Þankabrot um það sem breytist með aldrinum

Hörður Bergmann

Hörður Bergmann

Hörður Bergmann skrifar

Það gefst meiri tími til að sinna hugðarefnum eftir að maður fær laun án þess að mæta til vinnu. Og þegar fram líða stundir breyta margir því sem hugurinn snýst einkum um. Ég er til dæmis næstum hættur að pæla í því hvernig horfir með landsstjórnina og þjóðarhag. Það ber ekki að skýra með leiða, leti eða breyttu viðhorfi. Með aldrinum hneigjast líklega flestir að því að líta sér nær – árin segja til sín. Tilgangur lífsins orðinn nærtækur.

Ég held það sé ráðlegt að sætta sig við það að komast ekki alveg þangað sem hugur stendur til. Mestu skiptir í hvaða átt er haldið. Leiðin verður greiðfærari ef við stöldrum öðru hverju við og leitum svara við því hvað okkur langar í raun mest til að varðveita, rækta og þróa. Og sinna svo því sem okkur er hugleikið, vafningalaust.

Gömul og ný mistök vilja stundum festa sig í minni – og angra okkur lengi vel. Hafi maður samt öðlast sæmilegt sjálfstraust má ætla að það byggist meðal annars á því að læra af mistökum. Og því ekki ástæða til að láta þau valda hugarangri.

Með aldrinum verður erfiðara að leika sjáfan sig, reyna að snurfusa eins konar óskaímynd sína. Kannski falla einhver hlutverk í gleymsku, eða þá að ekkert er lengur á sviðinu sem kallar þau fram. Það gleymist að sýnast og látast. Þar með getur endastöðin á leiksviði lífsins reynst hlýlegri en ella.

Ég held að með árunum dragi úr áhuga fólks á því að lesa bækur spennunar vegna. Hugurinn hneigist frekar að bókum sem reynast innri spegill, draga eitt og annað fram úr hugskotum lesandans sem vekur forvitni og löngun til að skoða nánar eitthvað í hegðun manna og hugsjónum. Skerpir sýn á það sem stendur manni næst.

Maður verður kulvísari með árunum. Þá er gott að eiga góða sokka og mjúkan trefil, svo ekki sé minnst á þann munað að geta ornað sér við hægan ástareld.

 

Ritstjórn nóvember 23, 2015 12:08