Snorri Sigurðsson líffræðingur mun leiða fuglaskoðun um vesturhluta Viðeyjar þriðjudaginn 2. júní kl. 19:30 og fræða göngugesti um fjölskrúðugt fuglalíf í eynni. Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér kíki og kannski er líka upplagt að bjóða barnabörnunum í svona ferð?
Í Viðey verpa um 30 tegundir fugla. Mest er um æðarfugl og grágæs og stundum kemur fyrir að menn rekast á sjaldgæfar tegundir eins og jaðröku eða óðinshana. Dálítið er af teistu og hrafninn gerir sér líka hreiður í eynni.
Siglt verður frá Skarfabakka kl. 19:15. Þeir sem vilja fá sér að borða fyrir göngu eru hvattir til að taka ferju kl. 18.15 og setjast inn í Viðeyjarstofu og gæða sér á mat og drykk í því sögufræga húsi. Þátttaka í göngunni er gestum að kostnaðarlausu en greiða þarf í ferjuna.
Athugið að fjöldatakmarkanir verða virtar. Hægt er að kaupa miða fyrirfram í ferjuna á https://elding.is/videy-ferry-skarfabakki
Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.650 kr. fyrir fullorðna, 1.500 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 800 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.