Mannlegt eðli er alltaf eins

Mannlegt er alltaf eins. Þessi frasi er gjarnan notaður til að skýra hvers vegna sum bókmenntaverk lifa og höfða sífellt til nýrra kynslóða. Shakespeare er í hópi þeirra höfunda sem ítrekað uppsettur vegna þess að hann hefur þótt fanga kjarnann í manneskjunni og miðla áfram gegnum aldirnar þeim tilfinningum og hvötum er drífa okkur áfram. Mér datt þetta í hug eftir að ég las Völskuna eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Þarna er sögð saga konu sem var upp á seinni hluta átjándu aldar en er samt svo nútímaleg í hugsun og gerðum að hún hefði allt eins getað verið meðal vor nú á dögum.

Þegar við horfum á fólk gegnum móðu fjarlægðar hvort sem hún er landfræðileg eða tengd tíma erum við gjörn á að skynja það þannig að það sé daufgerðara eða ekki eins margbrotið og við sjálf. Valgerður Skaftadóttir er svo sannarlega hvork daufgerð né einföld. Hún er hugrökk, einlæg, greind og skemmtileg. Jafnframt er hún nokkuð hvatvís og gjörn á að stjórnast af tilfinningum sínum. Einmitt þess vegna heillast lesandinn af henni og vill henni allt hið besta, finnur til samkenndar með ungri konu sem er svikin af ástinni sinni á einn eða annan hátt, djúprar samúðar með móður sem missir börn sín og aðdáun á metnaðarfullri manneskju sem hefur djörfung til að láta á það reyna hvort hún getur fengið eitthvað af draumum sínum uppfyllta.

Nanna hefur skrifað magnaða bók. Þótt sagt sé að áhuginn á formæðrum og forfeðrum fari vaxandi með árunum er ég þegar farin að finna til spennings og gleði þegar ég fæ sögur af einhverjum tengdum mér sem átti sér óvenjulega sögu og þá gildir einu hvort það var í byrjun þessarar aldar eða langt aftur á myrkum miðöldum. Valskan er líka einstök aldarfarslýsing. Hér eru leikmynd, búningar, hljóð, bragð og lykt einkar vel sviðsett. Við kynnumst stemningunni í baðstofunni, hvernig fólkið klæddi sig og skreytti, matarvenjum, uppeldisaðferðum og hvernig undirbúnar voru veislur. Þarna er að finna ástúðlegt fólk, ættrækið fólk, gallaðar manneskjur, illmenni og fólk sem lent hefur undir í lífinu. Hluti sögunnar gerist þegar móðuharðindin með sínum mann- og skepnufelli eru í hámarki og það leggur engin venjuleg kona upp í langferð þegar þannig stendur á og enginn að ástæðulausu. Nanna býr til trúverðuga skýringu á því, eins og hún gerir reyndar alltaf þegar hún skáldar í eyðurnar. Allt þetta gæti hafa gerst.

Að lokum verð ég svo að nefna að málfarið á þessari bók er einstaklega fallegt. Ég lærði svo mörg ný orðtök og hugtök að mér finnst ég ríkari að orðaforða eftir lesturinn.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn október 14, 2023 15:06