Eigum að hafa hátt – á kurteisan hátt

Dóra Haraldsdóttir

„Það sem ég vil gera núna og þess vegna gekk ég í Gráa herinn, er að koma skerðingunum burt úr lífeyriskerfinu“, segir Auður Dóra Haraldsdóttir nýr liðsmaður hersins. „Ég vil að við séum sjáanleg, förum í mótmælagöngur og látum í okkur heyra á almannafæri.  Það eru svo margir í þessari stöðu og þeir hafa ekki allir þrek til að standa í þessari baráttu. Þetta vita stjórnvöld, en við verðum að vera sýnileg og verðum að hafa hátt –  á kurteisan hátt“ segir hún.  Dóra eins og hún er jafnan kölluð er Vestmannaeyingur og byrjaði snemma að vinna.  „Ég byrjaði að greiða í lífeyrissjóð 1969 og þá var það kynnt þannig fyrir okkur að lífeyrissjóðurinn yrði viðbót til það sem við fengjum frá ríkinu þegar þar að kæmi.  Maður var alveg sáttur við það enda ættum við þá von á betra ævikvöldi, en þannig er staðan því miður ekki hjá mörgum“.

Ríkið með krumlurnar alls staðar

„Þessi skerðing króna á móti krónu er skelfileg“, segir Dóra. Hún vann úti alla sína ævi, en horfir á konur sem aldrei fóru út á vinnumarkaðinn , hafa ákaflega svipuð eftirlaun og hún hefur sjálf. „Þetta er svakalegt, ef ég ætti ekki minn séreignasparnað væri lífið ekki skemmtilegt hjá mér“, segir hún, en hún var svo hagsýn að byrja að safna séreignasparnaði um leið og það fyrirkomulag var tekið upp. „ Að taka lífeyrissjóðinn og skerða greiðslurnar frá TR á móti, mér finnst það siðlaust.  Það má heldur ekki eiga sparnað inni á bók. Ef ársvextirnir fara yfir 98 .000 krónur, þá er farið að skerða eftirlaunin frá TR, ríkið er alls staðar með krumlurnar. Þetta er það sem ég þoli ekki. Við erum búin að borga okkar skatta til að halda uppi samfélaginu og við eigum þennan rétt hjá TR“, segir hún og bætir við að það sé ekki bara siðlaust hvernig farið sé með eldri borgara í þessu landi, heldur líka mannréttindabrot.

Séreignasparnaðurinn gerir Dóru kleift að njóta lífsins. Hér á Tenerife

Missti vinnuna vegna hringls með frítekjumarkið

Þegar Dóra hætti að vinna 67 ára gömul, fékk hún vinnu tvisvar í viku og gat þá unnið sér inn 109.000 krónur á mánuði án þess að það skerti eftirlaunin frá TR. „Svo var frítekjumarkið lækkað í 25.000 krónur og þá tók því ekki að vinna lengur og ég hætti. Þegar það var hækkað aftur í 100.000 krónur um áramótin síðustu, var búið að ráða annan í starfið og ég fæ það ekkert aftur“ segir hún vonsvikin. „Það er ekki eitt heldur allt“.

Telur hægt að safna fyrir málshöfðun

„Ég veit ekki hvað hægt er að gera til að fá þessu breytt“ heldur hún áfram og segist hafa kosið Ingu Sæland í síðustu kosningum.  „Ég var alin upp í Sjálfstæðisflokknum en varð ekki pólitísk fyrr en ég varð 67 ára og fór að fá greiðslur frá Tryggingastofnun“. Hjá Gráa hernum og Félagi eldri borgara í Reykjavík  hafa menn unnið að undirbúningi málshöfðunar, til að fá úr því skorið hvort ríkið getur notað lífeyrissjóðina sem skálkaskjól til að skerða tekjur fólks úr almannatryggingakerfinu jafn mikið og raun ber vitni. Slíkt mál yrði kostnaðarsamt en  Dóra er ekki vafa um að það mætti safna fyrir slíkri málshöfðun meðal eldri borgara í landinu. „Ég held að það sé ekkert mál að fá eldri borgara til að borga 1000 krónur á mann, til að freista þess að fá þessu óréttlæti hnekkt“.

Þreif á meðan bræðurnir æfðu fótbolta

Auður Dóra fæddist í Reykjavík, en ólst upp í Vestmannaeyjum. Hún var eina stelpan í hópi sex bræðra, en þrír þeirra eru fallnir frá.  Hún þurfti að berjast fyrir sínu. „Á laugardögum átti ég að þrífa eldhúsið og taka til, en þá fóru þeir bræðurnir út að æfa fótbolta“, segir hún og þeir Ársæll, Sveinn og Kalli sem er látinn, áttu eftir að komast í íslenska landsliðið.  Einn bræðra Dóru var að vísu ekki í boltanum, hann heitir Hlöðver og býr í Eyjum eins og hinir bræðurnir sem eftir lifa. Dóra giftist snemma, eignaðist þrjá syni en hún og eiginmaðurinn skildu þegar hún stóð á fimmtugu. Þá voru þau flutt til Reykjavíkur og Dóra farin að vinna í fjármálageiranum. Hún byrjaði í Alþýðubankanum, fór í Íslandsbanka við sameiningu bankanna og síðan að vinna hjá Kreditkortum, þar sem hún hætti 65 ára.

Ertu endanlega orðin klikkuð?

Í millitíðinni hafði hún tekið sér frí  í bankanum.  „Þegar ég skildi, gekk mikið á og ég hafði þörf fyrir að komast burt. Ég tók mér því ársleyfi í vinnunni og fór sem au pair til Bandaríkjanna. Strákarnir mínir spurðu mig hvort ég væri nú endanlega orðin klikkuð. En þarna var ég í 10 mánuði til að aðstoða dótturina á heimilinu sem var að undirbúa sig fyrir bílpróf. Foreldrarnir höfðu ekki tíma til að sinna því og réðu mig í starfið. Ég var einkabílstjóri hennar og ók henni daglega í skólann og sótti hana“.

Dóra og Einar ferðast mikið saman

Féll hvorki fyrir bíldruslunni né fötunum

Þegar þarna var komið sögu voru foreldrar Dóru fallnir frá og synirnir fluttir að heiman. Tveir sona hennar búa erlendis. Elsti sonurinn í Bretlandi, en hann fór þangað í málaskóla, kynntist breskri stúlku og settist að þar, en annar vinnur á alþjóðasviði hjá Eimskip og býr núna í Rotterdam í Hollandi.  Yngsti sonurinn býr hér á landi og rekur sitt eigið fyrirtæki.  Barnabörnin eru níu og langömmubörnin tvö. Fyrir fimmtán árum fór Dóra á örlagaríkt þorrablót . „Þetta var hálf fyndið. Vinkona mín hringdi í mig um tvö leytið á laugardegi. Ég var að skúra og skipta á rúminu mínu og hún spurði hvort ég vildi koma með henni og manninum hennar á Þorrablót austur í Fljótshlíð. Ég sagði henni að mig langaði ekkert á þorrablót þar sem eingöngu væri gift fólk“. Eftir nokkrar fortölur ákvað Dóra þó að slá til, hljóp út í búð til að kaupa háralit, því hún þurfti að lífga upp á hárið, tók sig til í flýti og brunaði svo með þeim austur. Á ballinu hitti hún mann úr Fljótshlíðinni, Einar Sigurþórsson rafvirkja. Bæði voru þau fráskilin og tóku tal saman. „Svo æxlaðist þetta svona. Ég er mjög hreinskilin og sagði honum að ég hefði ekki fallið fyrir bíldruslunni hans eða fötunum sem hann klæddist, heldur fyrir því sem hann væri með í höfðinu, en hann er vel gefinn, víðsýnn og er mikill tungumálamaður“, segir Dóra.

Í fjarbúð í 12 ár

Þau Dóra eru gift í dag og hafa verið í fjarbúð í 12 ár, sem er óvenjulegt. „Ég er engin sveitastelpa, ég er borgarbarn“, segir hún. Þau hittast um helgar og fara saman í frí, eru á leið til Tenerife á næstunni og svo til Hollands að heimsækja son Dóru.  „Við ætlum svo í aðventuferð til Þýskalands með Bændaferðum í desember. Við lifum lífinu svo sannarlega lifandi“, segir hún og hlær og bætir við að sumar vinkonur hennar öfundi hana af að eiga mann í fjarbúð. Hún segist hafa mest gaman af því að vera fyrir austan á sumrin. Dóra segir að það sé yndislegt að vera hætt að vinna. Hún er í þremur kvennahópum sem hittast reglulega og hefur verið í gönguhópi hér heima og einnig farið í göngur með hópum í útlöndum. Það er séreignasparnaðurinn sem gerir henni þetta kleift.

 

Ritstjórn mars 23, 2018 09:20