Hjartaknúsarinn sem fékk ekki að vera hann sjálfur

Af þeim Íslendingum sem muna árdaga sjónvarpsins eru án efa fáir sem ekki muna eftir Richard Chamberlain í hlutverki doktor Kildare. Göturnar tæmdust þegar þeir þættir voru á dagskrá og hið sama var upp á teningnum síðar þegar Þyrnifuglarnir voru á dagskrá. Nú er hann látinn þetta fágaða glæsimenni sem heillaði konur um allan heim en hélt því leyndu stóran hluta ævi sinnar að hann væri hommi.

Richard Chamberlain í hlutverki föður Ralphs í Þyrnifuglunum.

Richard lést þann 30. mars degi fyrir 91 árs afmæli sitt. Hann átti að baki langan og farsælan feril í sjónvarpi og kvikmyndum. Meðal þekktustu verka hans voru áðunefndir þættir Dr. Kildare, Þyrnifuglarnir, Shõgun, Greifinn af Monte Christo og honum brá fyrir í Five Brothers, Chuck, Nip/Tuck og seinni útgáfunni af Twin Peaks. Ein frægasta kvikmynd hans var The Music Lovers en þar lék hann tónskáldið Tsjakovskí og hlaut fyrir það Hann dró sig í hlé og hætti að vinna þegar hann var 85 ára en hann bar sig ævinlega vel og var alltaf jafn aðlaðandi. Síðustu árin bjó hann á Hawaii.

Þyrnifuglarnir voru gerðir eftir skáldsögu ástralska rithöfundarins Colleen McCullough. Bókin fékk metsölu út um allan heim og þættirnir voru sýndir víða og talið að meira en 110 milljónir manna hafi séð þá. Richard lék föður Ralph de Briccassart, kaþólskan prest sem verður ástfanginn af sóknarbarni sínu, hinni ungu og fallegu Meggie Cleary. Hann verður að velja milli konunnar sem hann elskar og starfsins. Hann hlaut Gullna hnöttinn fyrir frammistöðu sína í þáttunum en þau verðlaun vann hann einnig fyrir bæði Shõgun og Raoul Wallenberg.

Richard Chamberlain lék Raoul Wallenberg sænska diplómatinn sem hvarf í lok seinni heimstyrjaldarinnar eftir að hafa bjargað fjölda manna frá bráðum bana.

Fjölhæfur og hæfileikaríkur leikari

Hann var ákaflega fjölhæfur leikari og lék jöfnum höndum á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Hann var þekktur fyrir að sýna einkar vel sálarangist manna í kreppu. Hugsanlega náði hann svo vel að túlka þannig líðan vegna þess að sjálfur bjó hann yfir leyndarmáli. Hann var samkynhneigður en hélt því leyndu þar til hann var 69 ára. Þá kom út sjálfsævisaga hans, Shattered Love. Hann sagðist í viðtölum þá hafa áttað sig á að líf í ótta væri ekkert líf. „Ég hélt að það væri eitthvað mjög, mjög mikið að mér,“ sagði hann í viðtali við CNN. „Og ég vildi gera allt hvað ég gæti til að leyna því. Ég vildi ekki að neinn myndi vita þetta, aldrei. Ég man að ég gerði samning við sjálfan mig um ég myndi aldrei nokkurn tíma segja neinum þetta leyndarmál.“

Orðrómur um samkynhneigð hans hafði þó verið á kreiki lengi. Árið 1989 fullyrti blaðamaður fransks tímarits í grein um hann að hann væri hommi. Umboðsmaður Richards og almannatengill hans neituðu þessu strax og óstaðfestar sögusagnir héldu áfram að sveima um í fjölmiðlaheiminum. Þegar útgefandi í Bandaríkjunum frétti að Richard hefði gaman af að skrifa hafði hann samband við leikarann og bað hann að skrifa eitthvað fyrir sig. Richard byrjaði að setja eitthvað á blað en þegar það þróaðist út í minningar hófst togstreita innra með honum. Loks kom að því að hann gat sagt við sjálfan sig: „Richard, þú hefur verið á villigötum hér. Það er nákvæmlega ekkert að þér eða lífi þínu sem sem hinsegin einstaklingur. Það hefur nákvæmlega ekkert að gera með virði þitt sem manneskju. Láttu af þessari hræðslu og hættu að fela þig. Hættu þessu einfaldlega.“

Hann gerði sér þó grein fyrir að þessi játning myndi yfirskyggja allt annað sem kæmi fram í bókinni og sú varð raunin. Samt sagði hann frá ofbeldi og drykkjuskap föður síns þegar hann var að vaxa upp og ýmsu sem henti á löngu ferli hans í kvikmyndabransanum. Hann var þó alls ekki bitur út af þessu. Hann hafði löngu gert sér grein fyrir að þótt umburðarlyndi og viðurkenning á réttindum samkynhneigðra hefði aukist til muna í bandarísku samfélagi með eftir öfluga mannréttindabaráttu sjöunda og áttunda áratugarins gengdi öðru máli í Hollywood og ekki hvað síst þegar um var að ræða leikara sem var áberandi glæsilegur maður og fjöldi kvenna um allan heim dáði og dýrkaði.

Meiri hamingja hefði fylgt frelsinu

Hann sagði þó að hann hefði án efa verið hamingjusamari ef hann hefði getað verið hann sjálfur, verið frjáls en hann neyddist til að fara leynt með einkalíf sitt og sagði að það hefði smátt og smátt vanist. Richard fæddist og ólst upp í Beverly Hills í Kaliforníu, móðir hans, Elsa, var húsmóðir og pabbi hans, Charles, sölumaður. Richard átti einn eldri bróður, William. Eftir að Richard lauk prófi frá Pomona College var hann kallaður í herinn og hann barist í Kóreu. Hann hafði uppgötvað áhuga sinn á leiklist meðan hann var í skóla og þegar hann kom heim fór hann til Hollywood og hóf að leita fyrir sér eftir hlutverkum. Hann fékk nokkur smáhlutverk, eitt þeirra í vestra og þar kom sjónvarpsframleiðandi nokkur auga á hann.

Richard í hlutverki sínu í Shõgun.

Það vildi þannig til að framleiðslufyrirtæki hans var að leita að manni til að leika hlutverk ungs læknakandídats, Dr. Kildare, í samnefndum sjónvarpsþáttum. Framleiðandinn setti sig í samband við Richard og bauð honum að koma í prufu. Hann sló til og sló í gegn. Enginn átti von á þessum gríðarlegu vinsældum en án efa hafa þær haft eitthvað að gera með unga leikarann sem virtist ákaflega mannlegur og hlýr læknir. Dr. Kildare gekk í fimm ár og þættirnir voru seldir út um allan heim, meðal annars til Íslands.

Þess má geta að Richard hafði fallega söngrödd og NBC sjónvarpsstöðin sem framleiddi Dr. Kildare nýtti sér það og lét hann syngja einkennislag þáttanna. Þeir gerðu einnig tilraun til að gera hann að poppstjörnu og gáfu út litla plötu með því lagi og lagi Burt Bacharach, Close to You á B-hliðinni. Platan seldist eitthvað en minna varð úr söngferlinum en leiklistinni hjá Richard en hann átti þó eftir að syngja á sviði í Breakfast at Tiffany’s, My Fair Lady og The Sound of Music. Honum var boðið til Englands þar sem hann lék í þáttum gerðum eftir The Portrait of a Lady á vegum BBC og í kvikmynd The Madwoman of Chaillot, en þar lék hann á móti Katherine Hepburn.

Dr. Kildare var ákaflega fallegur maður.

Skytturnar þrjár, Shōgun og Þyrnifuglarnir

Árið 1973 lék hann Aramis í Skyttunum þremur og framhaldsþáttaröðinni sem spunnin var upp úr hinni fyrri. Eftir það komu nokkrar lítt eftirminnilegar kvikmyndir, The Towering Inferno þó sennilega þeirra skást. Árið 1980 var svo komið að því að hann fengi aftur hlutverk í sjónvarpi sem vekti athygli á honum um allan heim. Shōgun var eitt af mörgum sjónvarpsþáttaröðum sem komu í kjölfar, Róta, en allar fjölluðu þær á einn eða annan hátt um reynslu fólks af framandi menningarheimum. Shōgun byggði á skáldsögu James Clavell um enskan sjómann sem verður innlyksa í Japan á miðöldum og verður að bjarga sér sem best hann getur í heimi sem hann skilur alls ekki.

Í upphafi höfðu framleiðendurnir efasemdir um að Richard hentaði í hlutverkið. Þeir sáu alls ekki fyrir sér að þessi fíngerði maður gæti leikið enskan sjóara þaulvanan bardögum og erfiðisvinnu en leikarinn kom þeim öllum á óvart og Shōgun varð einn vinsælasti sjónvarpsþáttur allra tíma. Viðtöl við Richard birtust í ótal tímaritum og fjallað var um þættina í nánast öllum blöðum. Hann sagði að þarna hefði hann talið að hápunkti ferils hans væri náð en hann átti enn eitt trompið eftir. Árið 1983 var haft samband við hann og honum boðið að leika föður Ralph í The Thorn Birds. Upphaflega ætluðu menn að gera kvikmynd en horfið var frá því og ákveðið að búa til sjónvarpsþætti á vegum ABC-sjónvarpsstöðvarinnar.

Enn og aftur kom aðdráttarafl og útgeislun Richards Chamberlains mönnum á óvart. Skiptar skoðanir voru meðal framleiðandanna um hvort hann hentaði í hlutverkið. Sumum fannst hann of gamall en hann var 49 ára. En menn slógu til og Þyrnifuglarnir flugu um allan heim. Alls staðar sat fólk eins og dáleitt yfir skjánum og örlög þeirra Meggie og Ralphs komu út tárunum á mörgum.

Síðasta stóra hlutverkið sem Richard lék var í The Bourne Identity árið 1988. Það var löngu áður en Matt Damon fékk að spreyta sig á Jason Bourne. Richard lék hann og Jacklyn Smith lék Marie St. Jacques. Richard var tilnefndur til Gullna hnattarins fyrir hlutverkið en hann hefur fengið ótal slíkar tilnefningar í gegnum tíðina og unnið hnöttinn þrisvar. Síðustu hlutverkin sem hann tók að sér áður en hann hætti alveg að leika árið 2019 voru allt hlutverk homma.

Eins og áður hefur komið fram var Richard ákaflega hlédrægur maður og fór mjög leynt með einkalíf sitt. Hann átti hins vegar í löngu sambandi við leikarann Martin Rabbet en þeir skildu árið 2010.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 4, 2025 07:00