Ótrúlega skynugar skepnur eftir Shelby Van Pelt er frumleg og skemmtileg skáldsaga sem erfitt er að flokka eftir bókmenntagreinum. Þetta er einhvers konar sambland af því sem kallað er „feel good novel“ á ensku og ráðgátusögu. Maður að nafni Ove og Maj Britt var hér eru dæmi um „feel good“ bækur og ráðgátur er auðvitað að finna í sakamálasögum og bókum sem snúast um að koma upp um leyndarmál. Öðrum þræði hverfist sagan um mannshvarf en meginþemun er sorg, einmanaleiki, þörfin fyrir að þekkja rætur sínar og mynda hvernig mannfólk myndar tengsl sem breyta öllu jafnvel þótt þau séu við risakolkrabba í búri.
Fyrsta aðalpersónan sem við hittum fyrir er einmitt téður kolkrabbi, Marcellus. Hann er orðinn gamall og veit að hann á ekki langt eftir og skemmtir sér við að opna búrið sitt á kvöldin eftir allir starfsmenn sædýrasafnsins þar sem hann býr eru farnir heim. Ein starfsstúlka er þó eftir, hin sjötuga Tova, og milli þeirra myndast vinátta. Marcellus er bráðgreindur og skynjar mun meira með sínum átta örmum og ótal sogklukkum en menn munu nokkru sinni geta gert sér grein fyrir.
Tova hefur nýlega misst mann sinn en sonur hennar, Erik, hvarf þegar hann var átján ára. Hún er fyrsta flokks skúringakona og vel kynnt í smábænum Sowell Bay þar sem hún býr. Þegar hún fær þær fregnir að bróðir hennar hafi látist í þorpi fyrir eldra fólk heldur hún þangað til að sækja eigur hans. Þar tekur hún þá ákvörðun að selja húsið sitt og flytja í þorpið því hún er einstæðingur og engin fjölskylda til að hugsa um hana ef heilsan tæki að bila.
Lært að lifa með sorginni
Um líkt leyti kemur ungur og rótlaus maður til Sowell Bay í leit að föður sínum. Þau Cameron Cassmore og Tova kynnast þegar hann leysir hana af við þrifin á sædýrasafninu og þar taka verðmæt tengsl að myndast. En Tova veit ekki nákvæmlega hvað kom fyrir Erik aðeins að hann hafði horfið úr miðsöluskúrnum þar sem hann vann og skömmu síðar rak á land mannlausan bát sem tekinn hafði verið traustataki í höfninni þennan sama dag. Allar líkur eru því á að Erik hafi drukknað.
Margar áhugaverðar og skemmtilegar aukapersónur koma við sögu en lesandinn fær að fylgjast með hvernig þessi þrjú, Marcellus, Tova og Cameron ná öll að finna sátt í sálinni hvert á sinn hátt. Öll eru í sorg hvert á sinn hátt. Marcellus syrgir það að vera fangi í búri í stað þess að njóta síðustu ævidaganna í myrku djúpi hafsins, Tova saknar fjölskyldu sinnar og Cameron þráir að skilja hvaðan hann kemur og hvers vegna móðir hans yfirgaf hann.
Bókin er fantavel skrifuð og virkilega spennandi. Það er beinlínis erfitt að leggja hana frá sér. Það er einnig frumleg og flott hugmynd að setja risakolkrabba úr Kyrrahafi í hlutverk aðalpersónu en flest það sem sagt er um gáfur og hæfni þessara einstöku sjávarlífvera er víst heilagur sannleikur. Áður hefur maður kynnst köttum, hundum, öpum, páfagaukum og jú, ýmsum öðrum dýrum í veigamiklum hlutverkum í bókmenntum fyrir fullorðna en þetta er í fyrsta sinn, að undirritaðri vitanlega, sem átta arma lindýr með þrjú hjörtu tekst að sigra hug og hjörtu lesenda. Þetta er fyrsta bók Shelby Van Pelt en enginn byrjendabragur er á henni. Hún er fyndin og frásagnarstíllinn léttur en undir niðri krauma margvísleg alvarleg þemu sem vert er að ígrunda. Það er nefnilega nauðsynlegt að sleppa fortíðinni eigi að vera hægt að skapa eitthvað nýtt en allir þarfnast þess að þekkja sannleikann um það sem þá gerðist eigi það að vera hægt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.