Hugurinn er farinn en hjartað er heilt

Að horfa á eftir ástvini inn í óminni alzheimerssjúkdómsins er að horfa á hann hverfa smátt og smátt eða þannig hafa margir aðstandendur lýst áhrifum þeirrar reynslu. Sýningin Með guð í vasanum sýnir þetta ferli frá sjónarhorni beggja, ástvinarins og aðstandandans og það kemur í ljós að svo einfalt er þetta ekki. María Reyndal hefur skrifað fyndið og skemmtilegt verk, fullt af von en svo sorglegt að það nístir í hjartað.

Ásta er fyrrum kórstjóri og tónlistarmaður, glæsileg kona, alltaf svo fín, og áberandi skemmtileg. Hún er tekin að eldast en er samt alltaf sama fjögurra ára stúlkan hið innra, stúlkan sem stóð uppi á stól á Baldursgötunni og skildi að hún átti sig sjálf, hendurnar, tunguna og tennurnar. En hún er að missa tökin. Suma hluti þarf að segja henni aftur og aftur og ýmsar skrýtnar venjur hafa yfirtekið líf hennar. Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikur Ástu af einstöku innsæi og næmi. Afneitunin verður svo skýr í meðförum hennar en jafnframt allar þessar litlu leiðir sem Ásta finnur til að breiða yfir að gloppurnar sem eru að myndast í daglega lífinu.

Sólveig Arnarsdóttir leikur Ingu, dóttur Ástu, og reyndar einnig móður hennar. Í hlutverki Ingu er Sólveig einstaklega sannfærandi og kemur vel til skila sársaukanum, óþolinmæðinni og stundum hreinni uppgjöf aðstandanda frammi fyrir ómögulegum aðstæðum. Hvað er hægt að gera þegar minnið er farið? Tilgangslítið að tyggja sömu hlutina aftur og aftur og lítið hægt að hjálpa þegar viðkomandi neitar að þiggja þá þjónustu sem býðst. Þá er erfitt að standa við gömul loforð eða gefa umhyggju því þörfin er meiri en ein manneskja getur veitt. Hjörtur Jóhann Jónsson leikur, Andra, son Ástu sem fer léttar frá vandanum en systir hans. Hann bregður sér jafnframt í nokkur minni hlutverk í sýningunni og skilar sínu vel. Kristbjörg Kjeld leikur Grétu, vinkonu Ástu og gerir hana svipmikla og skemmtilega. Gréta hefur líka reynslu af alzheimer en maður hennar þjáðist af sjúkdómnum og persónuleiki hans breyttist mikið. Rakel Ýr Stefánsdóttur bregður síðan fyrir í nokkrum smáhlutverkum og hún skilar þeim öllum vel.

En ekki má gleyma að Ásta á í sérstöku sambandi við Guð. Hún er með hann í vasanum því hann fylgir henni og er til skrafs og ráðagerða þegar á þarf að halda. En krosstré bregðast sem önnur og í ljós kemur að jafnvel Guð getur verið vanmáttugur á ögurstundu. Sveinn Ólafur Gunnarsson leikur Guð og nær fullkomlega að túlka hann í þessari mjög svo mannlegu mynd, bæði reisn hans og auðmýkt.

Þetta er einstaklega áhrifamikil sýning og fljótandi hvít leikmyndin nær að undirstrika og ýta undir þennan óáþreifanleika þess þegar sjálfið er að hverfa, fljóta burtu. Hvítir hálfgagnsæir efnisbútar og tjöld hanga í loftinu og afmarka sviðið. Það er eitthvað svífandi og einhvern veginn rétt utan seilingar í  tilveru okkar þegar tjöldin taka að dragast fyrir í huga okkar sjálfra eða einhvers sem við elskum og setja skil milli þeirra heims og okkar. Hvað er manneskjan án minninga? Eru þær ekki það sem gerir okkur að þeim persónum sem við erum? Þær eru í það minnsta límið sem bindur okkur saman við hópinn okkar, fjölskylduna, vinina. Í þessari sýningu eru svo mörg áhrifamikil augnablik, svo full af sannleika og mennsku að eiginlega er ómögulegt að telja þau öll upp. Eitt er þó svo einstakt að það verður að nefna, Ásta segir við sjálfa sig eftir að hafa áttað sig á að hún er enn til staðar innra með sér þótt hún geti ekki sýnt það: „Hugurinn er farinn en hjartað er heilt.“ Fyrir þann sem hefur átt ástvin sem hvarf bak við hvíta þunna tjaldið og tapaði minningum sínum segir þessi setning allt. Þegar ekki verða neinar persónuleikabreytingar er þessi lýsing svo hárrétt. Líkt og Ásta var sú sem ég minnist, alltaf lífsglöð, þakklát fyrir það sem fyrir hana var gert og full af blíðu. Hjartað var heilt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 10, 2023 07:00