Gamlar slæður og treflar fá nýtt líf

Á flestum íslenskum heimilum safnast upp margskonar textíll sem ekki er notaður. Meðal þessa eru slæður, klútar og treflar úr mismunandi efnum. Margir fara með fulla poka af slíku í endurvinnslugáma en það er líka hægt að endurvinna þetta heima ef fólk er hugmyndaríkt og handlagið. Hér eru nokkrar hugmyndir:

Búðu til bútasaumsteppi.

Margir eru mjög lunknir að sauma og bútasaumur er skemmtilegt áhugamál. Hann var beinlínis fundinn upp til að nýta efnisafganga og það sem nýtilegt var úr mismunandi slitnum fatnaði. Það getur verið mjög gaman fyrir börnin og barnabörnin að fá að gjöf teppi úr gömlum fatnaði afa og ömmu. Í mörgum slæðum er silki og það efni er bæði fallegt og ótrúlega endingargott þess vegna ætti endilega að nýta það í eitthvað nýtt sé fólk orðið leitt á slæðunni eða klútnum.

Saumaðu svuntu 

Það er alltaf þörf fyrir góðar svuntur sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af matargerð eða garðyrkju. Notaðu tímann fram að næstu hátíðahöldum eða þar til vorverkin í garðinum kalla til að sníða og sauma svuntu úr fallegum treflum og slæðum. Hafðu góða vasa á henni svo hún nýtist vel við alls konar viðvik.

Rammaðu inn fallegar myndir

Á mörgum slæðum er fallegt mynstur og myndir. Þær má klippa út og setja karton-pappír í kring og ramma síðan inn.

Pokar og skjattar 

Litlir pokar eða skjattar eru skemmtilegar gjafapakkningar. Það má nýta trefla eða slæður til að búa til fallega gjafapoka.

Púðar og koddaver 

Tvær silkislæður geta myndað sérlega fallega púða og auk þess má benda á að margir sofa nú með silkikoddaver. Sagt er að silkið fari vel með hárið og húðina. Gamlar silkislæður nýtast vel utan um koddann eða svæfilinn.

Bakkar fá andlitslyftingu

Stundum koma blettir og rispur í tré- og málmbakka. Það er í tísku núna að vera með slíka bakka á borðum og raða ofan á þá skrautmunum. Hægt er að lífga upp á slíka bakka með því að klippa út fallegt efni og klæða botninn með því, eins getur slíkt efni nýst sem klæðning inn á bastkörfur.

Líflegar diskamottur

Diskamottur eru góð leið til verja dúka fyrir óhreinindum. Þá er hægt að búa til sjálfur. Í föndurbúðum er hægt að fá svampefni sem hægt er að klæða með taui og fá þannig frábærar diskamottur.

Fallegur hurðakrans

Nú eru margir nýbúnir að taka niður hurðakransinn en kannski er góð hugmynd að klippa niður slæður eða trefla og klæða kransinn með. Þá má svo skreyta eftir árstíð eða fyrir hverja hátíð. Haustkransar eru mjög fallegir með ullarefni í bakgrunni og um páska eða jól er hægt að velja litríkt tua í jóla eða vorlitum.