Dagaði uppi í nefnd

Árni Gunnarsson fv alþingismaður minnir í grein í Morgunblaðinu í dag, á þingsályktunartillögu sem var flutt á Alþingi fyrir 17 árum, þar sem skorað er á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sérfræðinga til að kanna áhrif fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar eftir árið 2010,  á eftirlauna- og lífeyrismál og á heilbrigðiskerfið. Það var Ísólfur Pálmason sem flutti tillöguna.

Í grein Árna sem ber fyrirsögnina Framtíðin sem gleymdist, fjallar hann um þetta og rifjar upp að í greinargerð með tillögunni segi meðal annars að frá árinu 1970 til 1995 hafi Íslendingum 65 ára og eldri fjölgað úr 5,9% þjóðarinnar í 11,3%  og að í spá um þetta hlutfall til ársins 2030 sé gert ráð fyrir að eldra fólk verði allt að 19 af hundraði. Þess er líka getið í greinargerðinni að rannsóknir hafi farið fram á Vesturlöndum á áhrifum þess að sífellt fleiri nái háum aldri, meðal annars vegna framfara í læknisfræði. Þessi fjölgun hafi áhrif á kostnað við heilbrigðisþjónustu og aukin útgjöld lífeyriskerfisins. Síðan segir í greininni:

Því má svo bæta við að þegar tillagan var flutt var fyrirsjáanlegt að stjórnvöld yrðu að starfa eftir áætlun um uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir aldraða, en þá þegar gat t.d. Landspítalinn ekki losað legurúm þar eð ekki var nægt rými í hjúkurnar- og dvalarheimiilum fyrir aldraða. Nú er það orðið eitt stærsta vandamál spítalans.

Í greininni segir ennfremur að tillagan hafi verið lítillega rædd á Alþingi árið 2002. Málinu hafi síðan verið vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar en þar hafi það dagað uppi og aldrei verið rætt frekar. Síðan segir Árni.

Gera má ráð fyrir að hefði þessi tillaga verið samþykkt og vinnuhópur sérfræðinga valinn til að skoða málið og gera áætlun um viðbrögð, þá hefði staða eldri borgara á Íslandi verið önnur og betri í dag. Það eru því heil sautján ár síðan reynt var að vekja athygli Alþingis á þeim vanda, sem þá var fyrirsjáanlegur, og hefur ekki gert annað en vaxa hin síðari ár.

 

 

Ritstjórn júní 12, 2019 12:15