Hættulegt að sofa of mikið

Svefnpurkur athugið að sofa meira en sjö til níu stundir á nóttu getur leitt til ótímabærs dauða af völdum heilablóðfalls, hjarta og æðasjúkdóma. Það getur sem sagt verið jafn hættulegt að sofa of mikið eins og að sofa of lítið. Greint er frá nýlegum rannsóknum þar að lútandi í blaði Landssambands bandarískra hjartasjúklinga.

Vísindamenn við Háskólann í Keele í Englandi skoðuðu og greindu 74 rannsóknir sem höfðu verið gerðar á svefnvenjum rúmlega þriggja milljóna manna. Í ljós kom að þeir sem sváfu meira en 10 klukkustundir á sólarhring voru að meðaltali í 30 prósent meiri hættu að deyja ótímabærum dauðdaga en þeir sem sváfu sjö til níu stundir. Þeir sem sváfu lengi voru í 56 prósent meiri hættu á að deyja af völdum heilablóðfalls og aukningin á ótímabærum dauða af völdum hjarta- og æðasjúkdóma jókst um 49 prósent.

Chun Shing Kwok, prófessor við Keele háskólann segir í samtali við breska blaðið Guardian að fólk eigi að greina læknum sínum strax frá því ef breytingar verða á svefnmynstri þess. Það geti haft forspárgildi um að eitthvað sé að gefa sig í líkamanum.

Ritstjórn september 11, 2018 09:08