Hrekkir, vorsáning og hreingerning í apríl

Apríl byrjar með hvelli ár hvert. Þann 1. apríl er siður að hrekkja samborgara sína og geri sitt besta til að láta þá hlaupa apríl. Ekki er alveg vitað hvaðan sá siður upprunninn en margir telja að dagurinn eigi rætur að rekja til hirðar Karls IX í Frakklandi. Hann hafði breytt dagatalinu á þann veg að nú byrjaði árið 1. janúar en hafði áður hafist í apríl og nýársdagur að jafnaði nálægt páskum. Margir náðu ekki alveg að meðtaka breytinguna strax og  kallaðir aprílfiskar sem seinna varð aprílfífl eða April fools og venja var að laumast til hengja pappírsfiska aftan á þetta fólk.

Aðrir telja hrekkina eiga upptök sín enn lengra aftur eða til Rómar hið forna. Hátíðin Hilaria var haldin í lok mars til að fagna vori og fólk klæddi sig upp í búninga, bar grímur og fór út göturnar til að skemmta sér. Margir notuðu þá tækifærið og hrekktu aðra, blekktu þá og leiddu í ógöngur.

Það er hins vegar skoskur siður að láta fólk hlaupa apríl og sennilega hefur hann borist hingað með landnámsmönum. Enn í dag leitast Skotar við að plata vini sína og ættingja til að fara eitthvert einungis til að uppgötva að ekkert bíður þeirra á áfangastað. Þetta er kallað, hunting the gowk, og menn reyndu einnig að hengja heimagerða hala eða skilti sem á stóð, sparkaðu í mig, aftan á viðkomandi. Íslensku öskupokarnir eru án efa náskyldir einmitt þessum siðum.

Fjölmiðlar gabba almenning 

Löng hefð er fyrir því að fjölmiðlar reyni að plata notendur sína þennan dag og nefna má að árið 1957, sagði fréttastofa BBC frá því að svissneskir bændur hefðu fengið óvenjulega góða spagettíuppskeru það árið og birtu myndir af fólki að tína spagettílengjur af trjám. Sænska sjónvarpið birti frétt þess efnis árið1962 að ef fólk teygði nælonsokk yfir skjáinn á sjónvarpinu sínu sæist útsendingin í lit. Margir reyndu en menn þurftu að bíða talsvert lengur eftir litasjónvarpi þar í landi. Íslenskir fjölmiðlar eru engir eftirbátar hinna erlendu. Þeir hafa boðað brunaútsölur á eftirsóttum vörum, gáma með vínföngum sem rekið hafi á land, að hamborgararisinn McDonalds hyggðist lögsækja Kópavogsbæ vegna þess að Kópavogskirkja sé stæling á lógó keðjunnar og að fljúgandi diskur átti að hafa lent á Mýrdalssandi árið 1954 samkvæmt frétt Tímans, flogið burt en skilið eftir sig djúpa dæld. Fjölmargir lögðu leið sína austur til að berja ummerkin augum.

Hins vegar varð aprílgabb Vísis árið 1977 að raunveruleika tuttugu og átta árum síðar en Vísismenn sögðu frá því 1. apríl það ár að skákmaðurinn Bobby Fischer hygðist sækja um íslenskan ríkisborgararétt og ætlaði að setjast hér að.

Apríl stendur hins vegar fyrir vöxt endurnýjun og endurreisn. Nafnið er talið dregið af latnesku sögninni aperire sem þýðir að opna og talið eiga vel við vegna þess að þarna voru fyrstu blómin að teygja sig upp úr moldinni og opna krónurnar. Ilmbaun eða freyjubrá eru mánaðarblóm aprílmánaðar og demantur mánaðarsteinninn. Hann stendur fyrir sakleysi og traust. Litir apríl eru gult, grænt, bleikt og himinblátt og stjörnumerkin hrútur sem nær frá 21. mars til 19. apríl og naut sem tekur við 20. apríl og endar 20. maí. Í Evrópu var þetta annar vormánuðurinn og tími til að plægja og sá. Apríl var einnig ætlaður til vorhreingerninga húsa og skyldi vetrargráminn hreinsaður vandlega burtu.

Nokkrar skemmtilegar staðreyndir um apríl:

Á Suðurskautslandinu er apríl samsvarandi við október á norðlægum slóðum.

Titanic rakst á ísjakann og sökk 15. Apríl.

Í Róm til forna var apríl mánuður helgaður ástargyðjunni Venusi.

Fjárhagsárið hefst 1. apríl í Japan.

Á Íslandi sést oft til eða heyrist í fyrstu heiðlóunni í apríl en hún boðar vorkomuna hér. Á Englandi er það hins vegar gaukurinn og þar bíða menn spenntir eftir fyrstu fregnum af komu hans.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 1, 2025 07:00