Heppin mitt í ólgusjó 

Allt frá því Guðrún Hrund Sigurðardóttir var barn hefur hún notið þess að fást við list af einhverju tagi og nú nýtist sá hæfileiki henni ríkulega. Hún var síföndrandi og teiknandi sem barn og foreldrar hennar áttuðu sig snemma á listfengi stelpunnar. Guðrún fékk því að fara á allskyns námskeið og þær ráðstafanir urðu til þess að nú, þegar hún hefur náð miðjum aldri og þurft að kljást við veikindi, getur hún leitað í listina eftir hugarró. Hún málar myndir og leitar víða fanga við þá sköpun. Við hin fáum að njóta verka Guðrúnar því hægt er að nálgast þau í Gallery Grásteini við Skólavörðustíg 4. Þar opnaði nýverið 12 manna hópur lista- og handverksmanna gallerí í þessu fallega steinhúsi sem flestir kannast við því þar hafa um árabil verið reknar vinsælar verslanir. Nú er þar að finna keramik, skartgripi, trévörur, ljósmyndir, grafík, ullarverk og myndlist, allt eftir meðlimi gallerísins.

Kennaramenntun og fatahönnun

Guðrún átti sér alltaf draum um að mennta sig í fatahönnun en tók textílkennaraprófið fyrst til að undirbúa sig vel. Hún fór síðan til Danmerkur þar sem hún lærði fatahönnunina. Hún kom heim úr því námi 1989 en þá var fatahönnun ekki eins viðurkennt fag og hún er í dag svo Guðrún fór að kenna með. Þar með  minnkaði hönnunarhlutinn smátt og smátt. Allan tímann var málaralistin hluti af lífi Guðrúnar og nú hefur sá þáttur tekið yfir. Hún hefur alltaf leikið sér með vatnsliti, krít og akrýl en hóf nýverið að prófa sig áfram með olíuliti og árangurinn lætur ekki á sér standa.

Hætti að geta teiknað eða málað

Guðrún fór í gegnum tímabil fyrir nokkrum árum þegar hún hætti að geta teiknað eða málað. “Í mér var einhver óróleiki, ég átti erfitt með að lesa eða einbeita mér að máluninni. Ég var samt alltaf með trönurnar uppi við en fann ekki eirð til að taka upp pensilinn.” Þegar saga Guðrúnar er skoðuð er einfalt að finna skýringuna á því af hverju hún missti einbeitinguna. Hún greindist með krabbamein fyrir ellefu árum síðan en móðir hennar lést úr sama meini þegar Guðrún var aðeins 14 ára. Þá voru læknavísindin ekki komin eins langt og nú er og lítið hægt að gera en í dag lifir Guðrún góðu lífi og segist hiklaust vera heppin manneskja þótt horfur hafi ekki verið sérstaklega góðar til að byrja með. “Ég hef farið tiltölulega létt í gegnum meðferðirnar, ef hægt er að segja svo, og get ekki kvartað. Ég veit ekki alveg hvað varð til þess að ég byrjaði að mála aftur annað en að maðurinn minn þreyttist ekki á að hvetja mig áfram. Ég lét undan að lokum og fann hversu mikið listin gaf mér og nú er ekki aftur snúið,” segir Guðrún og brosir breitt.

Vinna fullkomlega saman

Guðrún býr með Herði Harðarsyni en þau spila skemmtilega saman í lífinu. Hörður er smiður og rammar inn myndir Guðrúnar og hún er liðtæk í hönnun smiðsgripa Harðar en verk hans eru líka til sýnis og sölu í Gallery Grásteini þar sem fyrirtæki þeirra Meiður er með eitt sýningarrýmið. Hörður smíðar fyrst og fremst ýmiss konar trébretti og húsgögn sem hafa fengið góðar viðtökur hjá Íslendingum. Verk annarra í Gallery Grásteini hafa fyrst og fremst selst til erlendra ferðamanna sem hurfu eins og dögg fyrir sólu í mars eins og allir vita. Á efri hæð hússins við Skólavörðustíg 4 er fallegur sýningarsalur og Guðrún og Hörður voru búin að setja þar upp sýningu á verkum sínum í tengslum við Hönnunarmars þegar Covid tímabilið skall á. Salurinn er bókaður út árið svo einhver bið verður á að Meiður geti sett upp sýningu aftur en Guðrún er hvergi bangin og er sannur Íslendingur þegar hún segir: “þetta reddast” full bjartsýni.

ÍMYNDIR

Gallery Grásteinn við Skólavörðustíg 4. Hús með mikla sögu.

Guðrún leitar víða fanga í list sinni en um þessar mundir mest í íslenska náttúru. “Nú mála ég helst minningar um landslag og kalla myndir mínar ÍMYNDIR því ég er að fást við ímyndað landslag.” Guðrún málar heima og getur því tekið upp pensilinn hvenær sem er dagsins en svo er hún einn dag í viku í galleríinu en listamennirnir 12 sem eru með galleríið saman skipta með sér verkum. “Mér þykir ég mikill lukkunnar pamfíll að geta gert það sem ég er að gera í dag. Þótt ég sé alveg nógu hress til að geta unnið við það sem ég er að fást við þá hef ég auðvitað minna úthald en ég hefði annars.” Guðrún greindist með krabbamein í brjósti 2009 og fjórum árum síðar í lífhimnu. Þessu er haldið niðri með lyfjameðferð sem hún segir að dragi svolítið úr sér mátt en hún geti samt gert allt sem hún vill og þurfi að gera.

“Ég fer nú samt ekki út að hlaupa,” segir hún og brosir en bætir við að þau hafi samt farið í góðan hjólatúr daginn áður.

Eitt merkilegasta hús í Reykjavík

Húsið við Skólavörðustíg 4 þar sem galleríið er til húsa var reist 1882, ári eftir að Alþingishúsið ver reist og var afgangs grjót notað við byggingu Grásteins. Húsið er talið vera fyrsta húsið í Reykjavík sem hlaðið er út tilhöggnu grágrýti sem íslenskir steinsmiðir stóðu einir að. Magnús Geir Guðnason,  sem lærði steinsmíði þegar hann vann við byggingu Alþingishússins, eignaðist húsið við Skólavörðustíginn meðan það var í byggingu. Í upphafi var húsið einvörðungu íbúðarhús en árið 1928 var neðri hæðinni breytti í verslun og upp úr 1950 var allt húsið tekið undir verslunarrekstur. Og nú er þar eitt skemmtilegasta Gallerí í Reykjavík.

 

gallerygrasteinn@gmail.com

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 31, 2020 08:15