Lét drauminn rætast

Anna nýtir tæknina við æfingarnar. Hún kallar fram undirleik, tekur röddina upp og hlustar á og gagnrýnir sjálfa sig.

Anna Björg Hjartardóttir hefur alltaf haft gaman af að syngja og sem unglingur var hún í kór. Hún komst samt að því síðar að kórsöngur átti ekki vel við hana því hún hafi haft meiri áhuga á að túlka tónlistina meira sjálf en hægt er að gera í kór, en þar hafi hún samt lært að beita röddinni.

Anna stofnaði fyrirtækið Celsus ehf. 1995 með lífræna næringu og heildræna heilsu sem grunnstefnu. Síðan hefur fyrirtækið vaxið og dafnað og á þessum 25 árum hefur Anna að eigin sögn lært betur að standa með sjálfri sér. Hún segir að það hafi tekið hana töluverðan tíma og verið átak að læra listina að láta drauma sína rætast en allir geti gert það.

Guðmundur Steingríms sagði: „Komdu í prufu”

Þegar Anna var unglingur fékk hún vinnu með skólanum að uppfarta” á árshátíðum á Hótel Borg þar sem voru gjarnan veislur og tónleikar. Þar var einn af tónlistarmönnunum oft Guðmundur Steingrímsson, einn helsti jasstrommari landsins, oft kallaður Papa-jass. Guðmundur heyrði í Önnu þar sem hún var að syngja við vinnu sína baka til í kaffistofunni og hvatti hana til að koma í söngprufu hjá hljómsveitinni. Hann sagðist vera viss um að hún gæti sungið jass. „Mig langaði óskaplega til að fara í prufuna en stóð ekki með sjálfri mér þá. Ég taldi sjálfri mér trú um að ég kynni ekkert að syngja þótt ég væri eitthvað að syngja í vinnunni áður en gestirnir mættu. Ég sagði því nei” við Guðmund og sé alltaf eftir því. En nú þegar ég hef náð miðjum aldri hef ég lært að maður á ekki að bíða endalaust eftir að láta drauma sína rætast. Það er eðli allrar sköpunar og tjáningar að vera sjálfsprottin og aldurslaus.”

Anna fór samt í Tónskólann í nokkra söngtíma eftir Borgarævintýrið og var þá 18 ára. En þótt kennarinn hafi verið góður og hrósað henni þá var kennslan með gamla sniðinu í þá daga. Mér þóttu æfingarnar einhæfar og það var ekki nógu gaman í söngnáminu. Ég hafði ekki þroska til að sjá hvað væri mér fyrir bestu ef ég ætlaði að ná árangri.”

Matur bragðast betur ef kokkurinn syngur

Anna hefur alltaf sungið mikið heima fyrir, til dæmis þegar hún eldar mat því hún hefur þá trú að maturinn verði hollari og bragðist betur ef kokkurinn er glaður og segir að það sé sérlega mikilvægt við sósugerð. „Yngsti sonur minn nítján ára er ekkert sérstaklega ánægður með að ég syngi svona mikið og svo bætist við hugleiðslukyrjunin sem ég hef stundað í 35 ár. Strákurinn skilur ekkert í þessari þörf minni að búa til öll þessi hljóð og nú hafa söngæfingarnar heima bæst við. En maðurinn minn setur bara upp heyrnartólin sín og brosir.  Ég gekk svo alveg fram af syninum þegar ég keypti mér hljóðtæki sem er gaman að nota við æfingarnar. Hann spurði mig í forundran hvort ég ætlaði nú að fara að syngja fyrir alla götuna, láta heyrast í mér um allt hverfið og verða mér til skammar. Ég sagði honum að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því vegna þess að ég væri bara að þessu fyrir sjálfa mig. Svo vildi ég ekkert ræða það meira,” sagði  Anna og stóð nú með sjálfri sér.

Söngur og tónar eru heilandi

Anna Björg á góðri stund.

Fyrir rúmum þremur árum varð Anna fyrir sorgaráfalli  og segir að þá hafi hellst yfir hana þörfin fyrir að syngja. Ég hef því sungið á hverjum degi síðastliðið ár og söngurinn hefur reynst eins og endurnærandi núvitund og heilandi gleði. Ég hef sungið við örfá tilefni á námskeiðum og í veislum. Það gefur mér mikið og mér þykir vænt um það þegar að fólk segir hvað því hafi þótt gaman að hlusta á mig syngja. Mér finnst það miklu meira virði en að heyra að ég hafi fallega rödd. Það eru svo margir með fallegar raddir en ég reyni að  syngja frá hjartanu og á auðvelt með túlkun í söng. Það er mín upplifun að þegar maður hefur löngun til að njóta söngsins og gefa af sér þá er eins og feimni og óöryggi hverfi og þá getur maður sungið fyrir hvern sem er.”

Tilviljun réði að Anna fann annan söngkennara

Í mörg ár hefur Anna hugsað að núna, þessa haustönn eða hina  vorönnina, ætlaði hún að skrá sig í söngnám. En svo taldi sig hún sig aldrei hafa tíma. En að hausti til fyrir tveimur árum ákvað hún að þetta gengi ekki lengur og skráði sig í tíma hjá söngkennara, Ólafi Torfasyni, en þau eru vinir í gegnum hugleiðslukyrjunina sem hann ástundar líka. Ólafur býr reyndar í Finnlandi og kennir þar en Anna lét það ekki stoppa sig og hittir hann með Zoom fjarskiptabúnaði og segir að það sé ekki fyrirstaða, þótt ekkert komi í staðinn fyrir að hitta kennara sinn í rauntíma. Ég hitti Ólaf einu sinni í viku í gegnum tölvuna en mig langaði í enn meiri tilsögn og þá átti sér stað skemmtileg tilviljun. Þannig vildi til að ég var stödd á kaffihúsi þar sem ég hafði komið við ein. Það var nánast tómt inni en við eitt borðið sátu tvær konur að tala saman. Og af því fáir voru inni heyrði ég á tal þeirra og áttaði mig á að þær voru að tala um söng og söngkennslu svo virtust þær líka vera mjög skemmtilegar. Þegar ég var á leið út ákvað ég að herða upp hugann og gefa mig á tal við þær. Ég komst þá að því að önnur var Hlíf Káradóttir söngkennari og úr varð að hún bauð mig velkomna í tíma hjá sér. Svona eru tilviljanirnar oft í lífinu. Þar með var ég loksins, eftir öll  þessi ár, búin að finna söngkennara og meira að segja tvo,” segir Anna og brosir.

Framfarirnar verða mestar í gleðinni

Það er eins og að koma til Ítalíu að koma heim til Hlífar þar sem tímarnir fara fram, þar er allt svo fallegt og draumkennt” segir Anna með blik í auga. Ég er núna búin að hitta hana á hverjum fimmtudegi í nokkurn tíma og það er óborganlega skemmtilegt. Hlíf er svo jákvæð og hvetjandi og skilur svo vel hvað það er sem ég vil fá út út söngnum. Ég mun ekki leggja fyrir mig söng en Hlíf er svo ánægð með að ég er alveg frjáls og óþvinguð og þori að láta allt flakka á æfingunum. Hún nær að leiðbeina mér svo fallega. Enda er mjög gaman í tímunum hjá okkur,“ segir Anna og hlær.

Gleðin er lykillinn

Ég er svo sannfærð um að við náum miklu meiri og skjótari árangri í verkefnum okkar og samvinnu þegar við erum glöð. Okkur ávinnst einfaldlega meira þegar það er gaman. Nú svo hitti ég Óla á zoominu einu sinni í viku og læri nóturnar, takt og slög hjá honum. Fyrir mig er þetta sannarlega að láta draum rætast,” segir Anna.

Í covid fólust tækifæri

Anna segir að á covid tímanum hafi margt sem tók  tíma fólks lagst af og þá hafi sannarlega gefist tími í annað. Ég ákvað þá að fara alla leið og kaupa mér magnara og statíf og míkrafón. Ég er með i-pad og tek röddina upp og svo hlusta ég á sjálfa mig og gagnrýni. Ég ráðlegg öllum að taka röddina upp og hlusta á sig. Þannig nást framfarir örar.

Þörfin að skapa og standa með sjálfum sér

Anna nýtir aðstöuna heima til æfinga. Eiginmaður hennar Þórarinn Bjarnason húsasmiður setur á sig heyrnartól og brosir og sonurinn fer út.

„Það er svo ríkt í okkur flestum að standa með vinnunni, heimilinu og fjölskyldunni og vera samviskusöm og ábyrg í félagsstarfi og svo framvegis. En við þurfum líka að finna tíma til að næra sköpun og innri kraft og ég er núna að taka frá tíma til að sinna söngnum. Þar fæ ég útrásina fyrir sköpunarþörf sem við búum öll yfir. Sumir fá þessa útrás í dansi, listmálun, rannsóknargrúski eða í hannyrðum. Hvað sem það er eigum við að standa með sjálfum okkur og leitast við að framkvæma allt það skemmtilega sem lífið býður upp á,” segir Anna brosandi og ætlar að halda áfram að syngja, bæði fyrir sjálfa sig og aðra þegar tækifæri gefst.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Viðtatalið við Önnu Björgu er úr safni Lifðu núna og birtist hér örlítið  uppfært.

Ritstjórn ágúst 11, 2023 07:00