Efnismikil fararefni

Eitt af því sem bókaunnendur hafa hvað mest gaman af er að tala um bækur, heyra hvað öðrum finnst um eitthvað sem hefur heillað þá. Slíkar umræður opna einnig ný sjónarhorn og iðulega uppgötvar lesandinn eitthvað nýtt og skilur skyndilega það sem áður var óljóst. Fararefni, safn greina um skáldið Þorstein frá Hamri, kom nýlega út hjá Máli og menningu og þar er einmitt að finna mismunandi sýn á skáldið og horft frá mismunandi sjónarhólum.

Greinarnar urðu til í framhaldi af málþingi um Þorstein frá Hamri og verk hans haustið 2022. Höfundar eru ellefu, sum þeirra sjálf skáld en önnur bókmenntafræðingar, þjóðfræðingur, heimspekingur og grafískur hönnuður. Ástráður Eysteinsson ritstýrir henni og skrifar inngang. Það er því ekki að undra að sjónarmiðin séu fjölbreytt og mörg hver nýstárleg. Þorsteinn er oft torrætt skáld og það opnar leiðir að mismunandi túlkun og upplifunum á ljóðum hans og texta. Sjálfur var hann heillaður af íslenskum þjóðsagnaarfi og vísaði oft til hans í verkum sínum. Margar þjóðsögur notar hann til að skapa andblæ og aðar verða honum uppspretta vangaveltna um stöðu mannsins í náttúrunni og tilfinningalíf hans.

Þorsteinn var ekki alveg orðinn tvítugur þegar fyrsta bók hans, Í svörtum kufli, kom út en ljóðbækur hans urðu tuttugu ein. Það verður að teljast góð afköst og gjöfult ævistarf. Fararefni er fengur fyrir aðdáendur skáldsins og líkleg til að vekja áhuga á að lesa aftur yfir bækur hans og skynja þær að nýju og kannski á nýjan hátt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 19, 2024 07:00