Rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða með því lægsta sem þekkist

Eftirfarandi grein um kostnað við rekstur lífeyrissjóðanna birtist á vefnum Lifeyrismal.is, sem er í eigu Landssamtaka lífeyrissjóða:

 

„Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður lífeyrissjóða á Íslandi var tæplega 6,4 milljarðar króna árið 2016 samkvæmt samantekt Fjármálaeftirlitsins.

Samanlagðar eignir sjóðanna voru um 3.300 milljarðar króna í árslok 2016.

OECD birti á dögunum tölur um rekstrarkostnað lífeyriskerfa í nokkrum löndum árið 2016. Þar kemur fram að á Íslandi hafi hann svarað til 0,24% af meðaleignum sjóðanna. Starfsmenn voru þá að meðaltali 250.

Þetta er með öðrum orðum hinn eiginlegi rekstrarkostnaður, þ.e. allur kostnaður við reksturinn að undanskildum fjárfestingargjöldum, óhjákvæmilegum kostnaði sem fylgir því að vera fjárfestir.

Alþjóðleg venja er að telja ekki fjárfestingargjöld verðbréfasjóða til rekstrarkostnaðar fjárfestis því þau dragast frá ávöxtun viðkomandi sjóða.

Fjárfestingargjöldin nema háum fjárhæðum og hafa fjárfestar og eftirlitsaðilar gert auknar kröfur til sjóða um að þau séu sýnilegur og gagnsær hluti starfseminnar. Því eru nú birtar áætlanir um fjárfestingargjöld í ársreikningum lífeyrissjóða.

Á árinu 2016 voru bein fjárfestingargjöld íslenskra lífeyrissjóða alls 1,8 milljarðar króna og áætlanir u.þ.b. 6 milljarðar króna til viðbótar.

Rekstrarkostnaður íslenska lífeyrissjóðakerfisins er i meðfylgjandi töflu settur í alþjóðlegt samhengi með nýjum tölum OECD vegna ársins 2016. Þarna kemur  Ísland vel út og er á svipuðu róli og Portúgal, Noregur, Síle, Lúxemborg og Þýskaland.

Kostnaður við rekstur lífeyrissjóða fellur til við eignastýringu og eftirlit með eignum, lánveitingum til sjóðfélaga, skráningu iðgjalda, greiðslu lífeyris, þjónustu við sjóðfélaga, bókhaldi, áhættustýringu og eftirliti.

Algengast er að setja rekstarkostnað sjóða (verðbréfasjóða, lífeyrissjóða, fagfjárfestasjóða, framtakssjóða) í samhengi við eignir, enda aukast umsvif með eignum. Stærsti liðurinn er yfirleitt kostnaður við stýringu eigna og má sem dæmi nefna að samkvæmt vefsíðunni Investopedia er eignastýringarkostnaður 0,5-2% af eignum.

Kostnaður við rekstur íslensku lífeyrissjóðanna er vissulega hár í krónum talið en það kostar eðlilega nokkra fjármuni að líta eftir eignum og réttindum sjóðfélaga. Ef kostnaðurinn er settur í samhengi við eignir kemur í ljós að rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða er tiltölulega lágur í alþjóðlegum samanburði. Samanburðurinn er enn hagstæðari ef litið er til verðbréfasjóða sem oftast eru með kostnað nálægt 0,5% til 1,5% af eignum.

Þessar upplýsingar eru birtar að gefnu tilefni i þjóðmálaumræðunni. Að rýna til gagns er jákvætt. Upphrópanir og fyrirfram gefnar niðurstöður skilar sjaldan árangri. Staðreyndum skal jafnframt til haga haldið.

Lífeyrissjóðir eru ekki yfir gagnrýni hafnir og það er mikilvægt að þeim sé sýnt aðhald. Umræðan verður samt að vera yfirveguð og sanngjörn“.

Ritstjórn október 24, 2017 15:15