Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar
Í hugum flestra eru jólin tengd góðum mat, samveru með ástvinum, fallegum ljósum og einlægri gleði. Við upplifum töfra jólanna fyrst sem börn en síðan verða þau smátt og smátt heilög. Svo heilög í raun að í hugum margra er allt ónýtt ef bregða þarf út af vananum, breyta jólunum. Þess vegna er svo mikilvægt að fá sínar jólarjúpur, hamborgarhrygginn eða hnetusteikina. Ekki vegna þess að enginn annar matur bragðist betur heldur vegna þess að við þennan tiltekna rétt eru tengdar ótal góðar minningar um gómsætt bragð, kærleika og kitlandi spennu. Allir eiga sína jólasiði. Ég er mikið jólabarn og nýt alls þess sem desembermánuður hefur upp á að bjóða. Hefðirnar eru mikilvægar en svo lærði ég að ef sveigjanleikann vantar geta þær orðið kvaðir.
Ég hafði skapað ákveðna jólasiði með minni fjölskyldu en datt aldrei í hug að bregða út af þeim og var ákveðin í að halda ávallt „mín“ jól akkúrat eins og þau áttu að vera. Eftir umræður um einmitt þetta spurði vinnufélagi hvort ég gæti ekki einu sinni hugsað mér að bjóða góðum vini eða ættingja í neyð að deila með mér aðfangadagskvöldinu. Ég svaraði strax að það væri af og frá. Þessi samstarfskona mín leit þá á mig og sagði: „Ég varð einstæð móðir ung og valdi mér alls ekki það hlutskipti. Oft börðumst við sonur minn í bökkum og ekkert var okkur eins erfitt og jólin. Við reyndum að skapa jólastemningu í litlu íbúðinni sem við bjuggum í en það var erfitt að vera mamma, pabbi og systikini barns sem var að opna pakkana og skreyta jólatréð. Allt eru þetta siðir sem eru skemmtilegri í hópi. Ég óskaði þess oft heitar en nokkurs annars að einhverjir ættingjar myndu bjóða okkur að vera með um jól og þau voru stundum dapurleg aðfangadagskvöldin þegar drengurinn var sofnaður og ég sat og skældi yfir leifunum af jólasteik sem dugað hefði fyrir fjóra því ekkert minna var til í búðinni.“
Sagan sat í mér þótt ég hætti á þessum vinnustað og þegar aðstæður breyttust í fjölskyldu minni fóru systir mín og sonur hennar að deila með okkur aðfangadagskvöldinu. Og viti menn, eftir nokkur skipti fannst mér ekki hægt að hafa jólin öðruvísi og þegar þau færðu sig um set og fóru að deila jólunum með annarri systur saknaði ég þeirra sárt. Börnin mín uxu líka úr grasi og eignuðust maka sem komu með nýja siði inn í fjölskylduna og ég komst að því að jólin rúmuðu bara heilmiklar breytingar.
Ég met þessa fyrrum samstarfskonu mína mikils og hef oft verið þakklát fyrir að hún skyldi segja mér sögu sína. Hugsanlega hefði ég verið of lokuð í mínum hefðum, of bundin á klafa þeirra til að breyta ef það hefði ekki verið. Kannski væri ég meira að segja enn fastari í farinu og þar af leiðandi orðin svo ryðguð þar að ekkert gæti fært mig úr stað. Það væri hins vegar ávísun á vonbrigði því það er ómögulegt að halda öllu eins ár eftir ár. Breytingar eru óhjákvæmilegar, ekki síst þegar aldurinn tekur að færast yfir og ekki eins auðvelt og það var að baka, þrífa, skreyta, pússa og snurfusa. Það er svo gott að gleðjast fyrst og fremst yfir því sem maður getur í stað þess að sakna hins sem var. Ég er svo ánægð með að hluti fjölskyldu minnar er vegan og það hefur opnað nýja sýn á jólamat, að sumum finnst óþarfi að skreyta hvert horn og öll auð yfirborð, að sumir vilja lifandi jólatré og aðrir gervi og þannig mætti lengi telja að margs konar hugmyndum sem margar hverjar eru langt frá því hefðbundnar. Ég segi hikiði ekki við að prófa eitthvað nýtt. Hver veit nema skrefið út fyrir ramma hefðanna verði að ævintýri og upplifun sem þið hefðuð ekki viljað vera án.
„Ég óskaði þess oft heitar en nokkurs annars að einhverjir ættingjar myndu bjóða okkur að vera með um jól og þau voru stundum dapurleg aðfangadagskvöldin þegar drengurinn var sofnaður og ég sat og skældi yfir leifunum af jólasteik sem dugað hefði fyrir fjóra því ekkert minna var til í búðinni.“