Hættir að vinna í fullu fjöri

Stefanía Harðardóttir mannauðsráðgjafi hjá ISAVIA verður 67 ára í mars og þar með lýkur starfsævi hennar hjá fyrirtækinu, samkvæmt þeim reglum sem þar gilda. Hún segir að hún eigi eftir að sakna margs, sérstaklega litlu hlutanna sem tengjast vinnunni. Þess að taka til fötin fyrir næsta vinnudag á kvöldin og að vakna alltaf á sama tíma á morgnana. „Ég fer snemma í vinnuna og hlusta á útvarpið í bílnum, fyrst á RÚV og skipti svo yfir á Bylgjuna smástund til að hlusta á Gissur og fer svo aftur yfir á RÚV. Svo kem ég í vinnuna. Við hittumst mjög oft þrjú sem mætum svona snemma í kaffi klukkan um hálf átta. Ég á t.d. örugglega eftir að sakna þessa“ segir hún.

Starfsmannastefnan skrifuð

Stefanía er búin að vinna hjá ISAVIA og forverum þess, Flugmálastjórn og síðar Flugstoðum, í tæplega 20 ár og segir það mjög flott fyrirtæki. Hún hóf störf þar árið 1995 og sá þá um ferðalög og bókanir fyrir starfsmenn og almenna starfsmannaþjónustu, sem hún hefur alltaf verið í. Hún vinnur einnig við ráðningar nýrra starfsmanna, en það sem hún segist stoltust af sé, að árið 1999 tók hún að sér að skrifa niður starfsmannastefnu Flugmálastjórnar.

Hef kynnst aragrúa af yndislegu fólki

„Þá voru fyrirtæki   á Íslandi almennt ekki með starfsmannastefnu á blaði. Þorgeir Pálsson þáverandi flugmálastjóri og Sigrún Traustadóttir, framkvæmdastjóri fjármála fólu mér að sjá um þetta, þannig að þetta var ekki bara mitt verkefni. En þetta er það sem ég er einna ánægðust með af því sem ég hef lagt af mörkum í starfinu,“ segir Stefanía. Svo hef ég kynnst aragrúa af yndislegu og kláru fólki. Fyrirtækið er mjög tæknivætt og mikil framþróun á öllum sviðum“.

Hugsa um að sækja um nýtt starf

Aðspurð hvort hún sé eitthvað farin að velta því fyrir sér, hvað hún ætli að gera þegar launavinnunni lýkur, segir Stefanía að hún hafi hugsað ýmislegt. „Ég hef velt því fyrir mér að sækja um hálft starf annars staðar. Ég hef nú ekki mikla trú á að það gangi, fólk á mínum aldri er ekki eftirsóttasta fólkið í störf. Það er þó aldrei að vita, það getur verið að einhver hafi þörf fyrir mína reynslu og þekkingu. En það er svo spurning hvað maður sættir sig við að gera, þótt ég hafi ekki fordóma gagnvart ákveðnum störfum“.

Hætt að vinna og aldrei meira að gera

Stefanía segist hafa rætt við fólk sem er hætt að vinna og sumir segist aldrei hafa haft jafn mikið að gera. „Ég skil það nú ekki“, segir hún, „þegar fólk fær allt í einu 9 klukkustundir á dag til ráðstöfunar“. Hún segist hafa hugleitt sjálfboðaliðastörf „ En ég veit að ég verð dóttur minni innanhandar með litla barnið hennar, en hún er í námi og á hálfs árs gamalt barn. Og það geri ég með gleði“, segir hún með áherslu.

Ákveðin kaflaskil

Hún segist líka hafa gaman af sagnfræði og bókmenntum og hafi velt fyrir sér að taka kúrsa í þeim greinum. Hún sé búin að vita í fjögur ár að hún muni hætta að vinna 67 ára, en hafi alltaf fundist svo langt í það. „En nú er bara komið að þesssu. Þetta eru ákveðin kaflaskil og á maður ekki bara að njóta þess og gera það sem manni dettur í hug?“, segir hún. „Ég hef líka hugsað það“.

Þjóðhagslega óhagkvæmt

Stefanía hefur velt fyrir sér hversu þjóðhagslega óhagkvæmt það sé að borga henni eftirlaun eða lífeyri þegar hún þurfi ekkert á því að halda og sé fullfær um að vinna. „En svo er manni kippt út úr þessu öllu saman“. Það að fara á eftirlaun þýðir lægri tekjur fyrir flesta og Stefanía er þar engin undantekning. „Launin lækka um helming“, segir hún. Hún sé þó ekki í neinum vandræðum, skuldlaus manneskjan og þau tvö að sjá fyrir heimilinu. Það sé líka margt sem sparist við að hætta að vinna, svo sem fatakaup og bensínkostnaður.

Hjónin Ásgeir og Stefanía

Hjónin Ásgeir og Stefanía

Auðvitað verða menn að hætta

Hún segist gera sér grein fyrir að auðvitað verði fólk að hætta að vinna, eins og reglur kveða á um, en það sé eitt að láta fólk alveg hætta störfum, eða halda áfram í einhverjum verkefnum. Það hefði hún alveg getað hugsað sér, en það sé búið að flytja hluta verkefnanna hennar til annarra og auglýsa starfið hennar. Sömu reglur gildi um alla hjá fyrirtækinu, þeir verði að hætta 67 ára. Henni finnst skynsamlegt að fólk sem hefur verið í stjórnunarstörfum eins og hún stígi til hliðar með aldrinum, rými fyrir yngra fólki en taki að sér ákveðin verkefni úr fyrra starfi. „Það fer svo mikil þekking með fólki þegar það hættir“, segir hún.

Held hún fari að vinna aftur

Ásgeir Sigurgestsson maður Stefaníu kemur heim úr vinnunni þegar samtali Lifðu núna við hana er að ljúka. Hann er ekki í vafa um hvað tekur við hjá henni þegar hún hættir hjá ISAVIA „Ég held að hún fari að vinna annars staðar“, segir hann. „Það er þegar farið að bera í hana víurnar. Hún veit svo margt, er svo útsjónarsöm, ákveðin og fylgin sér“, bætir hann við.

 

 

 

Ritstjórn janúar 23, 2015 11:04