Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar
Öll verðum við vör við að verðlag hækkar og vextir hækka. Það er misjafnt hvernig þessar hækkanir koma við fólk. Það er hins vegar sérkennilegt fyrir þá sem eru hættir störfum á vinnumarkaði að upplifa það, að þeir hafa almennt ekki mikil tök á að auka tekjur sínar. Það á ekki síst við um þá sem þurfa að reiða sig svotil eingöngu á „ellilífeyri“ frá ríkinu, sem er ekki há upphæð.
Það fyrirkomulag að hækka „ellilífeyrinn“ einu sinni á ári, ekki í takt við launaþróun síðustu árin heldur hækkun neysluverðsvísitölunnar, hefur gert það að verkum að eldra fólk situr eftir í kjörum. Ef laun í landinu hækka til dæmis um 6% og „ellilífeyririnn“ um 3% ár eftir ár, sjá allir að það dregur stöðugt sundur með eldra fólkinu og þeim sem eru á almennum vinnumarkaði. Nú er neysluverðsvísitalan hins vegar á hraðri uppleið og þá verður fróðlegt að sjá, hvort hækkun „elllífeyris“ um næstu áramót verður í samræmi við hana kannski 10% eða hvort miðað verður við launaþróunina að þessu sinni, sem verður hugsanlega eitthvað lægri í prósentum talið.
Þrátt fyrir endalaus loforð stjórnmálamanna um að hækka lágmarksgreiðslurnar úr almannatryggingum þannig að þær séu á pari við lægstu laun í landinu, hefur ekkert orðið af því ennþá. Þegar flokkar eru í stjórnarandstöðu flytja þeir gjarnan tillögur um að bæta kjör eldri kynslóðarinnar en þegar fulltrúar þeirra eru síðan sestir í þægilega ráðherrastólana, virðast slík áform fjúka út í veður og vind. Þá er svo margt annað nauðsynlegt sem þarf að gera og árin líða og alltaf er eldra fólkið aftarlega í forgangsröðinni, ef ekki bara aftast.
Eldra fólk sem er í millitekjuhópi þeirra sem eru orðnir 67 ára og eldri, sér líka að bæði launaskrið og verðhækkanir taka verulega fram úr því, sem það hefur úr að spila. Enn og aftur breikkar bilið og menn sjá ekki fram á að geta aukið tekjur sínar neitt. Áform eru uppi um að heimila fólki að vinna lengur fram eftir aldri en nú er, í því sem öðru sem viðkemur eldra fólki ganga hlutirnir löturhægt. En þó fólk myndi vilja og geta unnið lengur, hafa skerðingarnar í almannatryggingakerfinu mikinn fælingarmátt eins og sakir standa. Hvers vegna að taka að sér launaða vinnu, þegar einungis lítill hluti af viðbótargreiðslunni ratar í vasa launamannsins sem kominn er á eftirlaunaaldur?
Nýlega skipaði ríkisstjórnin starfshóp til að koma með tillögur sem varða afkomuöryggi, atvinnuþátttöku og húsnæðismál eldra fólks. Þrír fulltrúar, einn frá hverjum stjórnarflokki eiga sæti í hópnum. En enginn fulltrúi frá Landssambandi eldri borgara sem er með 28.000 félaga innan sinna vébanda. Það er áleitin spurning hvers vegna svo er. Eldra fólki finnst að það sé lítið hlustað á sjónarmið þess í stjórnkerfinu. Gildir þá einu hvort um er að ræða í sveitarstjórnum eða hjá ríkinu. Sú staðreynd að enginn fulltrúi eldri borgara á sæti í starfshópi sem á að fjalla meðal annars um kjör þeirra, segir sína sögu um afstöðuna til hópsins. En það eru fleiri hópar að störfum sem eiga að skoða stöðu eldri borgara og þar eiga fulltrúar eldri borgara yfirleitt sæti við borðið. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort eitthvað muni koma út úr öllu því starfi sem fram fer í nefndum og starfshópum. Það væri kannski ráð að skipa þessa hópa eingöngu eldri borgurum og í þeirra hópi má örugglega finna fulltrúa allra stjórnarflokkanna ef því er að skipta.