassis hafði gert erfðaskrá þar sem Jackie var nánast gerð arflaus og orðrómur fór í gang um að gerður hafi verið kaupmáli á milli þeirra fyrir hjónabandið. Kaupmálinn hefði hljóðað upp á að hjónin byggju aldrei saman og myndu ekki eiga börn, hjónabandið ætti að standa í fimm ár og að þeim loknum fengi Jackie 27 milljónir bandaríkjadala. Margir vina hans sögðust hafa séð kaupmálann en María vill hvorki neita né játa tilvist hans.

„Þegar ég sat við banabeð Aris var hann rólegur og að því er ég held sáttur við sjálfan sig.“ sagði hún. „Við töluðum lítið en náðum vel til hvors annars í þögn. Þegar ég var að fara reyndi hann að tala. Með miklum erfiðismunum sagði hann við mig: „Ég elskaði þig, ekki alltaf vel, en eins mikið og af eins og ég var fær um. Ég virkilega reyndi.” María klökknaði þegar hún sagði Stelios frá þessu en bætti síðan við: „Og þannig var það.”

Í fyrra var frumsýnd kvikmyndin Maria með Angelinu Jolia í hlutverki Mariu Callas. Myndin fékk misjafna dóma og mörgum fannst hún alls ekki draga upp sannferðuga mynd af söngkonunni.

„Ástir þeirra voru ástríðufullar og heitar. Þau rifust oft heiftarlega, enda ákaflega ólíkar persónur. María segir sjálf að hið mikla keppnisskap Onassis og stöðug þörf hans fyrir að sigra hafi farið í taugarnar á sér.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.