Skemmtilega sviðsett bók

Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur er áhrifamikil og heillandi bók. Vilborg er orðinn sérfræðingur í að endurskapa andrúmsloft víkingaaldar og þjóðveldistímans hér á landi. Að auki er henni einkar lagið að byggja upp spennu og búa til einstakar persónur sem lesandanum þykir vænt um og óskar alls hins besta. Þær eru þó alls ekki gallalausar og mætti kannski segja að þær væru flóknar eins og mannfólk almennt er.

Sögusvið Lands næturinnar er það sem víkingar kölluðu Austurveg en það var verslunarleið um stórfljót Austur-Evrópu. Víkingarnir sigldu m.a. eftir stóránni Dnépur og þá leið fara Þorgerður Þorsteinsdóttir og Herjólfur seinni maður hennar til að stunda kaupskap. Þau komast fljótt að því fláttskap er víða að finna og hættulega menn. Þorgerður þarf á öllum sínum styrk að halda áður en yfir lýkur.

Þessi saga er svo lifandi og skemmtilega sviðsett að einhver kvikmyndagerðarmaður ætti að stökkva á réttinn til að gera bíómynd eftir sögunni. Lesandinn sér ljóslifandi fyrir sér fólk, fundi, hátíðahöld, híbýli og ekki síst skipin á siglingu eftir voldugum ám og niður flúðirnar sem nú eru horfnar. Hér er allt sem þarf, búningarnir, leikmyndin og stórkostleg örlög. Allt listavel fléttað.

Vilborg heldur lesandanum föngnum bókina á enda og það er með ákveðnum trega að henni er lokað. Heimurinn sem hún skapar er svo sannfærandi og skemmtilegur. Þetta er reyndar aðalsmerki góðra bóka, maður getur ekki beðið eftir að klára og fá að vita örlög aðalpersónanna en fyllist svo eftirsjá þegar búið er að lesa síðustu setninguna því þá er jú bókin búin og lesandinn strax farin að sakna þess að hafa ekki meira að lesa. Eina huggunin er að fleiri bóka er áreiðanlega að vænta frá Vilborgu og þá er hægt að halda áfram að njóta.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn október 19, 2023 07:00