„Besta gjöfin að njóta lífsins á þessu skeiði“

Ingveldur Ólafsdóttir, söngkona og útvarpsmaður, hefur lifað viðburðaríku lífi og fengist við margt. Söngur hefur verið stór hluti af hennar lífi en hún vann einnig lengi hjá RÚV. Hún lét gamlan draum um nám rætast tæplega fimmtug en um svipað leyti kom hrunið og þau hjón ákváðu að lokum flytja til Danmerkur. Þar lifa þau góðu lífi og hafa allt sem hugurinn girnist en börn Ingveldar, Ólafur, Hildur og Finnur Torfi búa öll á meginlandinu.

Ingveldur ólst upp í Laugarneshverfinu til sex ára aldurs og segist hafa átt þar yndislega æsku. Þá flutti fjölskyldan í Hafnarfjörðinn og Ingveldur fór í Lækjarskóla. Þar var skólakór starfræktur í eitt ár og fór hún því í barnakór þjóðkirkjunnar.

„Við mamma sungum alla tíð mikið tvíraddað og nú syngjum við Hildur dóttir mín tvíraddað. Finnur Torfi bróðir var í hljómsveitum og ég man þegar strákarnir komu heim að æfa. Ég ætlaði samt ekki í sönginn, ég eiginlega slysaðist í hann.“

Þegar Ingveldur var orðin of gömul fyrir barnakórinn söng hún með Kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju. „Þarna voru Magga Pálma, Jóhanna Linnet og fleiri skvísur. Þarna kynntumst við Jóhanna. Við urðum svo miklar samlokur að fólk er enn að rugla okkur saman. Við tvær vorum partí og alltaf gaman hjá okkur.“

Klöppuð upp sjö sinnum

Ingveldur segist vera hafnfirskur eðalkrati og 16 ára var hún beðin um að syngja á norrænu jafnaðarmannaþingi. „Ég söng með Gunnari Friðþjófssyni á þingi krata á sviði Þjóðleikhússins Helsinki lag eftir Gylfa Þ. Gíslason og þar sló ég svo hressilega í gegn að ég var klöppuð upp sjö sinnum. Olav Palme kom og þakkaði mér fyrir og Anker Jörgensen bað mig að syngja þetta lag aftur og aftur alls staðar  Ég var svo upprifin þegar ég kom heim og sagði við Jóhönnu vinkonu: Þú verður að vera með í þessu og til varð Tríó Bónus. Við sungum mikið fyrir Alþýðuflokkinn og í jarðarförum og brúðkaupum. Jóhanna var í söngtímum hjá Siglinde Kahmann í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og ég fór líka.“

Hugur Ingveldar stóð þó alltaf til að fara í hönnunarnám. „Ég var búin að finna skóla í Finnlandi sem ég ætlaði í og sagði Siglinde það en hún var fljót að svara: Góða, láttu ekki svona. Ég er að fara að kenna í Tónlistarskólanum í Reykjavík og þú tekur inntökupróf.

Ég var hlýðin og mætti. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar í ljós kom að ég þurfti að taka próf í píanóleik en ég hafði lært sem barn á píanó. Allt stórskotaliðið í píanóleik var mætt, allir sem höfðu gert garðinn frægan til að hlusta á C-dúrskalann sem ég spilaði,“ segir Ingveldur og skellihlær. „Ég náði reyndar ekki að klára námið því þáverandi eiginmaður minn Guðni Fransson útskrifaðist sem klarínettleikari og við fórum til Amsterdam. Þar hóf ég nám hjá bandarískum söngkennara, Bill, og lærði heilmikið.

Ég var í boði hjá Bill á þakkargjörðinni þegar aðalsöngkonan við Stuttgartóperuna hringdi í hann hágrátandi. Hún var að koma af sýningu og var ein uppi á köldu hótelherbergi, fjarri fjölskyldu og vinum. Þarna hugsaði ég með mér; guð minn góður þetta er ekki spennandi. En ég hélt áfram það var svo gaman. Bill flutti til Toronto og ég elti. Þá var ég skilin við Guðna en fór ein með dóttur okkar Hildi. Fólkið þarna var einstaklega elskulegt þannig að þetta gekk upp. Ég fann aldrei fyrir því að vera fjölskyldulaus og konurnar í Íslendingafélaginu voru dásamlegar. Þarna var ég í eitt ár en þá hætti Lánasjóðurinn að lána fyrir einkanámi og aftur stóð ég á krossgötum. Bill vildi að ég færi að syngja fyrir, m.a. í Chicago en ég fór heim.

Maður þarf að hafa rosalegan metnað til að leggja út á þessa braut, þetta er ekki fyrir alla og þessu fylgir óvissa. Og svo var það Hildur. Ég var með skuldir á bakinu eftir námið en ég fékk strax vinnu við að þjóna. Ég heyrði að auglýst var eftir manneskju í Morgunútvarpið, sótti um í bríaríi og var ráðin. Ég hafði aldrei komið nálægt útvarpi og þetta var í beinni útsendingu. Ég fékk leiðbeiningu um hvernig handrit ætti nokkurn veginn að vera, það var manneskja með mér í tvö skipti. Eftir það var ég ein og hálf þjóðin að hlusta,“ segir Ingveldur og skellir upp úr. „Ég hafði verið í Bústaðakórnum hjá Guðna Guðmundssyni og hann átti það til að rétta manni nótur sem maður þurfti að syngja beint af blaði í jarðarför eða messu. Þetta var besti stressskóli sem maður gat fengið. Ég söng mikið í brúðkaupum og við fórum á milli kirkna á trabantinum hans Guðna. Þetta var mjög skemmtilegur tími, ég vann mikið, oft fram á kvöld við að klára dagskrárgerðina sem ég var í í eitt og hálft ár en eignaðist þá Finn Torfa. Ég var ekki fastráðin og missti vinnuna eftir fæðingarorlofið en fékk vinnu í Sjónvarpinu. Þar vann ég sem aðstoðardagskrárgerðarmaður og það var góð reynsla. Ég starfaði hjá RÚV í 20 ár.“

Kynntist manninum sínum og lét markmiðin rætast

Ingveldur segist hafa sett sér tvö markmið í lífinu. Að halda ljóðatónleika fyrir 40  ára aldur og fara í hönnunarnám áður en ég yrði fimmtug. „Tónleikana hélt ég með vini mínum Atla Heimi Sveinssyni en ég hafði sungið í óperu eftir hann með Signýju Sæmundsdóttur, Tunglskinseyjunni, sem var frumflutt í Kína og við fórum á nokkra staði í Þýskalandi með konsertuppfærslu af henni. Tónleikarnir voru haldir í Sigurjónssafni.“

Ingveldur kynntist eiginmanni sínum Jóhanni Haukssyni, félagsfræðingi og blaðamanni, en hann varð útvarpsstjóri svæðisútvarpsins á Egilsstöðum. „Við vorum að fljúgast á, eins og við sögðum, en mér bauðst óvænt starf skólastjóra Hússtjórnarskólans á Hallormsstað. Ég hafði áhuga á öllu sem tengdist náminu. Ég fékk launalaust leyfi í tvö ár en vann aðeins fyrir Ríkisútvarpið. Starfið á Hallormsstað var mjög skemmtilegt en krefjandi. Þarna var heimavist og um helmingur nemendanna átti við vandamál að stríða. Ég kynntist þarna hlið á íslensku samfélagi sem ég hélt að væri ekki til. Ég þurfti svo að taka ákvörðun hvort ég vildi halda áfram eða fara aftur í Útvarpið þegar Jói varð yfirmaður Rásar 2 og svæðisútvarpa á Íslandi. Honum var gert að búa á Akureyri svo ég hætti en starfaði fyrir Útvarpið, með starfstöð á Akureyri.“

Þau hjón fluttu síðan suður og þá var komið að hinu markmiðinu, að fara í hönnunarnámið. „Ríkisútvarpið stóð á tímamótum og mér fannst það stefna í átt sem ég var ekki alveg hrifin af. Ég gat sagt upp og fengið biðlaun í eitt ár, svo ég ákvað að gera það og fór í hönnunarnámið sem var mjög skemmtilegt. Þetta var 2007, við gerðum fjárhagsáætlun og sáum að við gætum lifað af launum Jóa en það átti eftir að breytast. Afborganir þyngdust og ég fór að vinna með skólanum. Jói fór frá Útvarpinu til Fréttablaðsins en skrifaði grein sem ákveðnum manni líkaði ekki og var látinn fara. Þarna vorum við bæði orðin atvinnulaus. Mér bauðst að vinna sem verktaki hjá Útvarpinu en róðurinn þyngdist og við með óvinsæla kennitölu. Ég var farin að vakna upp á nóttunni af peningaáhyggjum. Við vorum hvorugt komin með lífeyrissjóðsgreiðslur og þurftum að brúa bilið.“

Árin liðu en svo heimsótti þau frænda Ingveldar í Danmörku og ráku augun í sölu á húsi.

„Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég sá verðið. Ég sagði við Jóa: Þetta er eina vitið og við fluttum út.“

Þeim hjónum líður mjög vel í Danmörku og segja marga kosti við að búa þar. „Stærsti kosturinn er hvað það er stutt að fara til Berlínar þar sem Ólafur og Hildur búa með sín börn og Finnur Torfi býr í Sønerborg, rétt hjá mér. Það er allt annað tempó hér en heima. Þorpið þar sem ég bý er lítið en þar er sumarhöll Margrétar Danadrottningar. Ég er með stóran garð og gróðurhús sem Jói gaf mér. Nú get ég ræktað þessa gamaldags konu sem hefur alltaf búið í mér, eldað góðan mat, bakað, straujað sængurver og verið í garðinum. Ég ferðast þegar ég vil en hér eru fallegar gönguleiðir og flott söfn. Svo er maturinn ódýr og gjarnan tilboð. Maður nýtur lífsins fyrir miklu minni peninga en heima og við erum skuldlaus. Svo er það veðurfarið. Ef mann langar í borgarlíf þá fer maður bara og tekur út kaffihúsin og barina og fer svo heim í rólegheitin. Það er mjög gaman að heimsækja Mön og allar eyjarnar með bílinn, sigla á ferju og fá sér kampavín og smörre-brauð. Það eru aldrei umferðarhnútar hér og lúxus að geta gert það sem mann langar.

Heilbrigðiskerfið er líka gott. Danir borga glaðir skattana sína fyrir heilbrigðisþjónustu. Ég þurfti að fara í augnaðgerð og eftirlit og borgaði aldrei krónu. Hér er brugðist við hlutum og hugsað fram í tímann, maður er mjög öruggur hér. Ég þarf hins vegar að undirbúa mig áður en ég fer heim og segja við sjálfa mig: Ekki fá sjokk þegar þú ferð í búð eða á veitingastað.

Það er alltaf nóg að gera hjá mér; handavinna, gestir, garðurinn. Fyrir mér er þetta himnaríki á jörð.“

Aðspurð viðurkennir hún þó að hún sakni ættingja og vina, sundlauga og fisksins en Ingveldur kemur reglulega til Íslands. „Ég vil samt vera hér á sumrin, drekka morgunkaffið úti, setjast út í gróðurhús og borða í fallegum garðinum. Lífið er stresslaust. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að fá mér vinnu en börnin mín sögðu: Mamma, þú ert búin að vinna meira en nóg, og ég er mjög sátt við að gera bara það sem mér finnst skemmtilegt,“ segir Ingveldur og hlær. „Þetta var besta gjöfin sem við gátum gefið hvort öðru, að njóta lífsins á þessu skeiði áhyggjulaus.“

Óskarsævintýrið

Danmerkurævintýrið er ekki það eina sem Ingveldur hefur upplifað eftir að hún flutti af landinu. Óskarsævintýrið með Hildi dóttur hennar gleymist ekki. „Okkur Kára syni hennar var boðið, Hildur vildi þakka mér stuðninginn við tónlistarnámið þegar ég var einstæð móðir. Við vorum á flottu hóteli, fórum í Chanel-boð þar sem stjörnurnar voru í Chanel-fötum, og fengum Chanel-snyrtivörur. Penelpe Cruz var þarna í brjóstsykursbleikri dragt með Pedro Almodovar. Ég sagði við Hildi: Ég verð eiginlega að fá að snerta hann. Þannig að ég rakst utan í hann á leiðinni út,“ segir Ingveldur og skellir upp úr. „Þetta var eins og í draumi. Ég var með Kára í herbergi, það var partí hjá Elton John eftir Óskarshátíðina en við Kári fórum heim og þegar hann vaknaði daginn eftir, sagði þessi átta ára fótboltastrákur: Amma, við unnum bikarinn!“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn apríl 16, 2024 07:00