Gefum öðrum af trúarfullvissu okkar

Pétur Þorsteinsson

 

Séra Pétur Þorsteinsson prestur Óháða safnaðarins skrifar í tilefni páska.

 

Undanfarna áratugi hef ég verið æskulýðsleiðtogi á elliheimilinu Grund.

Ekki svo fjarri að kalla sig æskulýðsleiðtoga, þar sem tvisvar verður gamall maður barn og sumir ganga í barndóm á efri árum.

Þegar þetta elskulega fólk er spurt um lífslokin – er verða líkleg – og farið að styttast í að það verði tilbúið undir tréverk, þá líður því miklu betur og er rórra innra með sér, sem á trúna á upprisuna og tilgang með dauða Krists á krossinum.

Við þá er gerlegt að tala um þennan grundvöll, sem Kristur lagði, og þess vegna er miklu auðveldara fyrir þá að horfa fram á við.  Eru ekki hræddir við það sem tekur við eftir dauðann og horfa til páskadagsmorgunsins, sem sé eitthvað gott og kærkomið.

Trú er traust

Sem æskulýðsleiðtogi og boðandi orð Guðs, þá er þetta traust, sem fólkið hefur eins og barn til foreldra sinna og forráðamanna svo mikilvægt. Þar sem sögnin að trúa þýðir fyrst og fremst að treysta.

Treysta þeim, sem lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur mennina og ávann okkur eilíft líf fyrir dauða sinn og upprisu á páskadagsmorgni.

Með því að sigra dauðann og Djöfulinn, sem krossfestingin sýnir á Djöfladaginn, þá getum við tekið undir með postulanum og Hallgrími passíusálmaskáldi: „Dauði, hvar er broddur þinn. Dauði, hvar er sigur þinn?“

Þess vegna er Dymbilvikan góð til þess að íhuga þennan sannleika.

Förum vel með gjöf Guðs

Við sem erum kristin og trúuð eigum að hafa það sem bænar- og íhugunarefni á þessum tíma, að gefa öðrum af þessari trúarfullvissu okkar til þess að þeir hafi líf í gnægtum, sem eru efins.

Þá verður um jarðarfjör að ræða og ekki hræðsla við að taka ákvörðun um það, hvort eigi að brenna eða grafa viðkomandi.

Að lifa í sátt og samlyndi við Guð og menn er ein sú stærsta gjöf, sem okkur getur hlotnast.  Um að gera að fara vel með hana og rækta til þess að okkur líði verulega vel.

Kirkja Óháða safnaðarins

Ritstjórn apríl 14, 2022 21:24