Orðin eldri borgarar og njóta lífsins

Mynd tekin á ferðalagi í Slóveníu.

Sigurður Björgvinsson og Þórdís Guðjónsdóttir eru bæði komin á eftirlaunaaldur og hætt að vinna. Hann var kennari og skólastjóri mest alla sína starfsævi og hún hjúkrunarfræðingur með geðhjúkrun sem sérsvið. Það sem einkennir og sameinar þessi hjón er augljóslega kátína sem er gott veganesti inn í efri árin en þau eru bæði sérlega hláturmild. Þau segjast vera svo lánsöm að hafa getað ráðið starfslokum sínum sjálf. Þórdís segist alla tíð hafa notið þess ríkulega að vinna og alltaf verið á góðum vinnustöðum. Það hafi hins vegar verið sameiginleg ákvörðun þeirra hjóna að njóta lífsins á meðan þau gætu og væru enn við góða heilsu og nýta tímann vel sem þau fengju nú meira af. Og ekki er verra að fara með létta lund inn í þann tíma. Sigurður hefur alltaf verið virkur í félagsstörfum og er nú í stjórnum nokkurra félaga auk þess sem hann er formaður húsfélagsins þar sem þau búa í Hafnarfirði.

Ætlaði að verða rafvirki

Sigurður hafði ætlað sér að verða rafvirki því hann hafði alltaf haft mikinn áhuga á tólum og tækjum. Hann hætti snarlega við það í hruninu 1968 en þá stóð hann frammi fyrir því að fá ekki samning þar sem erfiðleikar voru hjá fyrirtækjum sökum efnahagsástandsins. Hann þurfti því að hugsa málið upp á nýtt. “Þá fór ég í Kennaraskólann og sé ekki eftir því,” segir Sigurður en margir muna eftir skólastjóranum sem spilaði gjarnan á gítar fyrir nemendur sína. Hann var kennari í Hafnarfirði allt þar til hann tók við sem skólastjóri 1993 í Víðistaðaskóla sem varð seinna einn af stærstu skólum landsins með yfir 700 nemendur. Þá höfðu Víðistaðaskóli og Engjadalsskóli verið sameinaðir og Sigurður stýrði yfir 120 starfsmönnum.

Settu upp söngleiki og skólastjórinn spilaði með

Á ferðalagi með dóttur og tengdasyni.

Sigurður segir að regla hafi verið að setja upp söngleiki á hverju ári og þá spilaði hann alltaf með. “Allir sem gátu fengu að vera með og þegar ég hitti gamla nemendur segja þeir gjarnan að söngleikirnir séu eftirminnilegastir í skólagöngu þeirra,” segir Sigurður hlæjandi. “Siggi tók gítarinn gjarnan með sér þegar hann fór að kenna og allir muna það enda er tónlistin sameiginlegt áhugamál barna og unglinga og allir njóta,” segir Þórdís. Hún segist ekki spila sjálf á hljóðfæri en njóti þess ríkulega að hlusta á tónlist. Það verði einhver að vera í því hlutverki og hún segist þá bara hafa tekið það að sér.

Alinn upp á Suðurnesjum

Sigurður ólst upp í Keflavík eins og margir farsælir tónlistarmenn þjóðarinnar. Hann segir að líklega hafi nándin við herstöðina og áhrifin sem krakkar urðu snemma fyrir þaðan, haft eitthvað með það að gera hversu tónlistin varð ríkur hluti af lífi mjög margra sem ólust þar upp. Sigurður lærði á Klarinett og var í Drengjalúðrasveit Keflavíkur. Stjórnandi hennar var Herbert Hriberschek. “Ég hafði góða kennara, t.d. komu menn úr Sinfóníunni að kenna okkur eins og Gunnar Egilsson og Vilhjálmur Guðjónsson og ekki minnkaði áhuginn við að fá svo góða tilsögn. Þórdís fæddist í Reykjavík en ólst upp í Hafnarfirði. Hún starfaði lengi á lungnadeild Vífilsstaðaspítala sem kom sér vel á þeim tíma en þá bjuggu þau í Garðabæ. Þar byggðu þau sér hús og bjuggu þar í 30 ár. Þórdís söðlaði þá um og sneri sér að geðhjúkrun, fyrst á Kleppi á endurhæfingardeild. Fyrir 15 árum var svo athvarfið Lækur sett á laggirnar í Hafnarfirði af Rauða krossinum og Þórdís var ráðin þar forstöðumaður og starfaði þar allt til starfsloka. Lækur er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og innleiddi Þórdís frá upphafi hugmyndafræði valdeflingar sem virkar vel fyrir þennan hóp. Þau hjón settust að í Hafnarfirði fyrir áratug og búa nú í stórkostlegri íbúð með útsýni yfir sjóinn og alla leið yfir á Snæfellsjökul. Áhugamál þeirra hjóna eru fjölbreytileg en fyrir utan gönguferðir og aðra hreyfingu eru lestur góðra bóka, handavinna og listir eins og tónlist, myndlist og leiklist ofarlega á listanum.

Fjölskyldan nýtur lífsins í sumarbústaðnum.

Stuðningur fyrir barnabörnin

Þau Þórdís og Sigurður eru sammála um að það sé mjög mikilvægt fyrir þau að geta stutt við afkomendurna. “Nú erum við að borga til baka aðstoð sem við nutum ríkulega frá okkar foreldrum þegar við vorum ung og þurftum mikið að vinna, ég í vaktavinnu og hann að spila um helgar,” segir Þórdís. “Við teljum okkur trú um að það sé gott fyrir þau að umgangast okkur,” bæta þau við hlæjandi. Dóttir þeirra, Margrét, er ein af ungu frumkvöðlunum okkar sem hefur slegið í gegn með tölvuleik, sem tengdur er tónlist og nefnist Mussila. Margrét er einstæð móðir með dóttur á skólaaldri og á meðan mest er að gera við að koma fyrirtækinu á laggirnar hlaupa þau Þórdís og Sigurður í skarðið og aðstoða með dóttur hennar. “Margrét þarf vinnunnar vegna að að ferðast mikið eins og er og þá gistir sú stutta bara hér hjá okkur á meðan og einfaldara er að halda allri reglu.”

Vinnan í dag er heilsurækt

Þessi kátu hjón segja að í raun sé vinnan þeirra í dag að halda líkamanum eins hreyfanlegum og hraustum og þau frekast geta. “Við förum ekki í neinar ýkjur með það en erum aldrei í aðgerðarleysi,” segja þau. Þau eru bæði í leikfimi og sem dæmi má nefna að Sigurður er búinn að vera í mörg ár í karlaleikfimi hjá Sóleyju Jóhannsdóttur, Soley´s boys, og Þórdís hefur líka verið í leikfimihópum hjá henni. Sóley hefur farið þrisvar sinnum með þennan karlahóp í leikfimikeppnir í útlöndum sem nefnast Golden Age Gym Festival. Þau hafa farið tvisvar til Ítalíu og einu sinni til Slóveníu. Atriði þeirra gengur út á að karlarnir sýna vel æfðan dans sem Sóley býr til fyrir þá við skemmtilega tónlist. Og í lok atriðisins koma eiginkonur þeirra inn á sviðið og klára sýninguna með þeim við mikinn fögnuð áhorfenda. Fyrir þessa dansa hafa þau fengið viðurkenningu og uppskorið mikla skemmtun.

Fóru til Póllands á heilsuótel

Þau Sigurður og Þórdís fara reglulega í gönguferðir og ganga þá rösklega í ákveðinn tíma. “Við reynum að hreyfa okkur eitthvað á hverjum degi,” segja þau. “Við fórum til Póllands

Sigurður með gítarinn á góðri stundu.

á heilsuhótel síðast liðinn vetur þar sem var mjög mikil hreyfing,“segir Þórdís. “Þar var byrjað  snemma á morgnana með rösklegri göngu,  síðan var farið í sundleikfimi og teygjur gerðar  og borðaður hollur matur. Þetta endist okkur langt inn í veturinn og svo héldum við hreyfingunni við eftir að við komum heim. Svona ferð er mjög góð leið til að koma sér í gott form,” segja þau. Ferðalög hafa verið ríkur þáttur í lífi Sigurðar og Þórdísar en þau  hafa ferðast mikið, bæði innanlands og utan og iðulega eru ferðirnar sögulegar. Þau segja t.d. frá ferð á Hornstrandir þar sem þau þurftu að berja snjóinn af kúlutjaldinu og ferðalögum sem þau fóru með fellihýsi um Evrópu og alltaf gerðist eitthvað skemmtilegt. Síðan eiga þau sumarbústað sem þau  njóta ríkulega að dvelja í og leigja hann síðan fyrir rekstrarkostnaði þegar þau nota hann ekki sjálf.

Allir í tónlist

Börn þeirra Sigurðar og Þórdísar hafa öll verið í einhverju tónlistarnámi og dóttir þeirra Margrét, hefur gert tónlistina að atvinnu með píanóleik og söng og svo nú með fyrirtæki sínu Mussila music school þar sem tónlistin er notuð við að kenna notendum ýmislegt varðandi tónlist í gegnum tölvuleik.

Þórdís í einni af gönguferðunum um landið.

Nokkuð ljóst er að þessi jákvæðu hjón ætla ekki að láta aldurinn taka af sér völdin heldur hafa þau ákveðið að njóta efri áranna alveg eins og þegar þau voru yngri.

 

 

 

 

Ritstjórn október 26, 2018 09:08