Skilnaðarskutlur

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég hlustaði á spjall tveggja fyrrverandi félaga minna á RÚV á dögunum um ástandið á Spáni vegna Covid. Þar hefur hjónaskilnuðum fjölgað mikið á þessu ári og brúðkaupum fækkað. Gömlu félagar mínir voru að tala um nýja, vinsæla þjónustu sem væri í boði þar í landi, sem væri hraðskilnaðarþjónusta. Ég sperrti eyrun. Þjónusta þessi felst í því að sérmerktir bílar aka heim til hjóna sem eru að bugast hvort á öðru eftir að vera búin að vera saman í eingangrun mánðum saman og leysa vanda  þeirra á staðnum. Það eina sem skilnaðarumsækjendur þurfa að gera er að fara út í sérmerkta bílinn, auðvitað sitt í hvoru lagi, og skrifa undir pappíra. Hraðskilnaðurinn er þar með genginn í gegn. Félagar mínir í útvarpinu göntuðust með þetta og sögðu að skilnaðarskutlur væri gott nafn á þessa nýju bílaþjónustu.

Við sambýlingarnir hlógum að þessu en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Það er álag fyrir pör að vera öllum stundum saman, meira og minna einangruð og öll plön fokin út í veður og vind. Ég var að horfa á dagbókina mína fyrir árið 2020. Þar er strikað yfir allar vinnutengdar bóknar. Eina sem ekki hefur verið hreyft við eru bókanir í klippingu og í heimsókn til augnlæknis. Þetta er ekkert grín. Það versta er að maður var alltaf að reyna að halda í vonina um að ástandið skánaði og plana og undirbúa eitthvað sem á endanum var svo blásið af.

Ég er ekkert að kvarta. Ég á góðan og skemmtilegan sambýlismann sem ég vildi alls ekki vera án. En samt er þessi covid-tími álag á sambönd. Dagarnir verða langir og tækifærin fá til þess að hitta annað fólk. Við erum reyndar búin að ferðast mikið í sumar SAMAN og ganga mikið SAMAN. Þetta hefur haldið í okkur lífinu. En mikið er ég farin að þrá aftur líf þar sem mynd af vinkvennahópi er ekki talin brot á siðareglum og þar sem lögregluþjónar birtast ekki lengur þegar við erum að borða kvöldmat á uppáhaldsveitingastaðnum okkar.

Það verður áhugavert að sjá hvaða áhrif covid hefur á skilnaðartíðni hér á landi á þessu ári. Mörg fyrirtæki hafa rúllað yfir undanfarna mánuði. Ég heyrði í fréttum að margir leigubílstjórar væru búnir að leggja bílum sínum vegna samdráttar. Það væri kannski hugmynd fyrir einhverja af þeim að sérmerkja bílana sína sem skilnaðarskutlur og nýta þetta bisnesstækifæri til þess að komst fjárhagslega yfir þennan erfiða covid -tíma.

Ritstjórn september 26, 2022 07:15