Hef lært að vera ein með sjálfri mér og njóta þess

Þegar þetta er skrifað er ég búin að vera í einangrun heima hjá mér í fjórar vikur. Alvörueinangrun, ég hef ekki stigið fæti út fyrir dyr íbúðarinnar nema til að fara í þvottahúsið, ekki talað við nokkurn mann augliti til auglits nema hvað nágrannar hafa þrisvar bankað upp á til að spyrja hvort ekki sé allt í lagi og hvort mig vanti nokkuð – og svo hef ég auðvitað talað við börn og barnabörn í síma og á netinu og horft í myndsímtali á tæplega ársgamlan sonarsoninn taka fyrstu skrefin.

Ég sakna þeirra auðvitað og hlakka til að geta aftur farið að umgangast þau. En að öðru leyti líður mér ágætlega. Góðkunningi minn spurði mig í netspjalli áðan hvort þetta ástand ætti ekki bara vel við mig og það rann upp fyrir mér að líklega þekkir hann mig nokkuð vel. Eitt af því sem ég hef lært smátt og smátt í lífinu  – og það hefur ekki verið alveg sársaukalaus lexía – er að mér líður í rauninni best þegar ég er ein með sjálfri mér og ég á ekkert að vera að reyna að breyta því.

Ég hef satt að segja aldrei átt neitt sérstaklega auðvelt með að umgangast fólk. Þar með á ég ekki við að ég sé erfið í umgengni, sé alltaf að lenda upp á kant við aðra eða eitthvað slíkt. Þvert á móti, held ég. Ég er frekar ljúf manneskja og er frekar vinmörg. En ég er oft dálítið félagslega klaufsk, finnst erfitt að lesa í orð og framkomu annarra, forðast yfirleitt margmenni, finnst óþægilegt að vinna í opnu rými og á oft erfitt með að fitja upp á umræðuefni. Nema ég get náttúrlega alltaf talað um mat.

Ég fór ekki að sætta mig við þetta fyrr en það rann upp fyrir mér að ég er einfaldlega einfari í eðli mínu og það er bara allt í lagi. Maðurinn er félagsvera, er alltaf sagt, fólk leitar eftir félagsskap, og það er alltaf verið að vorkenna þeim sem eru einir, sett samasemmerki á milli einveru og einmanaleika. Og þannig er það sjálfsagt fyrir marga. Gömul skólasystir mín sagði alltaf þegar við hittumst: Mikið dáist ég að þér, Nanna, að geta verið ein – og oftar en einu sinni var ég nærri búin að missa út úr mér: Og ég að þér að geta verið gift – en það hefði þó ekki verið meint í neinni alvöru. Einvera er ekki fyrir hvern sem er.

Ég hef lært það af lífinu að vera ein með sjálfri mér og njóta þess. Og ég er svo heppin að eiga börn og barnabörn sem skilja þetta; vita að ef amma ákveður að fara ein til Þessalóniku eða Famagusta um jólin, þá líður henni vel þar og leiðist ekki neitt; eða ef þau frétta allt í einu af mér í loftbelgsflugi í Tyrklandi, þá er ég að uppfylla gamlan draum. Það verður reyndar ekki um neinar slíkar ferðir að ræða alveg á næstunni.

Ég veit að einangrun og einvera er mörgum erfið, kannski flestum. Ég er alltaf að fá spurningar um hvort þetta taki ekki á núna. En hvað mig varðar er svarið nei; einvera á vel við mig, mér finnst þægilegt að vinna heima og lifa mínu félagslífi í gegnum netið, sitja heima öll kvöld … „Sem sagt, engin breyting,“ sagði sonur minn. Nokkuð til í því. Og þótt ég eigi frábæra vinnufélaga er ég samt farin að hlakka til að hætta að vinna og vera ein heima allan daginn, nema ef mér dettur í hug að fara til Samarkand eða eitthvað. Og fá svo fjölskylduna í heimsókn, og vinina, og saumaklúbbinn – svona af og til.

Ritstjórn apríl 21, 2020 08:16