Frost og þíða

Ef eitthvað er til þess fallið að þíða síðustu leifar vetrarins úr hjartanu þá er það að fara á Frost í Þjóðleikhúsinu með barnabörnin. Sýningin er stórkostleg upplifun, úthugsuð og vel unnin og bara svo skemmtileg og lifandi. Þetta er leikhús í sinni björtustu mynd.

Upplifunin byrjar um leið og gengið er inn þegar litlar Elsur og Önnur streyma að í glitrandi kjólum með fléttur í hárinu. Fyrir ömmur á ákveðnum aldri er einmitt leynihráefnið sem þarf til að skapa þann tilfinningafarveg sem þarf fyrir söngleik um systrakærleik. En í raun þyrfti það ekki til vegna þess að þessi sýning er töfrandi frá fyrstu stundu og aldrei dauður punktur. Tónlistin er frábær og einstaklega vel flutt, leikararnir eru allir framúrskarandi og búningarnir rosalega flottir. Hins vegar er leikmyndin stóra undrið í þessari sýningu. Þvílík hugvitsemi, hagleikur og frumleiki í allri hugsun. Það var hrein unun að horfa á allar sviðsmyndirnar og litlu en skemmtilegu viðbæturnar þegar salurinn var virkjaður standa upp úr líka.

Hildur Vala Baldursdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir eru óviðjafnanlegar hvor á sinn hátt í hlutverkum þeirra Elsu og Önnu. Hildur Vala skilar vel sársaukanum undir niðri og óttanum en Vala Kristín sýnir og sannar enn og aftur að hún er afburða gamanleikkona. Auk þeirra er vert að nefna Góa í hlutverki Ólafs og Kjartan Darra Kristjánsson í hlutverki Kristjáns. Þeir sýna báðir afburða leik og það gerir Ernesto Camilo Aldazábal Valdés líka í hlutverki Sveins. Eiginlega ótrúlegt hvað hann getur gert með svipbrigðum og látbragði eingöngu. Svo er vert að nefna að Almari Blæ Sigurjónssyni tekst á trúverðugan hátt að afhjúpa illsku Hans þegar sá tímapunktur kemur og sanna rækilega að oft er flagð undir fögru skinni og fagurgala er valt að treysta. Ekki er hægt að sleppa því að nefna börnin í þessari sýningu því þau eru bæði ákaflega fagleg og hæfileikarík. Þau auðga verkið og uppfærsluna með sínu framlagi og það var augljóst að veru þeirra á sviðinu kunnu áhorfendur á svipuðum aldri vel að meta.

En í raun þarf ekki að tíunda kosti þessarar sýningar. Eiginlega nægir að segja að hún er gott dæmi um þann yndislega heim sem leikhúsið eitt getur skapað og gefur öllum eitthvað gott til að taka með sér heim þegar henni lýkur. Ef ykkur vantar eitthvað verulega skemmtilegt og gefandi að gera með barnabörnunum þá bregðið ykkur í Þjóðleikhúsið og tryggið að þið gangið út í vorið með sumar í hjartanu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 13, 2024 07:00