Handskrift á fallanda fæti

Meðan við hömrum takkaborðið á tölvunni veltum við sjaldnast fyrir okkur þeirri leturgerð sem við notum. Okkur finnst þær að vísu mismunandi fallegar og eigum til að velja nýjar ýmist til skemmtunar eða aukinnar fjölbreytni. En letur á sér langa sögu og hver og einn fontur sér skapara. Það er líka mjög mismunandi hvernig letur er notað eftir því hvernig tilfinningar á að vekja með þeim sem les. Viltu vera traustvekjandi, huggandi eða gleðja þann sem fær frá þér bréfkorn? Allt þetta og meira til er undir á stórskemmtilegri sýningu, Svart og hvítt í Borgarbókasafninu Spönginni og það er Þorvaldur Jónasson myndmenntakennari sem sýnir okkur inn í heim stafagerðar og leturs.

Þorvaldur Jónasson, myndlistar- og skriftrarkennari

Algengustu leturgerðirnar eru Times New Roman, Helvetica, Arial, og Baskerville. Við þekkjum þær vel úr  tölvunni okkar en áður fyrr voru skrifarar mikilvæg stétt í samfélaginu. Þeir bjuggu margir til eigin leturgerðir og aðrir tóku þær síðan upp og notuðu. Auðvitað voru þeir mismunandi listfengir en margt það besta sem skapað var fyrir mörgum öldum lifir enn í dag. Þorvaldur Jónasson lærði kalligrafíu í Noregi og hefur kennt myndlist og skrautritun um langt árabil.

„Þarna er saga leturgerðar frá Kristburði til dagsins í dag og ýtarlegar upplýsingar við hverja mynd,“ segir Þorvaldur. „Ég tók þetta í framhaldsnámi í Noregi á sínum tíma. Miklir meistarar sem kenndu mér. Ég hef áður sýnt svipuð leturverk í Gerðubergi, Gallerí Gróttu, Mosfellsbæ og á Akranesi.“

Á sýningunni Svart og hvítt er hægt að glöggva sig á sögulegum þáttum í þróun leturs en þar eru einnig nokkrar teikningar sem Þorvaldur hefur unnið á seinni árum og andlitum þekktra einstaklinga bregður fyrir á nýstárlegan hátt.  Þorvaldur er fæddur í Ólafsvík 10. apríl 1942 og lauk kennaraprófi frá KÍ árið 1964. Sama ár hóf hann störf í Réttarholtsskóla og starfaði þar óslitið sem myndmennta- og skriftarkennari til ársins 2008. Hann tók sér einu sinni hlé frá kennslu til að stunda nám við Statens Lærarhögskole og Kunst- og håndverksskolen í Osló þar sem hann lærði skriftgrafík. Þorvaldur hlaut íslensku menntaverðlaunin árið 2009 en hann þótti einstaklega natinn kennari. Í umsögn dómnefndar á sínum tíma sagði: „Hinn frábæri kennari Þorvaldur Jónsson fékk Íslensku menntaverðlaunin í dag fyrir merkt ævistarf. Þorvaldur sem lengst var myndamennta- og skriftarkennari við Réttarholtsskóla hefur alla tíð verið frábær kennari og haft mikil og góð áhrif á nemendur sína.“

„Ég kenndi lengst af í Réttarholtsskóla,“ segir hann. „Kenndi bæði grunnskólanemum og kennaranemum. Á síðari árum hef ég verið með ótal námskeið fyrir eldri borgara og fleiri í skrautskrift. Ég hefði ekki búist við að áhugi væri svo mikill á því en þeir eru ótrúlega flinkir margir og búa til kort og fleira á þessum námskeiðum. Ég er orðinn áttatíu og tveggja ára og er núna að skrifa vinnubækur fyrir kennslu í skrift. Það er óvenjulegt því öll skrift er á fallanda fæti. Það er breyttir tímar nú þegar fólk hamrar lyklaborðið en handskrifar sjaldan nokkuð. En það reynir alltaf á það og nauðsynlegt að geta skrifað eitthvað. Hvort sem fólk vinnur á veitingastað eða við skrifborð er mikilvægt að geta skrifað skýra og læsilega rithönd.

Hér áður fyrr var algengt að sjá í atvinnuauglýsingum í blöðum; eiginhandar umsókn óskast send. Þeir sem gátu skrifað fallega rithönd sátu að vinnunni. Allir lærðu að skrifa en ekki höfðu hallir endilega tök á að þjálfa rithöndina.“

Um árabil var Þorvaldur svo stundakennari við KÍ og leiðbeindi kennaraefnum um skriftarkennslu. Hann þykir sérlega fundvís á leiðir til að vekja áhuga og metnað hjá nemendum sínum og er þekktur fyrir að skapa andrúmsloft glaðværðar við kennslu. Hann ýtir einnig undir öguð vinnubrögð og vandvirkni. Þess má geta að hann kennir örnámskeið í skrautskrift alla miðvikudaga milli klukkan 15 og 16 í Borgarbókasafninu Spönginni meðan sýningin stendur en henni lýkur þann 23. nóvember.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 16, 2024 10:46