Hálfur lífeyrir og hálft starf orðið að veruleika

Hægt er að sækja um hálfan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslu hálfs ellilífeyris frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Þetta fyrirkomulag tekur gildi í dag, 1. september.

Hálfur ellilífeyrir er tekjutengdur en lífeyrisþegar geta haft 325.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að þær hafi áhrif á greiðslur hálfs ellilífeyris. Fjárhæðin lækkar svo um 45% af tekjum eftir að því tekjumarki er náð, uns hann fellur niður.

Skilyrði:

  • Að vera 67 ára eða eldri en hægt er að sækja um frá 65 ára gegn varanlegri lækkun greiðslna.
  • Að sótt hafi verið um hálfan ellilífeyri í öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem heimila greiðslu hálfs ellilífeyris, bæði innlendum og erlendum. Ef lífeyrissjóður heimilar ekki greiðslu hálfs ellilífeyris þarf TR staðfestingu þess efnis.
  • Að vera virkur á vinnumarkaði en þó ekki í meira en hálfu starfi.

Greiðslur hálfs ellilífeyris frá TR hefjast er stofnunin hefur fengið staðfestingu á að greiðslur hafi hafist hjá þeim lífeyrissjóðum sem heimila greiðslu hálfs ellilífeyris.

Ritstjórn september 1, 2020 09:21