Í garði galdranornarinnar

Þegar galdrafárið gekk yfir Evrópu á miðöldum var ekki óalgengt að konur með þekkingu á jurtum og lækningum yrðu skotspónn miskunnarlausra yfirvalda og brenndar á báli. Sú var ekki raunin hér á landi þótt grasakonur væru vissulega til. Margar jurtir í íslenskum móum eru sagðar hafa yfirnáttúrulega eiginleika en áhugaverðara er einmitt nú að beina sjónum að þeim sem rækta garðinn sinn. Hvað skyldi vera algengast í garði galdranornarinnar?

Rósmarín

Rósmarín var plantað í öll fjögur horn garðsins til að halda illum öflum fjarri. Sú planta er einnig fínasta bakteríuvörn því sýrurnar í henni drepa ýmsar bakteríur og sveppi og skapa góða vörn gegn vírusum. Rósmarín er auk þess mjög bragðgóð kryddjurt og sagt að hún bæti minni og efli orku.

Timían

Engin seiðkona með metnað í starfi myndi nokkru sinni láta sig vanta timían en það er náskylt íslenska blóðberginu. Timían veitti huggun í sorgum, auk þess er það græðandi og dregur úr bólgum.

Lofnarblóm

Lavender-jurtin er ilmsterk og falleg en hún getur laðað til þín ástina ef þú plantar henni nærri þér og berð ævinlega lítinn vönd af henni í vasanum. Ef þig langar að dreyma indæla drauma er gott ráð að leggja fáeina ilmandi fjólubláa lavendersprota undir koddann þinn. Að auki er þetta velþekkt lækningajurt, góð gegn bólgum, bakteríudrepandi og virkar vel á flugnabit og brunasár. Ilmurinn er róandi og slakandi og margir nota lavender til að öðlast hugarró og draga úr stressi eftir erfiðan dag. Lavender hefur verið ræktaður frá aldaöðli og er sagður færa jafnvægi þar sem allt hefur farið úr skorðum.

Salvía

Salvía eykur visku og skýrleika hugsunar. Þessi magnaða jurt hefur verið notuð um aldir til að styrkja ónæmiskerfið og græða sár bæði andleg og líkamleg. Að brenna salvíu inni á heimilinu er þjóðráð ef losna þarf við neikvæða orku og bæta andrúmsloft milli manna. Ef þú ætlar að biðja um kauphækkun er mælt með að setja nokkur salvíulauf í vasann og þá mun öll samningagerð ganga betur.

Mynta

Mynta er hreinsandi og heldur illum öndum frá en hún eflir líka ástir og eykur frjósemi. Hún er líka góð fyrir meltinguna og eflir þarmaflóruna. Hafi basilíku verið komið fyrir á tröppunum alveg við útidyrnar eða rétt við hliðið á garðinum mun hún færa eiganda sínum heppni og peninga. Hún er svo auðvitað einstaklega handhæg ef drepa þarf orma í iðrum manna, bæta meltingu, koma í veg fyrir nýrnasjúkdóma og losna við bjúg. Basilíka er góður vörtubani og dugar vel til að draga úr sviða og kláða í flugnabitum.

Kamilla

Kamilla er slakandi og menn nota þá jurt mest til að hjálpa sér að sofna og leyfa streitunni að líða úr sér. Hún veitir einnig vernd gegn illum öflum og eykur lukku og lán í lífi ræktandans. Í Egyptalandi til forn var hún tengd sólguðinum Ra og guði lækninga og heilunar Sekhmet. Að rækta kamillu innandyra færir því bæði gleði og ró inn á heimili þitt.

Vallhumall

Fæstir mundu rækta vallhumal í garðinu sínum en þessi magnaða töfra- og lækningajurt vex villt um allt Ísland. Sagt er að víkingarnir hafi tekið hana með sér hvert sem þeir fóru svo græðandi er hún á sár. Á latínu er hún kennd við Akkiles og heitir Achillea millifolium en sagt var að Akkiles hafi notað hana til að græða sár hermanna sinna í Trójustríðinu. Því miður dugði hún honum ekki til að lækna eigið hælsæri og því fór sem fór. En vallhumallinn dugði hermönnum á fleiri vegu en til lækninga því ef þú berð á þér slíkt blóm eykst þér hugrekki og þor og margir hengdu vönd af vallhumli yfir útidyrnar til að skapa samstöðu og gleði á heimilinu.

Menn hafa frá örófi alda eignað eða ljáð jurtum, steinum og öðrum náttúrufyrirbærum galdramátt. Líklega fer svo kraftur þeirra eftir trú þess sem leitar fulltingis þeirra við uppfyllingu óska sinna. Hins vegar er lækningamáttur jurta óumdeildur og menn voru fljótir að læra að þekkja hann og nýta sér. Það má notfæra sér heilunareiginleika þeirra á marga vegu. Það er hægt að sjóða jurtaseyði, hella sér upp á te, brenna jurtina til að fá ilminn og setja hana út í baðvatnið. Þeim má blanda saman við olíur og fitu til að búa til áburð eða krem. En ekki þarf nema örfáar jurtir til að koma sér upp góðum galdragarði og hann getur blómstrað í eldhúsglugganum ekkert síður en utandyra.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 6, 2023 07:00