Að nota iPad til að rata í Kópavogi

Félag eldri borgara hefur verið með iPad námskeið í vetur sem hafa verið svo vinsæl að það er alltaf fullt og stöðugt bætt við nýjum námskeiðum. Það er pláss fyrir átta nemendur á hverju námskeiði, en kennt er í fjórar klukkustundir, auk þess sem hver nemandi fær einkatíma í klukkutíma, annað hvort í húsnæði Félags eldri borgara í Stangarhyl eða heima hjá sér.

Konunum þótti gaman á námskeiðinu

Konunum þótti gaman á námskeiðinu

Bætt við ef þörf krefur

Fimmta iPad námskeiðið er nú í gangi og tvö námskeið verða haldin í febrúar. Fleiri námskeiðum verður bætt við ef þörf krefur. Kennarinn á námskeiðinu heitir Björn Ágúst Magnússon. Hann er menntaður þroskaþjálfi með áhuga á tækni. Það var mikið leitað til hans um leiðbeiningar í sambandi við nýja tækni og það varð til þess að hann stofnaði lítið fyrirtæki sem heitir Frá grunni. Það sérhæfir sig í kennslu fyrir þá sem kunna ekkert eða lítið í nýjustu tækni.

Hvað gerir fólk við iPadinn?

Björn segir að það sé einstaklingsbundið hvort fólki þyki einfaldara að læra á tölvu eða iPad, en honum finnst að þeim sem sækja námskeiðin hafi gengið vel að tileinka sér notkun iPadsins. Hann segir mikilvægt fyrir fólk að átta sig á því til hvers það ætli að nota hann. Ætla þeir til dæmis að lesa bækur, horfa á myndir, spila bridge eða tala við ættingja í útlöndum á Skype? Það sé lykilatriði að finna hvar áhugi nemenda liggi og virkja hann.

Olga Aðalbjörg Björnsdóttir

Olga Aðalbjörg Björnsdóttir

Ekki haft tíma til að læra á tölvu

Á námskeiðinu sem nú stendur yfir eru eingöngu konur og konur hafa verið í meirihluta þeirra sem hafa sótt námskeiðin. Olga Aðalbjörg Björnsdóttir segist hafa farið á iPad námskeiðið vegna þess að hún kunni ekki neitt, hvorki á tölvu né önnur tæki. Hún segist ekki hafa haft tíma til læra á tölvu. „Ég er að vinna annan hvorn dag, svo prjóna ég, elda, passa barnabörnin og skutla barnabörnunum. Ég hélt að ég myndi hafa svo mikinn tíma þegar ég yrði fullorðin, en ég hef aldrei haft meira að gera“, segir hún og hlær. „Það er gaman að lifa á meðan maður hefur heilsu“, bætir hún við.

Hægt að nota iPad til að rata

Margrét Björgvinsdóttir

Margrét Björgvinsdóttir

Olga telur að það sé auðveldara að að læra á iPad en tölvu, þetta sé bara spurning um að gefa sér tíma.   Annar nemandi á námskeiðinu,Margrét Björgvinsdóttir, segir að iPad sé kannski auðveldari en tölva. Það sé líka auðveldara að taka hann með sér. „Ég er ekkert góð að rata og þurfti einmitt að fara í Kópavoginn um daginn og fór að hugsa um hvað það væri gott að hafa GSP staðsetningartæki við hendina, en það er í iPadinum“ segir hún. Hennar tæknáhugi snýst líka um að geta haft samband við þrjú börn sín, sem búa í útlöndum.

Ritstjórn janúar 22, 2015 10:58