Hjálpartæki eru hönnuð til að gera fólki kleift að bjarga sér sjálft þrátt fyrir líkamlega annmarka. Það gildir einu hvort um sé að ræða aldraðan einstakling, miðaldra eða ungan. Hjálpartækin eru ómetanleg eins og Lifðu núna komst að þegar 81 árs gömul kona hringdi og sagðist einstaklega þakklát fyrir og ánægð með göngugrindurnar sínar.
Hún hélt hins vegar áfram og sagði: „Það virðast vera fordómar gegn þeim. Sumt fólk vill ekki sjást með göngugrindur og kýs frekar að sitja heima en fara út með slík hjálpartæki. Ég skil það ekki. Útigöngugrindin mín fer með mig yfir fjöll og innigöngugrindin gerir mér kleift að fara á mannamót.“
Margar ástæður geta verið fyrir því að fólki er ráðlagt að styðjast við göngugrind. Sú algengasta er svimi. Hann getur stafað af því sem kallast á ensku: peripheral vestibular disfunction. Í raun nær þetta hugtak yfir allar truflanir á jafnvægiskerfi líkamans sem staðsett er í innra eyra. Jafnvægistaugin getur hafa orðið fyrir skemmdum eða kristallar í innra eyra hreyfst til og valdið ójafnvægi. Það er einnig til að fólk fái vírus á jafnvægistaugina sem venjulega veldur því að hún eyðileggst. Það getur gerst hvenær sem er á ævinni. Oftast tekur heilinn yfir hlutverk taugarinnar en með árunum er hugsanlegt að fólk finni fyrr fyrir jafnvægistruflunum.
Sjónskerðing er önnur ástæða þess að fólk kýs að styðjast við göngugrind. Það greinir umhverfið ekki eins vel og áður og hnýtur þess vegna frekar um ójöfnur. Slitgit í mjöðmum, hnjám og ökklum er einnig góð ástæða til að velja sér góð hjálpartæki, annað hvort stafi, göngugrindur eða hjólastóla. Þegar fólk er að jafna sig eftir aðgerðir, beinbrot eða ef fólk glímir við máttleysi. Göngugrindur hjálpa einstaklingum að fara um af meira öryggi, standa uppréttum og halda lengur í sjálfstæði sitt. Það að geta farið út daglega er nauðsynlegt fyrir marga og útiloftið gerir fólki gott.
Okkar kona fór nýlega á árshátíð þar sem boðið var upp á steikarhlaðborð. „Ég gat tyllt mér á göngugrindina mína og hvílt mig,“ sagði hún. „Ég veit að nokkrar konur sem komu í fyrra treystu sér ekki núna því þær geta ekki staðið í röð vegna svima. Ég fer hins vegar allra minna ferða þökk sér göngugrindunum mínum, nema í strætó. Ég hef enn ekki lagt í strætó en á eftir að gera það. Þar sem ég bý er rútustigi upp í strætó og maður fer ekki hjálparlaust með göngugrind upp rútustiga.“
Eitt vildi hún þó benda á og það er að bæta mætti aðgengi fólks með göngugrindur víða, rétt eins og hjólastólaaðgengi. Þeir sem skipuleggja samkomur ættu að gera ráð fyrir að í hópnum sé fólk sem styðst við hjálpartæki og raða þess vegna upp borðum og stólum þannig að auðvelt sé að komast á milli borða og til sætis með slík tæki. Hún sagði að göngugrindur væru smart. Þær væru hreinlega flottur fylgihlutur sem skilaði eiganda sínum auknum lífsgæðum og ánægju.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.