Hangikjötslyktin ómissandi á jólunum

Guðrún Hrund Sigurðardóttir.

Guðrún Hrund Sigurðardóttir, fyrrverandi ritstjóri Gestgjafans, er mikill sælkeri og meistarakokkur. Hún heldur margar hefðir um jólin, eins og flestir Íslendingar, og ein þeirra er að elda hangikjöt. Hún fékk reyndar kofareykt hangilæri að gjöf frá bónda og ætlar að nýta það í skemmtilega forétti en kjötið er borðað óeldað að öðru leyti en að það er reykt. “Þetta kjöt þykir mér hið mesta hnossgæti og tilvalið í skemmtilega forétti og smárétti um jólin,” segir Guðrún. “En svo hef ég alltaf keypt lítið hangikjötsstykki sem ég sýð á þorláksmessukvöld og þá aðallega til að fá ilminn í húsið. Þetta borðum við alltaf í hádeginu á jóladag í tartalettum, hefðbundið með uppstúf, grænum baunum, kartöflum og rauðkáli.”

Guðrún sýður hangikjötið þannig að hún lætur það í pott  með vatni þannig að rétt fljóti yfir. Suðan látin koma rólega upp og kjötið soðið í 50 mínútur fyrir hvert kíló. Þá slekkur hún á hellunni og lætur kjötið kólna í soðinu.

Á aðfangadag er Guðrún og fjölskylda með andabringur og rjúpur þegar þær fást en íslenska rjúpan er það besta sem Guðrún fær. “Við fáum ekki alltaf rjúpur en höfum oft haft bæði. Ég hef einu sinni keypt skoskar rjúpur en ég var ekki hrifin því þá vantar innyflin til að fá kraftinn í sósuna sem er aðalmálið. Í ár fáum við engar íslenskar rjúpur svo þá eldum við andabringurnar og höfum með þeim hefðbundið meðlæti eins og appelsínusósuna góðu, waldorfsalat, brúnaðar kartöflur, heimagert rauðkál og sætkartöflumús með appelsínubragði.

Kofareykt hangikjöt er hnossgæti að sögn Guðrúnar.

Guðrún og maðurinn hennar, Hörður Harðarson, verða núna með börnum og barnabörnum á aðfangadagskvöld en jóladegi hafa þau yfirleitt varið heima í rólegheitum. Þá búa þau til  hangikjötstartalettur í hádeginu og njóta jólagjafanna. Um kvöldið eru svo matarafgangar frá aðfangadegi og ýmiss konar smáréttir. “Þessi jól eru rólegri en vanalega út af ástandinu og minna um veislur. Við ákváðum að fresta stóru boði sem hefur alltaf verið á annan í  jólum þangað til byrjað verður að bólusetja, frekar en fresta því um ár. Vonandi getur það orðið þegar dregur nær vori,” segir Guðrún og hlakkar til að byrja að matbúa fyrir jólin.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 18, 2020 10:18