Frost á sumardaginn fyrsta

Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna ugglaust vel eftir sumardeginum fyrsta, sem alltaf var haldinn hátíðlegur hér á landi sama hvernig viðraði – og er enn.  Börnin í Reykjavík örkuðu í skrúðgöngur með skátana í broddi fylkingar, sem enduðu niður á Lækjartorgi, þar sem útiskemmtun fór fram.  Skemmtuninni var líka útvarpað.  Allir klæddu sig upp og sumir fengu sumarföt og sumargjafir. Það var oft þröng á þingi í Lækjargötunni.

Það var stundum kalt að vera í sportsokkum og pilsi á sumardaginn fyrsta, eða stuttbuxum, því það var upp og ofan hvernig veðrið var.  Í yfirliti Veðurstofu Íslands, yfir veðrið á landinu á sumardaginn fyrsta frá 1949-2005  kemur fram að árið 1949 var 8.9 stiga frost á landinu á sumardaginn fyrsta. Mest fór frostið í 18 stig í Miðfirði.  Hæsti hiti sem mældist á landinu á sumardaginn fyrsta á þessu tímabili, var 19.8 stig á Akureyri árið 1976.

Hitinn í Reykjavík fór hæst í 13.5 gráður á Celcius á sumardaginn fyrsta árið 1998 og árið 2004 var hitastigið svipað.  Á vef Veðurstofunnar segir jafnframt.

Á sumardaginn fyrsta 1956 fór hiti ekki niður fyrir átta stig allan sólarhringinn og níu sinnum hefur hámarkshitinn verið yfir 10 stigum. Kaldast var 1949, lágmarkshiti sólarhringsins -8,9°C, og daginn áður var mikið hríðarveður um stóran hluta landsins og samgöngur erfiðar.Meðalhiti sólarhringsins hefur 12 sinnum verið undir frostmarki á sumardaginn fyrsta í Reykjavík og frost hefur verið 21 sinni nóttina áður.

Á vef Veðurstofunnar kemur einnig fram að sumardagurinn fyrsti hefur að meðaltali verið kaldari þegar hann ber uppá 21. apríl en aðra daga, en hlýjastur þegar hann ber uppá 22.apríl.

 

 

Ritstjórn apríl 21, 2016 12:30