Hver á að halda páskamatarboðið?

Það er siður í mörgum fjölskyldum að afi og amma haldi fjölskylduboð um jól og páska. Oft er þröngt á þingi, því þegar við komumst yfir miðjan aldur er fjölskyldan oft farin að stækka verulega. Tengdabörn og barnabörn hafa bæst við fjölskyldu sem eitt sinn var kannski 5-6 manna, en er núna orðin 15 – 20 manns og jafnvel fleiri. Við spurðum Sigrúnu Júlíusdóttur, sem er prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og fjölskylduráðgjafi, hvort það væri raunhæft að ætla að halda þessum stóru fjölskylduboðum endalaust áfram.

Þarf gott rými og góðan efnahag

Hún sagði að það væri alltaf raunhæft að hittast og halda hópinn, en það væri hins vegar spurning hvernig fyrirkomulagið ætti að vera. Ótrúlega margir legðu mikið uppúr því að vera með 20-30 manna boð heima hjá sér. „En til þess þarf mikið rými, góðan efnahag og ekki síst er hvatinn, hollusta við gömlu gildin um að einmitt það að halda svona stór boð feli í sér sérstök verðmæti. En hér þarf líka samstöðu, því konur eru nú orðið sjaldnast í þeirri stöðu að vilja eða geta séð um þetta einar” segir Sigrún.

Þarf marga til að sjá um stórboð

Hún segir einnig að svona ”stórboð ” á hátíðum í heimahúsum séu fyrir mörgum orðin svolítil tímaskekkja. ”Við búum flest í borgarsamfélagi, með þeim hraða, tímaskorti og nýju kröfum sem því fylgja”, segir hún. ”Það þarf einn eða jaflvel fleiri einstaklinga sem eru aflögufærir, bæði með tíma og getu til að rúlla upp svona ”stórboðum”. Það eru breyttir tímar. Konur eru á vinnumarkaði og fórnarlundin kannski orðin minni. Þær vilja samstöðu og samvinnnu, bæði maka og barna og það fer líka vaxandi að fleiri í fjölskyldunni hjálpist að við þetta og þá getur það frekar gengið”.

Mikilvægt fyrir alla

Sigrún segir það ekki sína reynslu að eldra fólkið vilji frekar halda í þessi boð en yngra fólkið þótt fosendurnar séu ef vil vill ólíkar. ” Það er oft einmitt yngri kynslóðin sem finnur gleði í því að treysta böndin, fá tækifæri til að hitta frændsystkin á sínum aldri, því leiðirnar liggja ekki alltaf saman þótt blóðtengslin séu fyrir hendi. Þetta kemur líka vel fram í fermingarveislum, þá hittast enn fleiri , eldri kynslóðin fylgist með þeirri yngri og yngri kynslóðirnar kynnast innbyrðis og frændsystkinatengslin fá næringu. Það þéttir tengslanetið og tilfinninguna fyrir því að tilheyra ákveðinni fjölskyldu”.

Má alveg breyta forminu

Hún segir að það sé vissulega hægt í nútímanum að halda stórum fjöskylduboðum áfram, en standa kannski öðruvísi að þeim. ”Stundum er gott að koma saman og leggja á ráðin um breytt form á þessu. Það má leggja saman í púkk, þannig að hver komi með sitt, eða að skiptast á að hafa boðin. Það má líka velja annað form, þannig að stundum séu ”allir”, en stundum hluti fjölskyldunnar. Það sé meira að segja stundum hægt að leigja sal úti í bæ. Stundum velji fjölskyldan að fara saman í utanlandsferð í stað stórboða heima, þá hver á sinn kostnað eða amma og afi styrkja ferðina eftir aðstæðum. Aðalatriðið er að vera sveigjanlegur og láta ekki gamlar hefðir verða að kvöð. Síðast en ekki síst þarf að gæta að sanngirni í því að enginn einn eða tveir þurfi að ”sjá um allt” og bera allan kostnað af boðinu”, segir Sigrún að lokum.

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 16, 2019 10:00