Sigmundur Ernir Rúnarsson er einn reyndasti fjölmiðlamaður landsins. Hann var í hópi þeirra sem fylgdust með síðustu dögum Fréttablaðsins og Hringbrautar, enda ritstjóri þessara miðla. Þótt hann þyrfti ekki lengur að mæta í vinnu hvern morgun eftir þann örlagasnúning sat hann ekki auðum höndum og nýlega kom út eftir hann bók Í stríði og frið fréttamennskunnar. Þar veltir Sigmundur Ernir fyrir sér stöðunni á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Í bók þinni ferðu yfir síðustu daga Fréttablaðsins og Hringbrautar. Hvað situr helst í þér eftir þá upplifun?
„Sársauki og svekkelsi, einmitt svo að enn einn frjálsi og einkarekni fjölmiðillinn hafi lagt upp laupana,“ segir hann. „Og ekki bara Fréttablaðið, heldur líka litla barnið mitt, sjónvarpsstöðin Hringbraut sem ég tók þátt í stofna og móta allt frá fyrsta degi í ársbyrjun 2015, en hún naut mikillar hylli landsmanna. Það fann ég ekki síst eftir að hún var horfin af sjónarsviðinu. Hún var alltaf í augnhæð við almenning – og trú sínu uppahaflega markmiði að fræða og upplýsa. Meginatriði þessa alls – og það er svo alvarlegt – er að íslenskum fjölmiðlum sem leggja áherslu á fagmennsku og gildi blaðamennskunnar er óðum að fækka.“
Fleiri en þú hafa látið í ljós áhyggjur af stöðunni á fjölmiðlamarkaði meðal annars skorti á ritstjórn, lélegu málfari og ýmis konar markaleysi hvað varðar efnistök. Þú hefur starfað í fjölmiðlum í 40 ár og kynnst margvíslegum hliðum fjölmiðlunar. Hvað veldur þér mestum áhyggjum varðandi stöðu fjórða valdsins í samfélaginu í dag?
„Að aðhaldshlutverk þess og varðstaða um lýðræði og mannréttindi þynnist út. Fagmannlega ábyrgir fjölmiðlar eru meginstoð í frjálsu samfélagi – og vel að merkja, þeir frelsuðu það undan oki flokksblindni, spillingar og valdasýki á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Ótti minn er sá að með veikari fjölmiðlum færumst við aftur til einsleitnara og ófyrirleitnara þjóðfélags.“
Bókin ein lifði af flutningana
Undanfarin ár hefur hver prentmiðillinn af öðrum ýmist orðið gjaldþrota eða gripið til þess ráðs að birta eingöngu efni á netinu. Ísland er ekki einsdæmi hvað þetta varðar. Stórveldi á borð við Guardian og New York Times hafa dregið mjög úr prentun og Marie Claire og fleiri vinsæl tímarit eru eingöngu til í netútgáfu. Eiga prentmiðlar framtíð eða er tími þeirra liðinn?
„Prentmáli hefur verið spáð dauða frá því ég byrjaði að skrifa, ljóðinu sérstaklega og bókum af öllu tagi, blöðunum vitaskuld líka,“ segir Sigmundur Ernir. „En það merkilega er að eini miðillinn sem lifði af flutninga mína úr alltof stóru einbýlishúsi í úthverfunum fyrir áratug, þegar ég flutti aftur í miðbæinn, var bókin, elsti miðillinn. Geisladiskar og myndbandsspólur fóru ýmist allar á haugana eða á skransölur. Ég held að þörf mannsins til að lesa gott og áhugavert efni verði alltaf til staðar, hvort heldur er ljóð og sögur, eða greinar og viðtöl. Hitt er annað mál að tæknin breytir fjalli. Hlustun á bækur hefur aukist afskaplega mikið. Og fyrir vikið njóta núna æ fleiri þess að upplifa lesmálið í eyrunum. Það er af hinu góða.“
Hvað með þig sjálfan, hefur þú tekið afstöðu til þess hvernig framtíðin verður? Ertu hættur í fjölmiðlum eða má búast við að þú skrifir áfram fyrir einhverja miðla?
„Ég get ekki hætt að skrifa, frekar en að ganga á fjöll. Ég er með margar bækur í vinnslu, sögur og ljóð, myndabækur og minningar – og er eiginlega upppantaður í skrif á næstu misserum, ef ekki árum. Svo vinn ég að stórum og smáum sjónvarpsþáttum með konunni minni, Elínu Sveinsdóttur, en við rekum saman lítið framleiðslufyrirtæki sem ber upphafsstafi okkar, SERES hugverkasmiðja. Það firma mun fylgja okkur inn í elliárin – og lifi maður þau við fulla heilsu, verður maður áfram að. Það er ekki hægt að segja skilið við ímyndunaraflið í tilviki þess sem er alltaf að fá hugmyndir, jafnvel við það eitt að ganga framhjá ljósastaur.“
Samvera og friður í útivist
Skáldskapur og bókaskrif hafa alltaf verið aukabúgrein en færast nú greinilega framar í forgangsröðina.
„Já, ég er sennilega kominn á þann stað í lífinu að vinna við skriftir og sjónvarpsþætti hjá sjálfum mér, með konuna sem yfirmann, en ég útiloka samt alls ekki að stofna nýja sjónvarpsstöð.“
Þið hjónin ferðist mikið og stundið útivist af kappi. Hvað gefa þessi áhugamál ykkur?
„Samveru og frið. Ég hef alltaf verið fjallamaður frá því pabbi minn, nýlátinn, fór að taka mig til fjalla, fyrst í Eyjafirði, en svo út um allt land – og ég hef ekki verið samur maður síðan. Og ekki versnaði það eftir að ég kynntist Ellu minni fyrir hálfum fjórða áratug, en hún hefur alltaf hreyft sig geysilega mikið, fer í þrekæfingar fimm sinnum í viku og hefur gert frá því áður en ég kynntist henni, svo það er ekki mikið sem hefur stoppað okkur á síðustu áratugum nema ef vera kynni barnastússið, en við höfum eignast sex börn, þrennt af hvorri sort. Svo finnst mér það líka vera einhvern veginn úr takti við það að vera Íslendingur að njóta ekki náttúrunnar og þess sem hún hefur upp á að bjóða. Og þvílíkar perlur um allt land. Ég tel mig vera búinn að koma á alla byggða fleti landsins og svo til allar óbyggðir, en samt má segja að eftir því sem maður fer víðar um Ísland finnst manni eins og maður eiga eftir að sjá meira af því. Það er dásamleg þversögn,“ segir Sigmundur að lokum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.