Þarf ekki nefnd til að hækka ellilífeyrinn

Ráðherra á auka landsfundi Landssambands eldri borgara

Grein um nýjan starfshóp sem Félags-og jafnréttismálaráðherra hefur skipað til að bæta kjör eldra fólks, vakti mikil viðbrögð á Facebook síðu Lifðu núna. Sjá grein um hann hér. Langflestir sem þar tjá sig eru þeirrar skoðunar að það þurfi ekki fleiri nefndir um málefni eldra fólks, heldur aðgerðir til að bæta úr. Þannig segir ein þeirra sem tjáir sig „Já já endilega eina nefndina enn, sem gerir svo ekkert“ . Flestir sem tjá sig telja að það liggi þegar fyrir nægilega miklar upplýsingar og nógu margar skýrslur um stöðuna.  „Það þarf ekki eina nefndina enn. Aðgerðir er það sem þarf og það strax“, segir einn.  Annar segir „300 þúsund krónur strax skattfrjálst, einfalt og engin þörf á  nefnd núna!!!“

Margir óþreyjufullir

Þessi ummæli sýna hversu óþreyjufullir margir eru orðnir eftir að kjör þeirra sem eru komnir á eftirlaun verði bætt. Þrátt fyrir að ellilífeyrir hafi hækkað með nýju almannatryggingalögunum sem tóku gildi um áramótin 2016/2017 er ljóst að mörgum þykir ekki nóg að gert. Margvíslegar skerðingar í kerfinu koma líka í veg fyrir að hærri tekjur skili sér í vasa eftirlaunafólksins í landinu. Starfshópurinn sem nú hefur verið skipaður, mun einbeita sér að því að leggja fram tillögur til að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa. Hann á að skila af sér 1. nóvember næst komandi.

Verðum öll dauð þegar og ef þetta nær í gegn

Grípum aðeins aftur niður í athugasemdirnar á Facebook. „Nei ekki eina nefndina enn“, segir kona sem tjáir sig og aðrir benda á að síðustu árin hafi margar nefndir og starfshópar verið að störfum um málefni eldra fólks. Eitthvað hljóti þetta að kosta samfélagið. Þar að auki tefji nefndirnar málið. Það er búið að ræða þetta æði lengi, reyndar áratugi, án nokkurra breytinga“ segir önnur kona og spurt er hvað búið sé að borga mikið í allar nefndirnar og hópana sem hafa verið skipaðir til að ræða þessi mál. Enn önnur klikkir út með þessu. „Við verðum öll dauð þegar og ef þetta nær í gegn. Trúlega verða þetta ein loforðin og bara til að sýnast vera að gera eitthvað“.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara

Viðbrögðin hjálpa okkur í baráttunni

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara er í starfshópnum. Hún segir ánægjulegt að fá alls konar viðbrögð við skipan hópsins „Það hjálpar okkur í baráttunni“, segir hún og tekur fram að starfshópur eins og þessi fái ekki greitt fyrir vinnu sína. Hún segir það vissulega rétt að mörg ár hafi farið í að reyna að finna réttlátara lífeyriskerfi. „En gallarnir á þessu kerfi frá 1.janúar 2017 eru margir og þá þarf að skoða. Það er einmitt það sem þessi starfshópur á að rýna í. Það er ávallt keppikefli LEB að finna það fólk sem stendur höllustum færi, má þar nefna eldri innflytjendur og þá sem búa við kröpp kjör vegna hárrar leigu, það mun verða skoðað alveg sérstaklega, auk fleiri þátta svo sem eins og skerðingar vegna greiðslna úr lífeyrissjóði sem er sparnaður okkar til efri áranna“.

 

 

 

Ritstjórn maí 12, 2018 11:14