Vantar 78 þúsund krónur til að halda í við lægstu laun

Haukur Arnþórsson

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur skrifaði grein í Morgunblaðið í gær fimmtudaginn 7.nóvember, þar sem fjallað er um þróun ellilífeyris. Hún birtist sama dag hjá Lifðu núna vefnum. Haukur segir í greininni að þótt ekki sé fjallað sérstaklega um hækkanir lífeyris aldraðra í stjórnarsáttmála núverandi  ríkisstjórnar megi reikna með að hún ætli sér að fara að lögum í því efni. „En rökstyðja má að það hafi hún ekki gert fyrir árin 2018 og sérstaklega ekki 2019 – og samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi stendur það ekki heldur til á árinu 2020“, segir Haukur og bendir á 69 grein almannatryggingalaganna frá 2007. Þar segi að ákvörðun um árlegar hækkanir skuli „taka mið af launaþróun“. Þá sé eðlilegast að miða við launaþróun næstliðins árs og þróun lægstu launa og/eða þróun launavísitölu.  Haukur hafði hins vegar samband við Lifðu núna og bað um að koma á framfæri eftirfarandi leiðréttingu á greininni, sem birtist hér fyrir neðan.

 Lífskjarasamningarnir

Nú hafa verið gerðir lífskjarasamningar, ekki hvað síst fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar. Þeir kveða á um krónutöluhækkanir þannig að hlutfallslega meiri hækkun verður á lágum launum en háum. Þannig eru samningarnir gerðir til þess að jafna tekjuskiptinguna í samfélaginu og þeir rétta hlut lágtekjufólks.

Við þessar aðstæður má spyrja hvað orðalagið – að taka mið af launaþróun – þýði. Eiga stjórnvöld að miða ellilífeyri fyrir árið 2020 við hækkanir lægstu launa eða hækkanir meðallauna? Svarið við því virðist augljóst, enda hefur ellilífeyrir ávallt tekið mið að lægstu launum og ekki síst eftir lagabreytinguna á árinu 2016, sem kom til framkvæmda 1. janúar 2017. Þá er ljóst að aldraðir eru í þeim hópi sem þarf ekki síst á leiðréttingunni að halda, sem lífskjarasamningarnir snúast um.

Kerfisbreytingin frá 1997-2017

Kerfisbreyting varð á almannatryggingum hvað varðar ellilífeyri á árunum 1997-2017. Fallið var endanlega frá því að greiða öllum jafnt eða frá hinu alþjóðlega kerfi opinbers ellilífeyris og kerfið gert að hreinræktaðri félagslegri aðstoð – með skerðingarákvæðum fyrir aðra en þá verst settu.

Þessi breyting orkar mjög tvímælis því hún á sér fáar eða engar hliðstæður í nágrannaríkjunum. Þá er einkennilegt að setja hana í lög um almannatryggingar, hún hefði átt betur heima í lögum um félagslega aðstoð – og jafnvel átt að verða verkefni sveitarfélaga, eins og almenna reglan er um aðstoð.

Með þessari kerfisbreytingu á ellilífeyrir að auka tekjujöfnuð, sem var áður hlutverk skattkerfisins. En skerðingakerfi er miklu öflugra jöfnunartæki en hátt skattþrep og það jafnar tekjurnar harkalega niður á við.

Þar sem kerfið snýst nú um félagslega aðstoð batnaði staða tekjulausra eða mjög tekjulítilla ellilífeyrisþega á þessum 20 árum og varð hún best 1. janúar 2017 eftir að nýju lögin um almannatryggingar gengu í gildi – og var það vissulega ánægjulegt. Þó þarf enn að gera betur við þá hópa og að minnsta kosti að skila þeim sínum hlut í auknum þjóðartekjum síðustu tveggja ára. En staða þeirra sem eiga einhver lífeyrisréttindi sem orð er á gerandi hefur veikst mikið frá 1997.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Síðan núverandi ríkisstjórn tók við hefur einnig hallað undan fæti hvað varðar félagslegu aðstoðina, eins og fram kemur á mynd 1. Ellilífeyrir hefur ekki haldið í við launavísitölu og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á hann ekki að gera það á komandi ári og því síður á hann að miðast við hækkanir lágmarkslauna á vinnumarkaði samkvæmt lífskjarasamningunum. Það hefði hann þó átt að gera frá 1. apríl 2019.

Mismunurinn er að verða mikill; frá 1. apríl 2020 vantar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu um 78 þús. kr./mán. upp á að hámarks ellilífeyrir hafi haldið í við lægstu laun. Það gerir yfir 930 þús. kr. ári – þannig að mikið hefur dregið í sundur með lægstu launum og ellilífeyri.

Þannig er ríkisstjórnin að víkja frá þeim viðmiðunum sem settar voru fram með kerfisbreytingunni 1997-2017 hvað varðar upphæðir ellilífeyris, en heldur flestum öðrum forsendum kerfisins óbreyttum, og er þá ekki síst átt við skerðingarnar. Þó verður að nefna að frítekjumark vegna atvinnutekna var hækkað, en sú aðgerð hefur væntanlega borgað sig fyrir ríkið.

Lokaorð

Með þessari grein er vakin athygli á þessari óheillaþróun. Sérstaklega er rétt að árétta að á valdatíma ríkisstjórnarinnar hefur ríkt eitt mesta góðæri í sögu þjóðarinnar. Á sama tíma hefur dregið verulega í sundur með vinnutekjum og ellilífeyri þannig að aldraðir hafa ekki notið sömu hlutdeildar í þjóðarauðnum og aðrir. Hér fyrir neðan er taflan sem fylgir með greininni.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 7, 2019 09:50