Hræðsla við heyrnartæki

 

Ellisif Katrín Björnsdóttir

Ellisif Katrín Björnsdóttir

Það er algegnt vandamál að heyrnin versnar með árunum, en samt er talið að það líði um 7 ár frá því að fólk verður vart við heyrnarskerðingu, þar til það leitar sér aðstoðar. Þetta segir Ellisif Katrín Björnsdóttir heyrnarfræðingur hjá Heyrn í Kópavogi. Líklega er það vegna þess misskilnings að eðlilegt sé að bíða með að fá sér heyrnartæki þar til að maður er orðinn gamall. Hvernig stendur á þessu?

Þetta er heyrnartækið sem maðurinn á myndinni hérna fyrir ofan er með

Þetta er heyrnartækið sem maðurinn á myndinni hérna fyrir ofan er með

Hver bíður með að fá sér gleraugu?

„Það er alkunna að bæði sjón og heyrn versna með aldrinum“, segir Ellisif Katrín. „Fólk, á öllum aldri, er með gleraugu og engum dettur í hug að segjast ætla að bíða með að fá sér gleraugu þar til hann er hættur að vinna, er orðinn eldri og nota peninginn frekar í eitthvað annað áður en hann fær sér gleraugu. Það sama á við um heyrnartæki, heyrnarskert fólk á öllum aldri hefur not fyrir heyrnartæki“.

Heyrnarskerðing getur lýst sér sem þreyta

„Í mörgum tilvikum virðast áhrif heyrnarskerðingar vera ómeðvituð. Menn vita ekki af henni og grunar ekki að þreyta í lok vinnudags og kulnun í starfi geti verið heyrninni að kenna, segir Ellisif Katrín. Hún segir að dönsk rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum sýni fram á þetta. Fólk treysti sér ekki í ákveðin verkefni og hættir störfum jafnvel fyrr en ella. Heyrnarskerðing geti líka dregið fólk niður, það einangrist og verði jafnvel þunglynt. Hún segir að fyrirtæki gætu haft akk af því að hvetja og styrkja starfsmenn til að fara í heyrnargreiningu.

Um 30% fólks á aldrinum 40 til 65 ára eru heyrnarskert

Heyrnarskerðing er lúmsk, maður getur heyrt þrátt fyrir hana en hljóðrófið heyrist ekki allt. Hátíðnihljóð hverfa til dæmis. Í margmenni, þar sem er skvaldur, eða annar hávaði, er erfiðleikum bundið að halda uppi samræðum því það er erfitt að greina tal viðmælanda frá öðrum hljóðum. „Sá, sem þannig er settur, virkar í sumum tilvikum sljór eða utan við sig, hann hváir oft og á erfitt með að vera í margmenni, í umferðinni getur hann átt í vandræðum með að heyra hvaðan hljóð berast en það veldur óöryggi“, segir Ellisif Katrín.  Ef menn grunar að þeir séu farnir að tapa heyrn er hægt að byrja á að taka heyrnarpróf á heimasíðunni www.heyrn.is Hér  Skrái menn sig þar inn, eru upplýsingarnar sendar Heyrn til skoðunar og heyrnarfræðingur metur hvort það er ástæða fyrir viðkomandi að fara í frekari greiningu eða ekki.

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 14, 2014 14:00