Heillaður af íslenskri tungu

 

Dirk Gerdes.

„Ísland er fallegt land. En þó landið sé fallegt þá er annað sem heillar mig meira en það er íslenskan. Ég hef verið heillaður af íslensku frá því ég heyrði hana fyrst,“ segir Dirk Gerdes þýskur norrænufræðingur. Hann hafði samband við Lifðu núna nú fyrir skemmstu því hann langar að komast í samband við einhvern til að tala íslensku við á netinu. „Mig vantar æfingu í talmálinu,“ segir hann og kveðst reiðubúinn að ræða við þann sem hefði áhuga á að hjálpa honum á þýsku í staðinn.

Dirk er ættaður frá Norður-Þýskalandi, frá Epenwöhrden, litlu þorpi við Norðursjó þar sem hann ólst upp á bóndabæ. Foreldrar hans stunduðu búfjárrækt, voru með mjólkurframleiðslu og ræktuðu korn. Það kom svo í hlut Dirk og bróður hans að hjálpa til við búið. En Dirk langaði ekki til að verða bóndi, hugurinn stefndi annað. Hann langaði að mennta sig.

„Að loknum skóla langaði mig að stunda nám í erlendum bókmenntum og tungumálum. Sem unglingur heimsótti ég oft Danmörku. Mér datt því í hug að læra norræn fræði. Ég stundaði nám við háskólann í Kiel. Aukagreinir mínar í háskóla voru þýsk bókmenntafræði og uppeldisfræði,“ segir hann. „Þar sem norræn fræði voru aðalnámsgrein mín þurfti ég að læra tvö norræn mál. Ég lærði íslensku sem aðalmál og norsku sem aukamál. Þegar ég byrjaði að læra íslensku var ég strax hugfanginn af henni og það er ég enn þann dag í dag. Íslenskan gefur manni svo mikið og hljómar svo vel. Í eitt ár var ég í námi við Háskóla Íslands þar sem ég stundaði íslensku fyrir erlenda stúdenta.

Mér líkaði vel á Íslandi. Landið er fallegt en tungumálið heillar mig samt meira en landslagið. Ég eignaðist tvo góða vini á Íslandi og enn þann dag í dag á ég nokkra góða kunningja þar. Ég lauk námi árið 1998 og hef oft komið til Íslands síðan þá. Í nokkur ár fór ég þangað einu sinni á ári. Ferðunum hefur hins vegar fækkað hin síðari ár. Ég er mjög upptekinn við kennslu og svo er orðið miklu dýrara að ferðast til Íslands en var. Það var hægt að fá ódýra gistingu en það er varla gerlegt í dag.“ Dirk segir að uppáhaldsstaðurinn hans á Íslandi sé Reykjavík. „Þar hefur mér alltaf liðið mjög vel. Og þegar ég fer til Íslands er ég oftast bara í borginni. Mér finnst gott að hafa fólk í kringum mig, auk þess eiga íslenskir vinir mínir og kunningjar þar heima.“

Eftir að Dirk lauk námi kenndi hann þýsku, bæði sem erlent og annað mál. En frá árinu 2009 hefur hann kennt íslensku. Sem stendur kennir hann íslensku á þremur stöðum í Þýskalandi; við Nordkolleg Rendsborg, við háskólann í Mainz og við lýðháskólann í Frankfurt. Nemendur hans eru nú um 80. „Þjóðverjar eru duglegir að heimsækja Ísland. Flestir þeirra hafa aðallega áhuga á að skoða landið en sumir hafa líka áhuga á að kynnast íslenskri menningu og tungumáli, þeir vilja því læra íslensku.“ Á sumrin er ekki boðið upp á námskeið í íslensku en þá kennir Dirk þýsku sem erlent mál á sumarnámskeiði við háskólann í Kiel.

Dirk hefur áhuga á íslenskum bókmenntum, uppáhaldsrithöfundar hans eru Jón Kalman Stefánsson, Gyrðir Elíasson og Óskar Árni Óskarsson. „Þegar ég á lausa stund sit ég við þýðingar á íslenskum bókmenntum. Ég hef þýtt Svarta engla eftir Ævar Örn Jósepsson, Galdur eftir Vilborgu Daviðsdóttur sem og Móa hrekkjusvín og Milljón steina í dalnum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Árið 2011 var Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt. Þá gaf ég út Neue Lyrik auf Island, sem er sýnisbók með nútímaljóðum eftir ýmis skáld á borð við Gyrði Elíasson og Vilborgu Dagbjartsdóttur. Þar að auki hef ég þýtt allnokkrar smásögur eftir ýmsa rithöfunda og allmörg ljóð eftir ýmis skáld sem birtust í ýmsum tímaritum og sýnisbókum.“

Þeir sem vilja setja sig í samband við Dirk geta sent honum línu. Póstfangið hans er Dirk Gerdes, Norddeutsche Strasse 31, 24143 Kiel, Þýskalandi. En það er líka hægt að senda honum tölvupóst. Netfangið hans er dirk_gerdes@gmx.de.

Ritstjórn janúar 12, 2018 10:26