Þuríður Sigurðardóttir er komin heim og ekki tómhent. Hún er með brot af íslenskri náttúru í malnum sínum auk muna sem fundist hafa á Laugarneshólnum í seinni tíð. Hér er auðvitað um að ræða málverk sem þessi einstæða listakona sýnir um þessar mundir í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnesinu í Reykjavík þar sem hún ólst upp.
Laugarnesið er enn í dag sérstæð vin í eyðimörkinni ef líkja má borgarlandslaginu við sandauðn. Þar er mikið um óspillta náttúru og eina ósnerta fjaran á norðanverðri strandlengju Reykjavíkur. Þuríður fæddist í Laugarnesbænum og þegar hún steig sín fyrstu spor á nesinu var þar allt öðruvísi um að litast en nú. Pabbi hennar hélt hesta og kindur en auk þeirra héldu bræður hennar hænur, endur og dúfur á bænum.Sigurður Ólafsson pabbi hennar var þekktur söngvari en dóttir hans ætlaði ekki að feta þá leið. Þuríður segist hins vegar hafa flækst út í sönginn.
„Já, það má eiginlega segja að flest sem ég er þekkt fyrir hafi ég flækst út í án þess endilega að ætla mér að gera það,“ segir hún. „Hlutirnir hafa einhvern veginn komið til mín. Ég var unglingur í skóla við hliðina á Þórcafé þar spiluðu Lúdó og Stefán og Gulli í Karnabæ var þá umboðsmaður og sá meðal annar um unglingaskemmtanir í Lídó sem seinna varð Tónabær. Þetta var fyrsti vísirinn að unglingaskemmtunum og þarna voru unglingar að verða fólk sem átti sér líf.
Gulli hafði mikinn áhuga á að fá unglinga til að skemmta jafningjum sínum og hringdi því í mig. Mér fannst þetta fáránleg hugmynd en bróðir minn Ævar og hann spiluðu saman handbolta og Gulli upphaflega viljað fá hann sem hann tók ekki í máli en benti á mig í staðinn. Eftir töluverðar fortölur fór ég yfir og söng með hljómsveitinni í Þórscafé. Ég var rosalega feimin sem barn og unglingur og þetta var ekki fyrir mig. Mér fannst þó gaman að hafa prófað þetta. Það næsta sem ég vissi var að Gulli auglýsti mig og þá varð maður bara að standa sig. Pabbi spurði mig einmitt: „Þura, ert þú að fara syngja?“ En þá var nafnið mitt komið í blöðin.“
Fékk bestu tilsögn sem hægt er að hugsa sér
Söngurinn varð síðan aðalatvinna Þuríðar um langt skeið. Þannig æxluðust hlutirnir þótt hún hafi sjálf ætlað sér annað. „Ég hafði hug á að fara í frekara nám,“ segir hún, „og það var allt á myndlistarsviðinu. Ég hafði látið mér detta í hug leikhúsförðun og langaði að fara til London til að læra það. Mér var ráðið frá því, enda þóttu ekki atvinnumöguleikarnir ekki miklir. Þjóðleikhúsinu nægði einn maður til að sjá um það, enda sá enginn fyrir sjónvarpið, kvikmyndirnar og allt það sem seinna kom.
Ég byrjaði að starfa með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og það var kannski mín gæfa í lífinu. Að vinna með jafngóðum músíkant og Magnús var er góður skóli. Hann var ofboðslega vandvirkur og fylginn sér í öllu sem hann gerði og var með afbragðsmenn með sér. Ég dett inn í þetta umhverfi á sama tíma og Vilhjálmur Vilhjálmsson söng með hljómsveitinni. Ég fékk þá bestu tilsögn sem hægt var að hugsa sér. Hljómsveitin var líka þannig að við rödduðum mjög mikið og þess vegna gat enginn hætt svona af því bara. Gífurlega vinna lá að baki öllu sem við gerðum og flest lög fjór- og fimmradda. Texta- og nótnablöð fóru aldrei upp á svið og hver og einn því mjög mikilvægur.
Áhorfendahópurinn var mjög fjölbreyttur. Við spiluðum fyrir dansi um helgar en það var spilað sex kvöld vikunnar. Þetta var eina vínveitingahúsið í Reykjavík sem opið var á virkum dögum svo það eru mjög breyttir tímar. Virka daga var þetta meira eins og tónleikar. Þá kom áhugafólk um tónlist og fólkið sem var að vinna um helgar, tónlistarmenn, leigubílstjórar, þjónar og kokkar og sat og hlustaði. Tónlistin var mjög fjölbreytt.
Árið 1972 var ég tuttugu og þriggja ára og varð allt í einu voðalega leið á þessari vinnu, aðallega vegna þess að mér fannst ég ekki kunna neitt og geta neitt. Allt mitt líf snerist um tónlist og mér fannst ég illa að mér um annað. Þá dettur inn á borð hjá mér tilboð um að starfa sem flugfreyja á Spáni. Mér fannst það alveg upplagt á meðan ég væri að hugsa málið að fá tækifæri til að ferðast. Ég fer þangað og flaug hjá flugfélagi sem hét Air Spain. Þeir voru að fljúga fyrir Guðna í Sunnu og vantaði þess vegna íslenskumælandi flugfreyju og þeir vildu þjálfa hana sjálfir. Ég var í fjóra mánuði á Mallorca og flaug út um allt. Þetta var algjörlega ný veröld fyrir mig.“
Í Listaháskóla á miðjum aldri
Þuríður kom heim að loknum ráðingartímanum á Spáni. Hún byrjaði strax að syngja aftur en flugfreyjustarfið elti hana líka.
„Guðni í Sunnu hringdi í mig. Hann var þá búinn að stofna eigið flugfélag, Air Viking og spurði hvort ég væri ekki til í að koma og fljúga hjá honum. Í framhaldinu réð ég mig hjá Arnarflugi og flaug hjá þeim þar til þeir lokuðu dyrunum,“ segir Þuríður. „Framan af var ég að fljúga á sumrin en syngja á veturnar. Flugfreyjustarfið var á þessum árum mjög ævintýralegt því maður lenti í verkefnum eins og pílagrímaflugi á slóðum sem maður hefði ekki getað heimsótt annars. Meðal annars fórum við til Saudi Arabíu en þar var ekki tekið á móti ferðamönnum og maður þurfti að hafa erindi inn í landið.“
Á miðjum aldri söðlar Þuríður svo um og ákvað að láta gamlan draum rætast og sótti um inngöngu í Listaháskóla Íslands og þaðan útskriftast hún 2001. Eftir útskrift leigði hún ásamt nokkrum öðrum skólafélögum húsnæði á Laugaveginum. Hún og skólafélagar hennar brölluðu margt og notuðu meðal annars autt verslunarhúsnæði í nágrenninu til sýningarhalds og kölluðu Opna Galleríið. Þar bauðst listamönnum að sýna einn dag. Þetta vakti mikla athygli og fólk hafði ákaflega gaman af að þessu uppátæki.
Einstaklega falleg sýning
Á þessari nýju sýningu er að finna úrval verka frá tveimur stöðum þar sem hún hefur búið lengst og kallað heima. Þarna er að finna ótrúlega nákvæm og fallega unnin verk þar sem rýnt er feld hrossa og hárafar þeirra kannað ofan í kjölinn, hrauntröðin Búrfellsgjá er sömuleiðis könnuð af nákvæmni, frostrósir og minningar frá æskuheimilinu.
„Fyrir nokkrum árum langaði mig að gera hestunum einhver skil og mér þótti ekki áhugaverðar myndir af hrossum sem koma vaðandi á móti mér. Aðrir hafa gert það vel en eitt sinn var ég að strjúka hesti og horfa ofan í feldinn. Þá fór ég að hugsa um þetta samband milli hests og manns. Ég málaði þess vegna á striga afmarkaðan blett á feldi eins hestanna okkar og gerði síðan röð mynda um þetta efni. Þótt ég máli annað á milli hverf ég alltaf aftur í þessar hestamyndir. Þær eru raunar tímafrekar því ég mála nánast hvert hár fyrir sig en það er eitthvað sem kallar á mig. Þetta er auðvitað bilað,“ segir Þuríður og hlær.
Í sýningarskrá heima og heiman segir að Þuríður vilji bjóða gestum inn í hugarheim barnsins sem ólst upp í Laugarnesinu. Hún var forvitið barn og naut þess að skoða og kanna. Frostrósir og norðurljós birtast okkur einnig eða kannski eru þetta ekki norðurljós ef vel er að gáð, hugsanlega eru þetta jöklar að bráðna vegna skeytingarleysis mannanna um eigið umhverfið.
Þuríður hefur barist ötullega fyrir því að Laugarnesið fái að standa óhaggað og reynt að koma í veg fyrir að borgin búi þar til nýja landfyllingu og eyði þarna gömlu bátalægi og fjörunni. Á nesinu hefur verið búið frá landnámi. Laugarneshóllinn er í dag að skila upp á yfirborðið hlutum sem eiga sér ókannaða sögu og suma þeirra hefur Þuríður málað og þeir fá nú nýtt líf í verkum hennar. Þessi listamaður hefur margt að segja. Augað er næmt og sér fegurðina í hinu smáa en nemur einnig þann boðskap sem náttúran færir. Hvort sem Þuríður málar norðurljós, bráðnandi jökla, lífseigar plöntur sem segja okkur að þegar allt kemur til alls getur lífið sigrað og náð að blómstra þrátt fyrir harðneskjulegar aðstæður.
Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.