Límonaði frá Díafani er heillandi saga. Elísabetu Jökulsdóttur tekst snilldarlega að koma æskuminningum sínum frá Grikklandsdvöl fjölskyldunnar í lifandi og fallegan búning. Sjónarhorn barnsins er ríkjandi lengst af og aðdáunarvert hversu vel hún man og hve dásamlega henni tekst að lýsa öllu með þessum bernsku augum.
Þrátt fyrir að Ella Stína sé spennt að fara til útlanda og hún sé heilluð af sólinni, sandinum, húsunum og skrautlega klæddu barni er undiraldan þung. Hún er ekki nema átta ára og það er í hennar verkahring að passa Hrafn, yngsta bróður sinn. Hún skynjar einnig óljóst spennuna milli foreldranna. Kvíðinn birtist í formi ísbjarnar sem eltir hana frá Íslandi og felur sig undir rúminu.
Hún á líka þennan pabba, sem vomir yfir svo stór í sniðum, svo mikilvægur og kann að segja frá en ekki að hlusta. Móðirin er meira í bakgrunni og segir henni seinna að bjartar minningar Ellu Stínu um ilmandi brauð og gómsætt giros séu ekki alls kostar raunsannar því stundum hafi ekkert verið til að borða.
Þessi þriðja minningarbók Elísabetar er jafndásamleg þær fyrri, Aprílsólarkuldi og Saknaðarilmur. Hún er sannarlega sú fallegasta og mest heillandi af þeim vegna þess að hér birtist ljóslifandi saklaus heimur barnsins. Hæfnin til að gleðjast yfir litlu og laga sig að ótrúlegustu aðstæðum. Allur texti sem Elísabet sendir frá sér ber það með sér að hún er ljóðskáld í grunninn. Henni er svo lagið að draga upp ljóslifandi myndir, sviðsetja og skila til lesandans andblæ og umhverfi. Þetta er ein af þessum bókaperlum sem maður geymir á náttborðinu bara til að geta teygt sig í og lesið þegar verulega vantar að breyta hversdagsgrámanum í gult límonaði frá Díafani.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.