Göngutúrar geta gert kraftaverk

Nýleg rannsókn American Heart Association sýnir fram að klukkutíma göngutúr á dag dregur marktækt úr líkunum á offitu hjá einstaklingum með ættarsögu um offitu. Hins vegar virðast miklar kyrrsetur og sjónvarpsáhorf í meira en fjóra klukkutíma á dag auka hættuna á offitu um 50 prósent, þetta kemur fram á á vefnum mataraedi.is sem Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir heldur úti.

img_0751_med_hr (1)Bæta líðan og heilsu

Axel er mikill áhugamaður um bættan lífsstíl og segir: „Ég hef nú starfað sem hjartalæknir í rúm tuttugu ár. Á þessum tíma hef ég upplifað stórstígar framfarir í greiningu og meðferð hjartasjúkdóma á sama tíma og lífsgæði og horfur sjúklinga hafa batnað mikið. Ég hef líka uppgötvað hversu mikla möguleika við höfum sjálf til að hafa áhrif á heilsu okkar og vellíðan. Með heilbrigðu líferni, hollu mataræði og hreyfingu má bæta líðan og lífsgæði verulega og koma í veg fyrir sjúkdóma.“

Einfaldar athafnir skipta sköpum

Í grein sem Axel skrifar á vefinn mataraedi.is segir hann: Heilsa okkar og líðan er að miklu leyti háð athöfnum okkar og lífsstíl. Oftast er ekki flókið að grípa til aðgerða sem bæta heilsuna og draga úr líkum á sjúkdómum. Fyrsta skrefið er að átta sig á því að lífsstíllinn skiptir máli og að trúa því að  einfaldar athafnir geti skipt sköpum fyrir heilsu okkar. Oft ræði ég við fólk um mikilvægi reglubundinnar hreyfingar fyrir heilsuna. Stundum rek ég mig á að fólk áttar sig ekki á mikilægi líkamsræktar fyrir andlega og líkamlega líðan.

Hreyfing skiptir máli

Sumir telja jafnvel að það sé einhvers konar mýta að hreyfing skipti máli og að vísindalegar rannsóknir hafi ekki sýnt fram á slíkt. Hið sanna er að þetta er alrangt. Vísindarannsóknir hafa nefnilega sýnt að hreyfing getur skipt sköpum fyrir heilsu okkar. Þegar við eldumst minnkar vöðvastyrkur og stirðleiki eykst. Líkamsrækt sem við gátum stundað þegar við vorum yngri verður okkur erfiðari og stundum óframkvæmanleg.

Ekki leggja árar í bát

Þá má hins vegar ekki leggja árar í bát og leggjast upp í sófa. Einföld hreyfing eins og göngutúrar getur haft mjög jákvæð áhrif á heilsu okkar og dregið úr hættu á sjúkdómum. Hreyfing hefur góð áhrif á blóðþrýsting og blóðfitur auk þess sem hún getur dregið úr hægfara bólguvirkni í líkamanum. Fræðilega getur þetta dregið úr hættu á krabbameinum og hjarta-og æðasjúkdómum.“

 

 

Ritstjórn ágúst 10, 2015 14:48