Heilsuefling eflir samvinnu og virkni

Þórunn Egilsdóttir

Þórunn Egilsdóttir þingmaður Framsóknar spurði Svandísi Svavarsdóttur um heilsueflingu aldraðra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í vikunni.

„Það er ljóst að virk heilsuefling eldra fólks, sem byggð er á samræmdum aðferðum, bætir bæði líkamlega og andlega heilsu, dregur úr innlögnum á heilbrigðisstofnanir og þar með álagi á heilbrigðiskerfið. Sjúkraþjálfarar veita þjónustu sem miðar að því að bæta, viðhalda og endurhæfa hreyfigetu og virkni fólks. Þeir aðstoða fólk á öllum lífsskeiðum þegar sótt er að hreyfigetu og virkni vegna öldrunar, slysa, sjúkdóma, kvilla, ástands, eða umhverfislegra þátta.

Vestræn samfélög hafa lagt aukna áherslu á að efla meðferð í formi þjálfunar undir kjörorðinu: Þjálfun er læknisfræðileg meðferð. Heilsueflingarverkefni eldra fólks efla einnig samveru og virkni hópsins og dregur úr einangrun þar sem regluleg hreyfing og skipulagðar æfingar veita fólki fastan punkt í tilverunni.

Bæjarfélög, í samstarfi við embætti landlæknis, hafa með góðum árangri unnið að verkefnum sem snúa að lýðheilsu og má þar helst nefna heilsueflandi samfélag sem flestir þekkja. Til viðbótar hafa Reykjanesbær og Hafnarfjörður gert samning um fjölþætta heilsurækt eldra fólks undir stjórn Janusar Guðlaugssonar og komast þar færri að en vilja.

Svandís Svavarsdóttir

Óþarfi er að fjölyrða um ávinning samfélagsins af slíkum forvörnum. Því liggur beinast við að spyrja ráðherra hvort uppi séu fyrirætlanir um að festa þessa nálgun í sessi. Eru uppi áform um að hefja samstarf sveitarfélaga og ríkis um heilsueflingu eldra fólks,“ spurði Þórunn.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra svaraði og sagði m.a: „Það er kannski allra fyrst um þetta að segja að málaflokkur aldraðra er mjög víða í kerfinu ef svo má að orði komast. Þau málefni eru auðvitað hluti heilbrigðismála og þar með forvarna og lýðheilsumála, þau eru félagsmál að öðrum hluta sem lúta að framfærslumálum og öðru því sem heyrir til verksviðs félagsmálaráðherra, en líka félagsþjónustu sveitarfélaganna. Öll þessi málefni skarast með einhverju móti. Það er mikilvægt að sveitarfélög og ríki stilli saman strengi betur en við höfum verið að gera að því er varðar samþætta framhlið þessarar þjónustu gagnvart þeim sem þjónustunnar njóta. Við höfum ekki gert nógu vel í þeim efnum að mínu mati. Þó eru mál sem eru til fyrirmyndar og m.a. þau sem háttvirtur þingmaður nefnir hér hjá tilteknum sveitarfélögum.

Ég held að ég geti svarað spurningu þingmanns þannig að það sé full ástæða til þess að styrkja enn þá betur það góða starf sem verið er að vinna og stilla betur saman strengi með þeim sem vinna þessi verkefni,“ svaraði Svandís.

Ritstjórn október 18, 2018 07:27