Hrakningar á heilsuvegum

Jón Sigurður Karlsson.

Jón Sigurður Karlsson sérfræðingur í klíniskri sálfræði (og heilsuhagfræði) skrifar

Á síðustu öld kom út bókaflokkurinn Hrakningar á heiðarvegum eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson. Þetta eru sannar sögur af fólkinu í landinu, ferðalög milli hreppa og landshluta, á heiðavegum og vegleysum í vályndum veðrum. Hrakningasögur nútímans birtast frekar í “glanstímaritum” og helgarblöðum sem frásagnir af fólk sem hefur verið lengi ranggreint eða“verður úti” á milli kerfa, þar sem enginn telur sér skylt að veita eða borga fyrir þjónustuna. Þetta síðastnefnda þarf ekki endilega að vera vandamál hjá vel stæðu fólki, eða hjá þeim sem setja sjálfa sig í fyrsta sæti og fjárfesta í sjálfum sér. Svo eru biðlistar oft svo langir að hluti “bíðenda” lifir ekki að verða númer eitt, gleymist, dagar uppi eða verður úti.

Svona getur gerst hjá konum sem örmagnast og lenda í kulnun, svo er aukin áhætta hjá þeim sem eru með ómeðhöndlað ADHD. Kona sem var búin að vera hjá VIRK í meira en eitt ár (2017-2018), hafði unnið hjá sprotafyrirtæki þar sem var mikil vinnuharka, hún var örmagna þegar hún sagði upp. Eftir eitt ár í viðbót og greiningar og meðferðir hjá fæstustu sérfræðingum í einkarekstri hefur hún náð miklum framförum en að áliti sérfræðinganna er endurkoma á vinnumarkað ekki enn tímabær. Konan fjárfesti í sjálfri sér frekar en að vera út- eða afskrifuð af VIRK.

Sum biðlistavandamál má leysa í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu, með aðkomu Sjúkratrygginga Íslands, en það eru lagðar ýmsar hindranir í veginn, flókið mál að fá blessun “siglinganefndar” eða ferðakostnað greiddan. Líklega má leysa stóra hluta af heilsuvandamálum okkar með evrópska sjúkratryggingakortinu og góðu kreditkorti ef um er að ræða bráð veikindi á ferðalögum. Það er meira mál ef við viljum fá fyrirsjáanlega meðferð eða aðgerð sem við teljum að þoli ekki ársbið. Svo er vaxandi fjöldi sem velur að flytja til annarra EES-landa og getur með því að flytja lögheimili komist inn í skilvirkari, einföld eða margföld, heilbrigðiskerfi.

VIRK starfsendurhæfingarsjóður hefur verið góð viðbót við Sjúkratryggingar, greiðir fyrir heilsutengda þjónustu sem Sjúkratryggingar greiða ekki. Eftir að VIRK hefur starfað í áratug með góðum árangri hefur það orðið að stofnun sem gætir þess vel að borga ekki það sem Sjúkratryggingar eiga að borga, það er vaxandi fjöldi sem verður úti á einskis manns landi milli VIRK og Sjúkratrygginga. Þetta á við um konur eldri en 45 ára og karlmenn eldri en 55 ára sem missa vinnu, en eru jafnframt komin með verulega kulnun í starfi og ekki með orkuna sem þarf til að byrja í nýju starfi. Það getur auk þess vaxið mörgum í augum að þurfa að vinna til sjötugs, á lágum launum, til þess að fá mannsæmandi? eftirlaun.

Hvað er til ráða? Einn möguleiki er að kaupa þjónustu í tvöfalda heilbrigðiskerfinu, hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum í heilbrigðisgreinum og greiða með ánægju. Næsta skref er að fela mannréttindalögmanni innheimtu á reikningnum, hjá Sjúkratryggingum eða VIRK, Heilbrigðis- eða Félagsmálaráðuneyti. Það kann að vera að einhverjum finnist þetta djarft eða jafnvel ósvífið? Því er til að svara að réttur okkar í almannatryggingakerfinu byggir á því hversu lengi við höfum verið búsett hér á landi. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gerir líka ráð fyrir flutningi réttinda milli landa, þannig að maður getur átt samsettan rétt hjá TR byggt á búsetu t.d. á Íslandi i 15 ár og 25 í Póllandi. Auk þess getum við átt rétt til greiðslu úr lífeyrirssjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga eftir því hvað við höfum greitt lengi.  Við gætum átt rétt á atvinnuleysisbótum eftir því hversu mikið tryggingagjald hefur verið greitt af launum okkar og það sama gildir um greiðslur frá VIRK. Þetta sjónarmið á sér stoð í lögum um bann við mismunun frá 2019, þar sem það þurfti að breyta lögum um orlof þannig að réttur til lengra orlofs byggist á starfsaldri en ekki lífaldri. (sbr lög 86/2018, 19. gr.) Lög um atvinnuleysistryggingar gera ráð fyrir tekjutengdum bótum í 3 mánuði, eftir það fá allir það sama til enda bótatímabilsins óháð upphæð tryggingagjalds sem hefur verið greitt með hverjum og einum. Það sama gildir um þjónustu sem VIRK greiðir, það virðist ekki tekið tillit til lengdar greiðslutíma eða upphæðar tryggingagjalds. Miðað við anda laganna er það mismunun, en Heilbrigðisráðherra er heimilt að víkja samkeppnislögum til hliðar samkvæmt dómi hæstaréttar frá 2007. Hæstiréttur dæmdi í máli Sálfræðingafélags Íslands varðandi þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í kliniskri sálfræði. Þá var talið heimilt að víkja samkeppnislögum til hliðar til þess að ná ákveðnum markmiðum í opinberri heilbrigðisþjónustu. Í dag, tólf árum síðar, er spurning hvort það standist mikið lengur ef litið er til þess árangurs sem hefur orðið í eflingu opinbera heilbrigðiskerfisins. Þeim fjölgar greinillega sem lenda á milli þessara tveggja kerfa, fleiri enda ótímabært á örorku.

Þrátt fyrir allar hagræðingaraðgerðir halda biðlistar áfram að lengjast. Landspítali Háskólasjúkrahús er enn einu sinni að bregðast við hagræðingarkröfu, búið að fækka dýrum framkvæmdastjórum og auk þess vantar milljarð til þess að fjárlagaárið gangi upp. Eina svarið af viti er að létta byrðum af LSH, skilgreina betur kjarnastarfsemi, leita í tvöfalda kerfið, borga með ánægju og rukka stéttarfélagið eða VIRK. Svandís Heilbrigðisráðherra talar um að sérfræðingar í einkarekstri hafi tilhneigingu til að “tína út ábatasömustu þjónustuþættina”, sem getur vel verið rétt. Hins vegar mætti hún vera þakklát ef einhver vill liðsinna þeim sem hafa lent í hrakningum á heilsuvegum á einskis manns landi. Það eru ónotaðir peningar í sjóðum VIRK og víðar. Það er líklega skilvirkara að nýta betur fjármuni frá tryggingagjaldinu en að stofna til viðbótarsjúkratrygginga sem byggja á framlögum eða iðgjöldum tryggðra, en slíkt fyrirkomulag hefur verið lengi við lýði í Danmörku og örugglega víðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Það er ekki eftir neinu að bíða, hópmálsókn á vegum Gráa hersins er alveg gráupplögð.

 

Ritstjórn nóvember 12, 2019 08:17