Mataræði framtíðar sniðið að hverjum og einum

Við höfum öll heyrt að mataræði framtíðarinnar muni innihalda minna kjöt og mjólkurvörur. En vísindin efla alla dáð: Það eru horfur á að þau okkar sem lifa lengur en til ársins 2028 muni eiga kost á mataræði sérsniðnu að arfgerð sinni; nýju furðugrænmeti; matreiðsluvélmennum og sælkerasmökkun án samvizkubits. Að mati vísindafréttamanna BBC veldur þetta því að varla nokkur muni sakna meira kjöts í mataræði sínu.

Fyrir árið 1928 hafði enginn jarðarbúi smakkað tyggigúmmí. Maturinn sem við, neytendur í neyzlusamfélagi nútímans, neytum er stöðugt að þróast. Þegar kemur fram á árið 2028 megum við gera ráð fyrir að leggja okkur til munns mat sem engan hafði svo mikið sem dreymt um áður.

Við höfum lengi vitað að hollt mataræði er forsenda heilbrigðs lífs. Samhengi mataræðis og heilsu var fyrst vísindalega „sannað“ um miðja nítjándu öld þegar skozki flotalæknirinn Joseph Lind gerði tilraunir sem sýndu fram á að neyzla sítrusávaxta fyrirbyggði skyrbjúg í sjómönnum. Eftir þessa tímamótauppgötvun urðu sítrónur og límónur staðalbúnaður um borð í skipum brezka heimsveldisins og hún sýndi hvernig heilsusamlegt mataræði getur bjargað ótal mannslífum.

Mikill munur milli einstaklinga á úrvinnslu matar

Nú á dögum hafa vísindin greint nánast hvern einasta þátt mataræðis okkar, alveg niður í öreindir. En þrátt fyrir þetta eru sum okkar eins og bátur á reki; jafnvel þótt farið sé upp á punkt og prik eftir opinberum ráðleggingum um heilsusamlegt mataræði virðist matur sem fyllir suma orku draga aðra niður.

Árið 2015 fylgdust vísindamenn í Ísrael með blóðsykursgildum í 800 manns yfir nokkurra daga tímabil, og komust að þeirri óvæntu niðurstöðu að mikill munur er á líffræðilegri úrvinnslu einstaklinga á sama matnum. Sumir fengu blóðsykurs-„búst“ eftir neyzlu sykraðs rjómaíss, á meðan blóðsykursgildi annarra hækkuðu bara með neyzlu sterkjuríkra hrísgrjóna. Þessar niðurstöður stangast á við viðtekna vitneskju.

Mataræði sniðið að arfgerð hvers og eins

Sértæk úrvinnsla líkama hvers og eins á næringarefnum virðist skýrast að hluta af erfðaefni okkar, að hluta af örveruflórunni í meltingarveginum og loks mismunandi „skipulagi“ innri líffæra líkamans. Klínískar tilraunir eins og þær sem Lind flotalæknir var frumkvöðull að hafa skapað grundvallarviðmið um heilsusamlegt mataræði. En næringarfræði gengur að mestu út frá því að allar manneskjur séu í grunninn eins. Á næstu árum er því spáð að einstaklingsbundin mataræðisráðgjöf muni byggja á greiningu erfðaefnissýna og þannig sérsniðin að þörfum hvers og eins.

Jeffrey Blumberg, prófessor í næringarfræði við Tufts-háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum, er eindreginn talsmaður slíkrar klæðskerasniðinnar mataræðisráðgjafar á grunni erfðaefnisgreiningar. „Ég mun geta sagt þér hvaða ávexti, hvaða grænmeti og hvaða korntegundir þú ættir að borða, og hve oft,“ fullyrðir hann.

Sérsniðið mataræði að hverjum og einum mun óhjákvæmilega flækja það verulega að elda máltíð fyrir alla fjölskylduna eða matarklúbbinn.

Erfðabreytt matvæli framtíðin?

Fá lýsingarorð eru notuð meira við markaðssetningu matvæla en að þau séu „náttúruleg“. En í raun eru fá matvæli sem nútímafólk lætur sér til munns sem líkjast enn upprunalegum afbrigðum sínum. Ávextirnir og grænmetið sem við neytum hefur verið ræktað í árþúsundir og oft tekið miklum erfðafræðilegum stökkbreytingum frá náttúrulegum uppruna sínum. Gulrætur voru til að mynda ekki appelsínugular heldur mislitar og mest hvítar; villtar ferskjur líktust upprunalega kirsuberjum og voru saltar á  bragðið; vatnsmelónur voru litlar, harðar og beizkar á bragðið; eggaldin líktist hvítu eggi.

Ræktunin og hraðvaxtaraðferðir nútímalandbúnaðar hafa oft komið niður á næringargildinu. Talið er að flest afbrigði nútímagrænmetis hafi nú um tvo þriðju af upprunalegu gildi. Með aðferðum erfða- og lífefnafræði mun verða unnt að erfðabreyta þessum matvælum þannig að þau endurheimti næringargildið. En erðabreytingar á matvælum verða áfram umdeildar. Þótt þær geti t.d. búið til jarðhnetur sem ekki valda ofnæmi, belgbaunir sem innihalda prótín sem samsvarar kjötprótíni og þannig mætti lengi telja.

Kjötlaust kjöt og mjólkurlausar mjólkurvörur

Eitt er þó víst: Árið 2028 verður í boði ýmis matur sem smakkast eins og ekkert sem við höfum áður þekkt. Nýsköpunarsnillingar Kísildals eru nú t.d. önnum kafnir við að skapa nýjar fæðutegundir. Ein þekktasta afurðin sem nú þegar er komin á markað er „Impossible burger“: kjötlaus hamborgari sem lítur út eins og kjötborgari, steikist eins og kjötborgari, það blæðir úr honum eins og kjötborgara, og hann smakkast eins og kjötborgari. Án þess að nokkurt kjöt sé í honum. Verið viðbúin því að þurfa að venjast nýjum gerðum kjötlauss kjöts og mjólkurlausra „mjólkurafurða“. Óhjákvæmilegt þykir að þegar mannkynið stækkar í tíu milljarða manna, sem spáð er að gerist fyrir lok þessarar aldar, verði neyzla kjöts og mjólkurafurða að stórminnka – ella færi rányrkja jarðar alveg úr böndunum.

Ritstjórn maí 19, 2022 07:00