Jón Sigurður Karlsson sálfræðingur skrifar:
Heilbrigðisráðuneytið vinnur af miklu kappi að því að efla heilbrigðiskerfið. Ráðuneytið hefur unnið að eflingu ríkisrekna kerfisins í tíð að minnsta kosti fimm ráðherra, Svandís Svavarsdóttir núverandi ráðherra er dugleg og fylgir stefnunni fast eftir. Það er í raun mjög takmarkað hvað ráðherra getur breytt stefnu ráðuneytisins eftir að vinnan er komin á skrið. Birgir Jakobsson er öflugur aðstoðarmaður ráðherrans og skriðþunginn er kominn á það stig að ráðuneytið valtar, viljandi eða óviljandi, yfir einkarekna sérfræðinga í ýmsum greinum, s.s. skurðlækningum, taugalækninum, geðlækningum og klínískri sálfræði. Til allrar hamingju eru til sérfræðingar sem sjá alltaf nokkra leiki fram í tímann og geta brugðist við áður en þeir og sjúklingar þeirra lenda undir “valtaranum”. Líklega er besta vörnin að hjálpa þjóðinni og opinbera kerfinu með markaðslausnum sem bjarga okkur frá heilsuspillandi einokun.
Kringum 1980 var öflug göngudeild á geðsviði LSH en þá voru margir geðlæknar sem fóru í vaxandi mæli að sinna sérfræðiþjónustu á stofum úti í bæ og gátu sinnt sömu sjúklingum þar með sveigjanlegri hætti en á göngudeildinni. Fyrirkomulagið var þannig að sjúklingar greiddu sama komugjald á báðum stöðum, TR/Sjúkratryggingar greiddu afganginn. Auk þess er líklegt að mörgum skjólstæðingum geðlæknanna hafi fundist þægilegra að hitta þá á stofum úti í lífinu frekar en á göngudeild geðsviðs. Þetta fyrirkomulag gekk framan af vel, en vaxandi biðlistar hjá sjálfstætt starfandi geðlæknum leiða kerfið í ógöngur.
Um svipað leyti eða í kringum 1980 sögðu tveir sálfræðingar á geðdeild LSH upp störfum og fóru í einkarekstur í fullu starfi, án aðkomu TR/Sjúkratrygginga. Flestir sérfræðingar í klínískri sálfræði sem hafa farið þessa leið hafa nóg að gera. Tvær konur í fremstu röð sérfræðinga í klínískri sálfræði töldu sig komast að því að hægri sinnaðir stjórnmálamenn reynist sálfræðingum best. Einn brautryðjandi sagði nýlega: „Hátt verð er besta gæðaeftirlitið“. Margir hafa líklega litið á þjónustu sálfræðinga sem fjárfestingu, sem borgar sig. Þeir sem hafa fengið þjónustu hjá ríkisstofnunum á geðsviði og félagssviði hafa aðeins borgað hluta af kostnaðinum, stundum með lágu komugjaldi, en með vaxandi biðlistum. Já, það er alveg eins og í Sovétríkjunum forðum daga, vörur voru ódýrar en menn borguðu viðbótargjald með því að eyða löngum tíma í biðröðum og oft voru hillurnar tómar þegar röðin kom að þeim. Það sama gildir um biðlista heilbrigðiskerfis okkar, stundum lifa menn ekki þann dag þegar þeim býðst langþráð þjónusta.
Í þessari stöðu er gott að hafa tvöfalt eða blandað heilbrigðiskerfi. Margir sjá greiningu og meðferð á einkamarkaði sem arðbæra fjárfestingu, eitthvað sem gerir gæfumuninn í námi, starfsframa og einkalífi. Það sama gildir um aðgerðir sem bæta lífsgæði verulega t.d. skipti á mjaðmarlið sem kostar 1,2 milljónir á Klinkunni í Ármúla en 3 milljónir í Svíþjóð með ferðakostnaði. Sjúkratryggingar mega kaupa aðgerðina af Svíum en ekki Klinikinni. Steingrímur Ari forstjóri Sjúkratrygginga er ekki alveg sáttur við þetta og talar um systurnar Skammsýni og Sóun í grein í Mbl, líklega við lítinn fögnuð í Heilbrigðisráðuneytinu.
Kostir og gallar tvöfalds heilbrigðiskerfis
Klinikin í Ármúla þarf ekki endilega að “væla” utan í Heilbrigðisráðuneytinu en getur boðið þjónustu sem léttir á biðlistum í ríkisrekna kerfinu og kostar Sjúkratryggingar ekki neitt. Hér mundi einhver segja nei, það á ekki að vera hægt að kaupa sig fram hjá biðröðinni. Já, en með því að fækka í biðröðinni geta þeir efnameiri flýtt því að hinir komist í lífsgæðabætandi aðgerðir. Nei, segir kerfið, þó það sé gott að fólk þurfi ekki að bíða þá gætu kapitalistarnir á Klinikinni lokkað til sín bestu skurðlæknana og greitt út arð í þokkabót. En ef þetta eru aðgerðir sem líka væri hægt að kaupa á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. Svíþjóð, þá er Klinikin ekki alltaf að keppa við LSH um bestu skurðlæknana. Í þessari stöðu er besti kosturinn fyrir Klinikina að standa á eigin fótum fjárhagslega (eins og þau gera líklega að hluta eða öllu leyti) og hætta að sækjast eftir viðskiptum við Sjúkratryggingar, láta ríkisrekna kerfið komast að því að það hefur meiri þörf fyrir Klinikina en öfugt. Sama getur gilt um sjálfstætt starfandi sérfræðinga í taugalækningum, geðlækningum og klínískri sálfræði?
Við í ritstjórn Lifðu núna hvetjum fólk til að senda okkur fleiri greinar um efni sem það telur eiga erindi við markhóp síðunnar.