Hasar og heift á Ísafirði

Það er alltaf gaman að rekast á umfjöllun um Ísland í erlendum bókum og sjá landið með augum gestsins. Nokkrir erlendir sakamálasagnahöfundar hafa hins vegar gert Ísland að sögusviði og gera það á einstaklega skemmtilegan hátt. Satu Rämö er finnsk og býr á Ísafirði og þar gerast bækur hennar. Fyrri bókin Hildur kom út í fyrra og nú var að koma út Rósa & Björk.

Hildur Rúnarsdóttir er rannsóknarlögreglumaður er í Reykjavík þegar sagan hefst. Hún var fengin þangað til að leysa af kollega í veikindaleyfi. Þegar fregnir berast af því að bæjarfulltrúi á Ísafirði hafi verið skotinn til bana í gönguskíðabrautinni á skíðasvæðinu fyrir ofan bæinn er henni ekki til setunnar boðið. Hún þarf að drífa sig vestur og komast að því hver af þeim fjölmörgu sem hafði horn í síðu Hermanns Hermannssonar hafi ákveðið að stytta honum aldur.

Yfir Hildi og fjölskyldu hennar hvílir þungur skuggi. Systur hennar tvær hurfu þegar þær voru börn og foreldrar Hildar létust skömmu síðar í bílslysi. Hún ólst upp eftir það hjá móðursystur sinni, Tinnu. Allt frá því að litlu stúlkurnar hurfu hafa sótt að Hildi þungar og erfiðar tilfinningar þegar eitthvað slæmt er í vændum. Hún fær fyrirboða. Tinna segir þetta ættarfylgju. Í síðustu bók fann Hildur nýja vísbendingu í máli systra sinna en ekkert hefur samt þokast áfram. Nú virðist hins vegar rofa til og Hildur fer að spyrja spurninga um foreldra sína og líf þeirra á afskekktum bóndabæ í Ísafjarðardjúpi.

Satu hefur verið búsett hér á landi í ríflega tvo áratugi. Hún kom hingað sem skiptinemi og stundaði háskólanám í þjóðfélagshagfræði en skipti um fag og hóf að læra íslenskar bókmenntir og þjóðháttarfræði. Það er Erla Elíasdóttir sem þýðir bækur hennar og gerir það einstaklega vel. Satu hafði gefið út bæði prjónabækur og handbækur um Ísland áður en hún fór að skrifa skáldsögur. Í Covid sótti að henni einhver tómleikatilfinning og hún nýtti hana til að skapa lögreglukonuna Hildi, nemann Jakob og Betur lögreglustjóra á Ísafirði. Og það var eins og við manninn mælt bækurnar hlutu metsölu í Finnlandi, þrjár þeirra hafa verið þýddar á ensku og að auki hefur útgáfuréttur verið seldur til tólf annarra landa. Satu sannar hér að hún fær í að byggja upp spennu, búa til áhugaverða fléttu og leiða lesandann áfram frá einni vísbendingu til annarrar.

Heine Bakkeid

Fleiri tengja við íslenskar löggur

Auk Satu hefur hinn breski Quentin Bates skrifað glæpasögur sem gerast á Íslandi. Hann er blaðamaður og bjó hér um árabil. Aðalpersóna hans er lögreglukonan Gunnhildur Gísladóttir. Heine Bakkeid er Norðmaður og aðalsöguhetja hans Thorkild Aske er hálfíslenskur og í fyrstu sögunni um hann, Við skulum ekki vaka, kemur hann til Íslands ásamt systur sinni til að vera við dánarbeð föður þeirra. Hér á landi flækist hann í sakamál og leysir það. Síðan hafa komið út fjórar aðrar bækur um Thorkild Aske og líklega fleiri væntanlegar því Heine nýtur mikilla vinsælda bæði á Norðurlöndunum og Bretlandi.

Quentin Bates

Í fásinninu á Raufarhöfn gerist almennt ekki margt en dag nokkurn röltir Kalmann upp að Heimskautagerðinu í leit að refnum Svarthöfða og rekst á blóðpoll. Einn helsti athafnamaður bæjarins, Róbert McKenzie er horfinn og hið mikla magn blóðs á vettvangi bendir sannarlega ekki til að hann sé á lífi. Þannig hefst fyrri saga Joachim B. Schmidt um Kalmann, sjálfskipaðan fógeta á Raufarhöfn. Síðari bókin, Kalmann og fjallið sem svaf kom svo út í fyrra. Joachim er Svisslendingur

Joachim B. Scmidt

en hefur Þetta er frumleg og skemmtileg skáldsaga og söguhetjan hvorki hefðbundin né leiðinleg. Kalmann gengur um með kúrekahatt og gamla Mauser-byssu í beltinu, þetta er föðurarfur hans.

Þetta eru ótrúlega vel skrifaðar bækur og Joachim tekst að halda þessum sérstæða karakter trúverðugum í gegnum allar hans raunir og gæðastundir. Sagt var að fyrri bókin hafi komið Raufarhöfn, Langanesi og Melrakkasléttu á kortið, ekki bara í hugum Íslendinga heldur erlendra ferðamanna, enda var bókin þýdd á fjölmörg tungumál.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.